STEINGRÍMUR HERMANNSSON: MAÐUR SVEIGJANLEIKA
09.02.2010
Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, var kvaddur frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag.
Steingrímur var fæddur árið 1928 og því á áttugasta og öðru aldursári.
Séra Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur jarðsöng og fórst það prýðilega úr hendi. Hann lýsti Steingrími vel, sagði að hann hefði lagt mikið upp úr drengskap og góðum vilja. Þetta hygg ég að sé rétt. Steingrímur Hermannsson lagði mikið upp úr hinum „góða vilja", að virkja fólk til góðra verka.
Í bókinni Lífsviðhorf mitt , sem út kom árið 1991, er viðtal Atla Magnússonar við Steingrím. Þar segir Steingrímur: „Ég lærði það af móður minni að trúa á það besta í hverjum manni ...." Kvaðst Steingrímur í samræmi við þetta hafa haft það fyrir meginreglu að treysta hverjum manni þangað til hann brygðist! Þetta lýsir Steingrími vel og einnig hitt sem séra Hjálmar benti á í útfararræðu sinni að Steingrímur hefðu ætíð verið að „prófa skoðanir". Hann var með öðrum orðum, sífellt að endurmeta eigin viðhorf í ljósi breyttra aðstæðna og afstöðu samferðamanna sinna. Þetta er styrkur og hefur ekkert með hentistefnu að gera heldur sveigjanleika og lýðræðislegt viðhorf sem stjórnmálamenn þurfa aðhafa til að bera.
Steingrími Hermannssyni kynntist ég nokkuð á vettvangi þjóðmálabaráttu, í átökum um húsnæðismál á 9. áratugnum og síðar sem formaður BSRB. Bar ég virðingu fyrir Steingrími og kunni vel að meta hans félagslegu viðhorf sem voru þungamiðjan í pólitík hans. Hann hafði hugrekki til að bera sem meðal annars kom fram í framgöngu hans á alþjóðavettvangi þar sem hann til dæmis studdi málstað Palestínumanna á afdráttarlausari hátt en aðrar Norðurlandaþjóðir á þeim tíma.
Með okkur Steingrími Hermannssyni tókst ágætur kunningsskapur sem einkenndist af mikilli vinsemd.
Minningin um Steingrím Hermannsson er í mínum huga björt og jákvæð.