Spilafíklar eru venjulegir Íslendingar
Birtist í Mbl. 16.02. 2003
Í Morgunblaðinu 11. febrúar birtist grein eftir Kristbjörn Óla Guðmundsson stjórnarformann Íslenskra söfnunarkassa sf. Aðild að þessu kassasamlagi eiga SÁÁ, Rauði krossinn og Slysavarnafélagið Landsbjörg þar sem Kristbjörn er jafnframt framkvæmdastjóri. Tilefni skrifanna er augljóslega það sem hann kallar "sérstaklega ósmekklegar" ásakanir í garð aðstandenda spilavéla; fullyrðingar um að þeir noti sér “veikindi fólks til að halda úti starfi sínu". Sannleikurinn sé allt annar. Samtök aðstandenda spilavéla hafi gert meira en nokkur annar til að upplýsa fólk um spilafíkn og bjóða upp á úrræði við henni.
Þær ásakanir sem Kristbjörn vísar til eru m.a. komnar frá undirrituðum. Ég hef sagt að spilakassaeigendur hafi peninga af fólki sem ekki er sjálfrátt gerða sinna. Kristbjörn segir að þetta eigi við um 0.6% þjóðarinnar. Ef það hlutfall væri rétt ættu hér í hlut um 1700 einstaklingar en ótaldar eru þá fjölskyldur og aðstandendur fíklanna sem deila með þeim sorglegum afleiðingum af bölinu. Þessi fjöldi nægir til að hafa ærnar áhyggjur af spilafíkn en bandarískar kannanir benda aftur á móti til þess að hlutfall hverrar þjóðar sem ánetjast fjárhættuspilum, þar sem þau eru á annað borð aðgengileg, sé mun hærra. Vísast í þeim efnum til vandaðrar úttektar Sigtryggs Jónssonar sálfræðings sem birtist í Morgunblaðinu 19. maí árið 2001.
Kristbjörn rekur ýmis dæmi um úrræði sem aðstandendur spilakassanna hafa boðið upp á í seinni tíð. Hann nefnir hjálparlínu þar sem fólki gefst kostur á ráðgjöf meðferðarfulltrúa, námskeið, uppplýsingavef og útgáfu forvarnarbæklings. Síðast en ekki síst minnir hann á að hingað hafi komið í boði samtakanna erlendir sérfræðingar í spilafíkn. Hér er væntanlega vísað til heimsóknar Bandaríkjamannsins Stowe Shoemaker, sem kynntur var sem háskólakennari í Reno og Las Vegas. Hann flutti erindi á Grand Hótel í Reykjavík þar sem hann réttlætti spilavíti og hlaut að launum dynjandi lófatak hagsmunaaðila.
Það er rangt hjá Kristbirni að aðstandendur spilakassanna hafi gert og geri "allt sem í þeirra valdi stendur og líklega meira en nokkur annar til að upplýsa almenning um spilafíkn". Ég sótti fundinn á Grand Hótel og árum saman hef ég fylgst með tilraunum spilakassaeigenda til að gera lítið úr útbreiðslu og afleiðingum spilafíknar. Mér er líka fullkunnugt um að það var ekki fyrr en spilafíklar sjálfir, aðstandendur þeirra og Áhugamenn gegn spilafíkn risu upp og buðu til landsins sérfræðingum sem vöruðu við spilafíkninni að eitthvað fór að gerast í því forvarnarstarfi sem Kristbjörn tínir til. Reiði og andúð hafa oftar en ekki verið viðbrögðin þegar fulltrúar Áhugamanna gegn spilafíkn hafa nálgast spilakassaeigendur.
Sigtryggur Jónsson sálfræðingur segir í áðurnefndri Morgunblaðsgrein að hann sakni af hálfu aðstandenda spilakassanna "umræðunnar um hvers konar lífi sá lifi, sem haldinn er spilaáráttu, hvernig löngun hans til að spila getur orðið óviðráðanleg, hvernig skömmin, sviksemin við nánustu vini og ættingja er stöðugur fylgifiskur, hve afneitunin á eigin vanda er alger, hve trúin á það að geta bætt fjárhagsstöðuna ... er staðföst. Eða hve angistin, depurðin, kvíðinn og sjálfsvígshugmyndin er daglegur förunautur þeirra, sem lengst og dýpst eru sokknir og hve mörg sjálfsvíg má beinlínis rekja til spilaskulda, sem skipta tugum milljóna króna hjá einum og sama spilaranum." Ef marka má grein Kristbjörns virðist spilakassaeigendum enn skorta kjark til að taka þátt í þessari erfiðu umræðu en þor til þess væri risastórt skref í öllu forvarnarstarfi – og kannski upphafið að endalokum vandans.
Hvorki ég né Sigtryggur erum einir um að spyrja um ábyrgð aðstandenda spilakassanna. Í leiðara Morgunblaðsins 3. apríl 2001 var t.a.m. spurt "hvort þau samtök, sem um ræðir, telji sér sæmandi að afla fjár með rekstri fjárhættuspila."
Í niðurlagi greinar sinnar segir stjórnarformaður Íslenskra söfnunarkassa sf : "Rauði krossinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg og SÁÁ munu ekki sitja undir því að vera ásökuð um að nýta sér veikindi fólks til að fjármagna starfsemi sína. Þvert á móti gera þau allt sem í þeirra valdi stendur til að hjálpa því fólki sem á við þetta vandamál að stríða og vekja athygli almennings á því."
Ég ætla ekki að efast um góðan vilja stjórnarformanns Íslenskra söfnunarkassa sf að hann vilji allt gera til að hjálpa þeim sem ánetjast hafa spilavélunum. Ég verð þó að játa að ef dæma skal af skrifum hans gerir hann sér ekki nægilega vel grein fyrir því hve alvarlegt málið er. Þetta getur hann þó afsannað með gerðum sínum. Áhugamenn gegn spilafíkn beindu þeirri áskorun til aðstandenda spilakassa fyrir aðeins fáeinum dögum að nú yrði stigið það skref "að banna spilavélar úr sjoppum, matsölustöðum og annars staðar þar sem ætla má að unglingar hafi aðgengi að vélunum." Nú er spurt: Eru aðstandendur spilakassanna tilbúnir að verða við þessum kröfum Áhugamanna gegn spilafíkn?
Kristbjörn segir í grein sinni að spilakassarnir hafi upphaflega verið settir upp til að gefa "venjulegum Íslendingum" færi á að styrkja góð málefni. Nú get ég fullvissað stjórnarformanninn um að spilafíklar eru "venjulegir Íslendingar". Þeir ráða hins vegar ekki við gerðir sínar að þessu leyti og verða því virðulegum stofnunum á borð við Háskóla Íslands, SÁÁ, Rauða krossinum og Slysavarnafélaginu Landsbjörg að bráð – þessar stofnanir hafa haft veikleika þeirra að sinni féþúfu. Þetta eru þung orð og ekki kemur mér á óvart að þeim sé vísað á bug. Að mínu mati eru þau engu að síður sönn, því miður.