Fara í efni

SPJALLIÐ PERSÓNULEGRA, EN LÉTTVÆGARA

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 10/11.08.24.
Ekki þori ég að fullyrða að Donald Trump hafi verið fyrsti valdamaðurinn sem tjáði sig um heimsmálin með smáskilaboðum á spjallþræði sínum. Hitt held ég þó að sé örugglega rétt, að með honum á forsetastóli Bandaríkjanna hafi þessi tjáningarmáti valdafólks víða um lönd færst mjög í vöxt. Fyrst í stað þótti mörgum þetta ótilhlýðilegt en smám saman er heimurinn að venjast þessu og lætur gott heita.

Mörgum kann að þykja þetta vera smámál en þegar að er gáð er í þessum tjáningarmáta fólgin grundvallabreyting frá því sem áður var.

Hinn hefðbundni máti stjórnvalda, sem og stofnana og fyrirtækja, við að koma yfirlýsingum sínum á framfæri var með fréttatilkynningum til fjölmiðla. Ekki var sá samskiptamáti gallalaus. Það var algerlega á valdi fjölmiðlanna hvernig með þessar tilkynningar var farið, þær birtar orðréttar, umorðaðar eða hunsaðar. Heiðarlegir fjölmiðlar gerðu þetta vel og voru faglegir, sem kallað hefur verið. En því er ekki að neita að einnig réðu iðulega hagsmunir, pólitískir, peningalegir eða bara duttlungar, hvernig aðsendar fréttatilkynningar voru meðhöndlaðar. Í þessu samhengi var oft vísað til starfsmanna fréttastofa sem „hliðvarða“; þeir réðu því hverjir kæmust að með boðskap sinn og hverjir ekki.
Eigendur fjölmiðlanna höfðu oft á tíðum án efa einnig sín áhrif, vildu þeir svo við hafa. Þess vegna var tilkoma opna internetsins ákveðin frelsun, hliðverðirnir urðu nú ekki lengur einráðir um umferðina í fjölmiðlaheiminum.

En ekki leið á löngu þar til hliðverðir voru einnig komnir þangað. Feisbók fór að banna tilteknar pólitískar fréttir og frægt er þegar Elon Musk upplýsti hvernig Twitter hefði veitt bandarísku leyniþjónustunni, CIA, og alríkislögreglunni, FBI, aðgang að færslum á Twitter-vefnum og hvernig boðum og bönnum hefði síðan verið beitt þar í pólitískum tilgangi í þágu tiltekinna afla. Þessu hefði hann, sem nýr eigandi, viljað breyta og það gerði hann vissulega þótt komið hafi ljós að sjálfur beiti hann sér óspart í þágu pólitískra hagsmuna. Hvort á X-inu sé ástunduð ritskoðun í þeim mæli sem áður var hjá forveranaum Twitter, þori ég ekki að segja til um, né get ég fullyrt nokkuð um aðra sambærilega aðila að þessu leyti. Feisbók hef ég þó áður nefnt sem dæmi um dreifimiðil sem sannanlega viðhefur ritskoðun.

Þegar Trump, þá forseti Bandaríkjanna, „tvítaði“ að hann væri á leið til Norður-Kóreu að bjarga málum þar og víðar í Asíu og spurði hvort önnur vestræn ríki vildu ef til vill slást í för, þá talaði hann ekki sem einstaklingur heldur sem fulltrúi Bandaríkjanna. Eða hvað? Var þetta formlegt tilboð Bandaríkjastjórnar um samstarf í samskiptum Vesturlanda við Asíuríki, var Donald ef til vill að taka sér vald umfram umboð eða var þetta blanda af þessu tvennu? Sennilega, en óljóst þó; háalvarleg skilaboð á óformlegum spjallþræði. Og hvar væru mörkin, væri þjóð sagt stríð á hendur á Twitter?

Evrópskir ráðamenn hafa síðan tekið upp þennan sið, þar með íslenskir, sem sumir hverjir eru farnir að tvíta án afláts út í heim, óska hinum og þessum til hamingju, lýsa hryggð eða samfagna eftir atvikum eða einfaldlega segja kost og löst á mönnum og málefnum.

Eitt er það að koma eigin skoðunum á framfæri, annað að gera það í nafni embættis. Þá er ekki lengur um að ræða einkamál. Það eru nefnilega embættin sem þeir gegna sem gefa orðum þeirra vægi. Þannig er það ótvírætt að þeir tvíta í okkar nafni. En með því að tjá sig um opinber málefni á persónulegum spjallþræði sínum komast stjórnmálamenn fram hjá okkur, fram hjá ráðuneytum, fram hjá Alþingi og þar með nefndum þingsins á borð við utanríkismálanefnd, sem ætlað er að móta yfirvegaða stefnu Íslands út á við.

Ein hlið á þessu máli er sú að þegar stjórnmálamaður lætur persónulegan spjallþráð og opinbera yfirlýsingu embættis, sem hann gegnir, renna saman í eitt er hætt við að hann þrengi að sjálfum sér og því sem hann getur látið frá sér fara. Er hann að lýsa eigin afstöðu eða embættis síns?

En þegar tvítað er í okkar nafni, er þá ekki rétt að formlegri háttur sé hafður á; forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, forsetaembættið eða önnur þau embætti eða stofnanir sem í hlut gætu átt, sendu út formlega tilkynningu með þeim skilaboðum sem fulltrúar íslensku þjóðarinnar vildu koma á framfæri fyrir hennar hönd? Það breytir því ekki að netheima mætti einnig nýta en varla sem uppsprettu tilkynninga.

Veikleiki persónulegu nálgunarinnar á X eða Feisbók, er einmitt sá að nálgunin er persónuleg. Um er hins vegar að ræða samskipti sem í eðli sínu eiga alls ekki að vera persónuleg. Með skilaboðum á spjallþræði verður allt vissulega fljótlegra og auðveldara að koma í kring en jafnframt léttvægara.

Þar er varla á bætandi.

------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.