SONJU DIEGÓ MINNST
Í dag fór fram útför Sonju Diegó sem var starfsfélagi minn á upphafsdögum mínum á fréttastofu Sjónvarpsins. Nær væri að segja að ég hafi verið í hlutverki lærlingsins fremur en starfsfélagans, og hún lærimeistarns, því Sonja átti þá þegar langan starfsferil að baki en ég blautur á bak við eyrun.
Sonja var fædd árið 1936 og því orðin 88 ára þegar hún lést fyrsta júní síðastliðinn. Ég læt fylgja með mynd af Sonju frá hennar yngri árum þegar leiðir okkar lágu saman. Hún tólf árum eldri en ég, margreyndur fréttamaður, þýðandi og altmúligmanneskja, þegar ég kom til starfa á Sjónvarpinu, þrítugur að aldri, haustið 1978.
Ég sendi nokkur orð um Sonju Diegó inn á minningarsíður Morgunblaðsins sem ég læt fylgja hér:
Þegar ég kom til starfa sem fréttamaður í erlendum fréttum á fréttastofu Sjónvarpsins síðsumars árið 1978 var þar fyrir Sonja Diego. Ég minnist þess með þakklæti hve vel hún tók mér, hjálpsöm og velviljuð leiddi hún mig í allan sannleika um hvernig sjónvarpsfréttamaður í erlendum fréttum bæri sig að.
Fréttamannsstarfið á þessum tíma var mjög frábrugðið því sem síðar varð, Reuter og AP fréttastofurnar tikkuðu án afláts, hlustað var á BBC World Service, síðdegis farið að huga að því hvaða fréttaljósmyndir ætti að fá sendar fyrir kvöldið, farið í gegnum fréttafilmur sem borist höfðu með flugi, yfirleitt nokkurra daga gamlar, til að sjá hvað enn væri nýtilegt en síðan lesið sér til í erlendum blöðum og tímaritum. Úr öllu þessu voru síðan skrifaðar fréttir dagsins og svo fréttaukar sem við fréttamennirnir í erlendum fréttum reyndum að hafa að minnsta kosti einn á dag.
Fréttastofa Sjónvarpsins var með öðrum orðum ekki samkeppnisfær um það glænýjasta í myndefni sem var jú tilgangurinn með sjónvarpi að hafa á boðstólum. Við fréttamennirnir reyndum að bæta þennan missi upp með því að vanda innihaldið eins og okkur var framast unnt.
Það má segja að við höfum á þessum tíma verið á leiðinni með að verða sjónvarp með það glænýjasta ferskt á skjánum en aðferðafræðin hafi enn verið meira í ætt við útvarp og prentmiðla.
Þarna var Sonja Diego sem fiskur í vatni. Búin að starfa við fréttamennsku á Morgunblaðinu lengi vel áður en hún kom til Sjónvarpsins í byrjun áttunda áratugarins, og það sem meira er, í starfi sem byggði á því að afla gagna víða að naut hún annálaðrar tungumálakunnáttu sinnar, altalandi á mörg tungumál.
Ég man hve stoltur maður var þegar Sonja tók á móti erlendum gestum víðs vegar að sem taka átti fréttaviðtöl við sem þá gátu farið fram á þeirra eigin tungumáli. Enda fór það svo þegar hún sagði skilið við fréttastarfið til að taka að sé stjórnunarstarf hjá Iceland Review, að þá hélt hún áfram þýðingarvinnu fyrir Sjónvarpið og þýddi fjöldann allan af fréttatengdum þáttum auk þess að sinna annarri þýðingarvinnu.
Sonja Diego bauð af sér óvenju góðan þokka, glæsileg og áheyrileg enda fengin til að annast fréttalestur löngu eftir að hún lét af störfum sem fréttamaður.
Með þakklæti i huga kveð ég þessa velgerðarkonu mína frá árum áður og færi fjölskyldu hennar samúðarkveðjur.
---------------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.