STEFNUBREYTING EÐA SJÓNHVERFINGAR: HVER ER RAUNVERULEG AFSTAÐA TIL STÓRIÐJUSTEFNUNNAR?
Þeim fjölgar sem hafa efasemdir um Kárahnjúkavirkjun. Í vikunni ályktuðu Náttúruverndarsamtökin og kröfðust þess að endurmat færi fram á framkvæmdinni í ljósi upplýsinga sem fram hefðu komið frá vísindamönnum um jarðfræðilegar aðstæður. Vinstrihreyfingin grænt framboð tók undir kröfur Náttúruverndarsamtakanna með ályktun (sjá HÉR og HÉR). Nú hefur formaður Samfylkingarinnar ritað forstjóra Landsvirkjunar bréf og óskað eftir endurmati á umhverfis- og efnahagsforsendum virkjunarinnar. Innan stjórnarflokkanna heyrast einnig raddir um vaxandi efasemdir. Þessi nýi tónn er í samræmi við almenn viðhorf í samfélaginu sem hafa verið að snúast gegn stóriðjustefnunni. Reyndar hefur þjóðin alltaf verið mjög skipt í afstöðunni til hennar og þótt Vinstrihreyfingin grænt framboð hafi verið eini stjórnmálaflokkurinn á Alþingi sem alltaf hefur barist gegn stóriðjustefnunni og þess vegna ævinlega í miklum minnihluta í þinginu, þá hefur sú skipting engan vegin gefið rétta mynd af afstöðu þjóðfélagsins almennt sem, þegar á heildina er litið, hefur verið andvígt stóriðjustefnunni og þeim náttúruspjöllum sem af henni hljótast.
Sú spurning gerist nú áleitin hvort vindarnir í þjóðfélaginu séu farnir að hafa áhrif innan veggja Alþingis. Það er ekki bara Samfylkingin sem nú talar á annan veg en áður. Efasemdaraddir heyrast í Sjálfstæðisflokknum, einkum varðandi efnahagslegar forsendur stóriðjustefnunnar og í Framsókn kveður nú við þann tón, að vísu aðeins hjá stöku manni í forystu flokksins, að stóriðjan eigi ekki lengur upp á pallborðið þar á bæ. Þeir sem haldi öðru fram séu að misskilja hlutina. Ef svo er, þarf þá ekki að leiðrétta þann misskilning, til dæmis hjá fulltrúum OECD, sem hér voru á ferð nýlega að kynna skýrslu um mat á efnahagsástandi í landinu. Varðandi stóriðjuþáttinn voru látnar í ljósi miklar efasemdir eins og fram kom í endursögn Morgunblaðsins fimmtudaginn 10. ágúst af skýrslu OECD: “Þrjár slíkar framkvæmdir séu nú á áætlunarstigi, jafnvel þótt núverandi framkvæmdum sé ólokið. Í heild séu nýju framkvæmdirnar helmingi meiri að umfangi en þær sem nú eiga sér stað, en þær aftur miklu stærri en framkvæmdir síðasta áratugar. Séð frá sjónarmiði stöðugleika, hafi tímasetning slíkra framkvæmda afgerandi þýðingu. Þá segir að verði af öllum hinum áætluðu stóriðjuframkvæmdum, muni hlutfall áls í vöruútflutningi líklega fara yfir 50%. "Þá væri aftur komin upp sama staðan og var fyrir hendi þegar sjávarafurðir voru uppistaðan í vöruútflutningnum, jafnvel þótt hlutur virðisauka í álframleiðslu, er félli landinu í skaut, verði lítilvægari. Því ber að taka það með í reikninginn að frekari aukning í áliðnaðinum hefur áhrif á hagsveiflu þjóðarbúskaparins." “
Ef flokkarnir þrír sem saman stóðu að ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun og hingað til hafa stutt stótriðjustefnuna með ráðum og dáð, Framsókn, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur, eru nú komnir með efasemdir um forsendur þessarar stefnu verður að spyrja þá eftirfarandi spurninga:
Eru þeir þá nú orðnir fráhverfir virkjun Jökulsánna í Skagafirði, sem allir þessir flokkar hafa stutt?
Eru þessir flokkar orðnir fráhverfir því að Alcoa verði heimilað að reisa álver á Húsavík eins og allir þessir flokkar hafa stutt?
Eru þeir orðnir fráhverfir því að styðja álversframkvæmdir á Reykjanesi sem allir þessir flokkar hafa stutt?
Hversu djúpt rista sinnaskiptin? Eða eru þetta ekki nein raunveruleg sinnaskipti? Kjósendur í væntanlegum Alþingiskosningum eiga kröfu á skýrum svörum.