STÆRÐ SMÆÐARINNAR
Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 19.05.13.
Þegar ég var við nám í Edinborg í Skotlandi fyrir nokkuð löngu síðan hugsaði ég stundum til þess að í borginni einni byggju fleiri en á öllu Íslandi. En að þrátt fyrir að svo væri fyndist mér Reykjavík að ýmsu leyti vera „stærri", meiri heimsborg, en Edinborg.
Ég velti því fyrir mér hvernig á þessu stæði. Niðurstaða mín var sú að þar sem Reykjavík væri höfðuborg sjálfstæðs ríkis hefði hún ákveðið forskot á Edinborg. Í höfuðborgum ríkja eru stofnanir á borð við þing og ráðuneyti, þar eru sendiráð og þangað eru tíðar heimsóknir fulltrúa erlendra ríkja úr stjórnmálalífi, viðskiptalífi og menningarlífi. Á Íslandi hafði á þessum tíma verið sett á laggirnar útvarps- og sjónvarpsstöð, sem þótti talsvert afrek. Allt hafði þetta í för með sér grósku og margbreytileika.
Þessir þættir áttu vafalaust þátt í að móta sjálfsmynd Íslendinga. Hún skiptir ekki litlu máli. Inn í þá mynd bætist síðan hið sérstaka mat Íslendinga á sjálfum sér. Ég hef stundum gantast með það að við séum aldrei alveg viss um það hvort við séum 350 þúsund eða 350 milljónir. Höllumst frekar að því að síðari talan sé nær lagi.
Þeir tímar hafa komið að við hefðum haft gott af því að vera aðeins betur niðri á jörðinni. En ekki er vanmetakenndin heldur góð. Gagnvart fulltrúum stórþjóða sem hafa á orði að við séum fá og smá hef ég gjarnan bent á að þegar allt kemur til alls séum við öll frá einhverju húsi sem standi við einhverja götu og ekki skipti öllu máli hve margar aðrar íbúðir séu við sömu götu í þorpinu eða í borginni, stórri eða smárri. Fjölmenni þjóðar leiði ekki sjálfkrafa til þess að einstaklingarnir stækki; stærðin megi ekki villa okkur sýn.
Í sumum tilvikum geti smæð þjóða jafnvel verið kostur, fólkið ekki þjakað af ofmetnaði stórveldisins og í augum umheimsins væri hinn smái iðulega látinn njóta smæðar sinnar því hann væri engum ógn.
Samanburðurinn á Reykjavík og Edinborg er ekki að öllu leyti heppilegur, einfaldlega vegna þess að lífið í Edinborg er að mörgu leyti óvenju gróskumikið, borgin þekkt fyrir góðar menntastofnanir og stórkostlega listahátið sem haldin er ár hvert og þá má ekki gleyma því að borgin er höfðuborg Skotlands, þótt sjálfstætt þing hafi nýlega komið til sögunnar.
En hvers vegna þetta tal um afstæði smæðar og stærðar? Þankinn sem ég ætlaði mér að koma á framfæri er þessi: Íslendingar eiga að hugsa stórt þegar heimurinn er annars vegar. Við búum að mörgu leyti við kjöraðstæður. Við erum ekki þjökuð af vanmetakennd (það er frekar að hið gagnstæða sé vandamálið). Hér er gróskumikið líf á mörgum sviðum. Við njótum þess hve margt gott og gefandi fólk leggur leið sína til okkar.
Hið viðvarandi verkefni er að næra menninguna, listirnar og vísindin. Það mun styrkja okkur í andanum og gera okkur betur fær um að leggja eitthvað gott af mörkum við umheiminn, allt fólkið sem býr í húsunum sínum, við göturnar sínar í bæjunum og þorpunum og stórborgunum úti í hinum stóra heimi. Munum að smæðin getur verið stór. Margt er afstætt í heimi hér.