SPILAVÍTI EIGA VINI
Birtist í Morgunblaðinu 16.09.13.
Þegar ég varð dómsmálaráðherra haustið 2010 fór ég fljótlega að kynna mér gögn Dómsmálaráðuneytisins um reglu- og lagaumhverfi spilakassa. Sá ég að oft hafði málinu verið hreyft en aldrei orðið að veruleika að taka heildstætt á vandanum með lagabreytingum. Það var helst í tíð Björns Bjarnasonar að drög voru gerð að raunhæfum umbótum. Lagafrumvarp sem hann hafði í smíðum leit hins vegar ekki dagsins ljós. Fyrir bragðið var aldrei sett niður heildstæð stefnumótun til skamms og langs tíma.
Spilaumhverfið stöðugt óhugnanlegra
Af þessum sökum hefur rekið mjög á reiðanum í málaflokknum. Stofnanir sem háðar eru fjármunum úr spilavélunum bítast innbyrðis og keppast um að koma með nýjungar sem ganga út á að seilast á sífellt markvissari hátt í vasa spilafíkla. Þar með verður spilaumhverfið stöðugt óhugnanlegra. Verst að þessu leyti er Happdrætti Háskóla Íslands sem samtengir spilavítisvélar sínar og býður upp á milljónavinninga í svokölluðum Háspennu sölum (heitið segir sitt!), en einn slíkan er verið að opna nú á sjálfu Lækjartorginu fyrir framan Stjórnarráð Íslands.
Vönduð undirbúningsvinna
Vegna þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi ákvað ég að vinna alla undirbúningsvinnu af mikilli yfirvegun. Miklivægustu hagsmunirnir í mínum huga á þessu sviði eru hagsmunir þeirra sem ánetjast hafa spilafíkn. En einnig er ég meðvitaður um að hyggja þarf að þjóðþrifa starfsemi sem háð er fjármunum frá fjárhættuspilum. Nefni ég þar sem mikilvægt dæmi Slysavarnarfélaginð Landsbjörg.
Kristófer Már Kristinsson, fyrrverandi alþingismaður, var fenginn til að stýra undirbúningsvinnu að lagabreytingum. Vann hann að henni með ráðuneytisfólki og í nánu samstarfi við rekstaraðila spilafyrirtækjanna. Könnuð var í þaula reglugerðar- og lagaumgjörð á Norðurlöndunum með það fyrir augum að finna það fyrirkomulag sem líklegt væri til þess að henta okkur best.
Samfélagsleg ábyrgð rekstaraðlia
Rekstaraðilar happdrættisvélanna sýndu flestir skilning og samfélagslega ábyrgð í þessu samstarfi og voru vel meðvitaðir um það að stefnt var að heildstæðri lausn sem setti mjög ákveðnar skorður við þessari starfsemi jafnframt því að fjármunirnir yrðu nýttir á sem markvissastan hátt. Þannig yrði búið um hnútana að dregið yrði úr samkeppni með því að setja alla þessa starfsemi undir einn rekstrarhatt, svipaðan því sem Norðmenn hafa komið upp. Með því móti yrði dregið úr samkeppni rekstraraðila, sem flestum ber saman um að sé skaðleg á þessu sviði.
Gríðarlegir peningalegir og samfélagslegir hagsmunir
Þetta skref yrði þó ekki stigið þegar í stað en byrjað á því að koma á laggirnar sérstakri Happdrættisstofu sem hefði að gegna eftirlitshlutverki með þessari starfsemi og væri stjórnvöldum til ráðgjafar. Happdrættisstofan, er hugsuð smá í sniðum, miðað við umfang starfseminnar (sem veltir hátt á annan tug milljarða og tekur til hagsmuna sem snerta þúsundir einstaklinga og heimila, sem eiga um sárt að binda af völdum spilafíknar). Auk þessa myndi Happdrættisstofa móta farvegi fyrir fjármagn til forvarna og enduhæfingar. Hún annaðist hins vegar ekki slíkt starf sjálf en beindi fjármagninu til meðferðaraðila á borð við SÁÁ.
Takmörk við netspilun - hluti af heildarpakka
Þá var ákveðið - sem hluta af þessum heildarráðstöfunum - að setja skorður við fjárhættuspilum á netinu - setja við henni almennt bann en heimila innlendum aðilum að starfrækja netspilun með miklum takmörkunum þó.
Allt þetta er rækilega tíundað í greinargerð með frumvarpi sem ég lagði fyrir Alþingi sem innanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili. Frumvarpið hefur ekki enn náð fram að ganga en hægur vandi væri að gera það að lögum ef vilji væri fyrir hendi.
Fundu umbótum allt til foráttu!
Í umræðu á Alþingi um málið snerust nokkrir þingmenn til varnar spilavítum af miklum ákafa og fundu málinu allt til foráttu. Tiltekinn hópur taldi af og frá að ætla að setja skorður við netspilun - við hinum helgu véum internetsins mætti ekki hrófla. Aðrir spurðu hvort virkilega ætti að setja á fót enn eina stofnunina og sögðu að ekki kæmi til greina að samþykkja slíkt!
Staðreyndin er sú að á undangengnum árum hefur Innanríkistráðuneytið flestum ráðuneytum framar, verið duglegt við að stokka upp stofnanaumhverfið sem undir það heyrir og hafa tillögur og framkvæmd almennt gengið út á fækkun stofnana en ekki fjölgun.
Burt með kredduhugsun
Það verður að gera þá kröfu til alþingsimanna að þeir skoði kosti og galla hverrar tillögu en láti ekki stjórnast af kredduhugsun gagnvart „stofnunum" . Ef hægt er að sýna fram á að starfsemi sé best borgið í sjálfstæðri einingu hlljótum við að koma á fót slíkri stofnun.
Ég bíð þess spenntur að sjá hvort vinum spilavíta á Alþingi muni áfram takast að bregða fæti fyrir nauðsynlegar umbætur á þessu sviði eða hvort stjórnvöld beri gæfu til að fylgja fram þeirri stefnu sem mótuð var á síðasta kjörtímabili og gerð var ítarleg grein fyrir í frumvarpi og greinargerð sem því fylgdi og síðan í skýrslu sem núverandi innanríkisráðherra var afhent.