Fara í efni

SPURNINGAR VAKNA

XB á villigötum
XB á villigötum

Framsóknarflokkur segist vilja vera í rikisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Sjálfstæðisflokkur segist vilja vera í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum.

Báðir fengu þessir flokkar talsvert fylgi í nýafstöðnum kosningum á grundvelli loforða sem þeir gáfu.

Þegar tólf ára stjórnarsamstarfi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins lauk vorið 2007 var Framsóknarflokkurinn trausti rúinn enda búinn að svíkja öll sín félagslegu heit. Telur forysta flokksins kominn tíma til að endurnýja þau svik?

Sjálfstæðisflokkurinn  lofaði kjósendum sínum skattalækkunum.
Sjálfstæðisflokkurinn hét því að efla heilbrigðiskerfið.
Ef þetta hvort tveggja á að ganga eftir þýðir það aukin einkavæðing.
Ætlar Framsóknarflokkurinn að skrifa upp á slíkt?

Báðir þessir flokkar tala fyrir stóriðjustefnu.
Báðir hafa verið reiðubúnir að fórna náttúruperlum Íslands á altari stóriðju.
Lagarfljót og lífríki þess er nýjasta fórnarlamb þeirra.
Ætla þeir að nýju  að ráðast gegn íslenskri náttúru?
Hvar á að byrja?

Saman leiddu þessir flokkar þjóðina út í mesta efnahagshrun Íslandssögunnar.
Á að taka upp þráðinn að nýju þar sem frá var horfið?
Hvernig á að hefja þá vegferð?

Framsóknarflokkurinn hét kjósendum sínum að lækka höfuðstól  lána um 20%.
Framsóknarflokkurinn hét kjósendum sínum að stórefla almannatryggingakerfið þegar í stað.
Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að skrifa upp á þetta hvoru tveggja?
Ætla flokkarnir saman að gera hvoru tveggja, skrifa upp og síðan svíkja?

Framsóknarflokkurinn stendur á ögurstundu. Hann á þess kost að verða leiðandi afl á félagshyggjuvæng íslenskra stjórnmála eða undirgangast það hlutverk sem hann gegndi undir aldarlok og framundir hrun, að þjóna markaðs- og gróðaöflunum. 

Í kvöld sagðist hann hafa valið.

Það val er enn hægt að endurskoða.