STEFNIR Í SUMARÞING
Ríkisstjórnin hefur nú kastað stríðshanskanum. Það gerði hún þegar hún ákvað að rífa frumvarpið um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins út úr menntamálanefnd Alþingis og henda því inn í þriðju og jafnframt lokaumræðu á Alþingi. Þetta er frumvarpið sem stjórnarandstaðan sameinuð hafði óskað eftir að sett yrði á ís. Sú ósk hefur verið hundsuð. Nú er því ljóst að stefnir í langt vorþing ellegar þing í sumar. Ekki er nóg með að frumvarpið um RÚV hf lengi þingið. Fjöldinn allur af aldeilis fráleitum frumvörpum frá ríkisstjórninni bíður afgreiðslu. Sum frumvörpin eru sprengihlaðin ágreiningi, önnur eru ekki boðleg vegna þess hve hroðvirknislega þau eru unnin. Ósvífni, valdhroki og metnaðarleysi ríkisstjórnar, sem setið hefur allt of lengi í værukærð á valdastóli, stafar frá þessum frumvörpum öllum. Þetta verður allt til umræðu - innan þings og utan - á næstu vikum.
Breytingarnar sem nú eru boðaðar á RÚV frumvarpinu eru að sjálfsögðu til góðs. Þær eru hins vegar ekkert annað en bútasaumur til þess að reyna að kaupa stuðning við þetta vonlausa frumvarp. Engum hef ég heyrt í sem telur þetta nóg til að snúa andstöðu við frumvarpið upp í stuðning. Það gera sér allir grein fyrir því að þetta eru lýtalækningar.
Málsvarar fyrirtækja, sem eru samkeppnisaðilar Ríkisútvarpsins á markaði, segja að með hlutafélagavæðingunni sé verið að styrkja samkeppnisstöðu þess á markaði. Það er af og frá. Það er verið að veikja stöðu Ríkisútvarpsins til dæmis með því að grafa undan menningarlegum undirstöðum stofnunarinnar eins og felst í aðskilnaðinum við Sinfóníuhljómsveitina. Með því að færa Ríkisútvarpið í sama búning og önnur fyrirtæki verður staða þess veikari fyrir dómstólum þegar samkeppnisaðilar munu reyna að sækja sama rétt til aðgangs að fjársjóðum stofnunarinnar og háeffað RÚV hefur sjálft og einnig þegar borgararnir fara að neita að borga nefskatt til "hlutafélags úti í bæ." Það er eins og forsvarsmenn Ríkisútvarpsins skilji ekki að þeir hafa með málflutningi sínum verið að grafa gröf sinnar eigin stofnunar. Þeir hafa staðið í þeirri trú að þeir geti bæði sleppt og haldið. Það mun reynast erfitt.