STJÓRNMÁLAMENN ALLRA LANDA ...
Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 16.06.13.
Að undanförnu hefur kveðið við nýjan tón í stjórnmálum, sem virðist fá dágóðan hljómgrunn hjá mörgum. Hann gengur út á að útrýma átökum á vettvangi stjórnmálanna; þar eigi allir að vera vinir, setjast niður og spjalla og komast í rólegheitum að niðurstöðu. Allt í góðu. Svo stökkvi menn eins og íkornar grein af grein og njóti lífsins í skóginum, svo vísað sé í smellna ræðu á Alþingi á eldhúsdegi.
Inn í þetta hefur fléttast hneykslan á því sem kallað hefur verið málþóf á þingi. Langvinnar og stundum harkalegar deilur um ýmis grundvallarmál þykja þannig ámælisverðar.
Besti flokkurinn í Reykjavík gekk lengst allra flokka í þessari hugsun með því að neita yfirhöfuð að gera grein fyrir stefnu sinni og jafnvel henda gaman að þeim sem töldu sér skylt að kynna hverju þeir vildu fá áorkað kæmust þeir til áhrifa. Besti flokkurinn sagðist hins vegar ætla að „gera allskonar fyrir alla" og setja ísbjörn í Húsdýragarðinn.
Þetta gengur ágætlega upp í landi þar sem stjórnmálalflokkar hafa hlaupist frá loforðum sínum eftir að þeir eru komnir í stjórn og þannig gert stjórnmál ótrúverðug. En er þá gott að taka upp hinar öfgarnar og setja enga stefnu fram? Það þykir mér ekki.
Vissulega eru á vinnsluborði stjórnmálamanna fjöldi verkefna sem þeir leiða til lykta án þess að það hljóti mikla athygli enda um þau enginn grunvallarágreiningur. Síðan eru önnur mál sem ágreiningur er um og þá jafnvel svo mikill að æskilegt er að umræðan endurómi um allt þjóðfélagið. Þá náttúrlega gengur ekki að þegja málið i hel yfir kaffibolla.
Stjórnmálabarátta gengur út á setja fram tillögur um leiðir og lausnir og safna liði þeim að baki.
Öll viljum við gott heilbrigðiskerfi. En hvernig á að reka það og efla? Þar eru mismunandi hugmyndir uppi.
Öll viljum við öflugt atvinnulíf, en hvaða leiðir á að fara til að byggja það upp? Um það eru deildar meiningar. Og auðvitað á skoðanaágreiningur að vera sýnilegur.
Væri rétt að umhverfissinnar á þingi færu nánast með veggjum ef virkja ætti Skjálfandafljót í þágu stóriðju; ræddu málið í vinsamlegu spjalli og síðan yrði virkjað og allir góðir vinir?
Umræðan hverju sinni hlýtur að ráðst af tilefninu. Hin miklu málþófsmál á tíunda áratugnum og fyrsta áratug þessarar aldar voru í reynd sárafá en snerust um grundvallaratriði, umhverfi og samfélag.
Á síðasta kjörtímabili var stjórnarandstaðan sökuð um málþóf og pólitískt skemmdarstarf. Ég hallast að því að nokkuð sé til í þeim ásökunum en minni þó á að einkaeignarrétturinn - líka yfir vatninu - og óbreytt kvótakerfi er mörgum hjartans mál, ekki síst þeim sem eru hagsmunatengdir. Þá er ekki við öðru að búast en menn reyni að standa í fæturna. Auk þess er ég þeirrar skoðunar að umdeildum málum eigi að vera erfitt að koma í gegn, valdahafar eiga að svitna yfir Kárahnjúkum og einkavæðingu heilbrigðiskerfisins - þess vegna líka afnámi kvótakerfisins í núverandi mynd, nýrri stjórnarskrá eða almannaeign á auðlindum.
Allt eru þetta grundvallarmál sem samfélagið hefur ríkar skoðanir á og eðlilegt að tekist sé á um þau.
Ef nú á að taka upp þráðinn þar sem núverandi stjórnarflokkar skyldu við eftir tólf ára samstarf árið 2007 og hefja nýja hrinu einkavæðingar- og stóriðjustefnu, þá verð ég ekki í þeim hópi sem situr og hvíslast á um þessi málefni. Ég mun með öðrum orðum ekki svara kallinu um að stjórnmálamenn allra landa sameinist ... í spjalli yfir kaffibolla.
Ég mun þvert á móti gera allt sem hægt er til að sveigja þróunina í gagnstæða átt. Jafnvel þótt það kosti stundum margar og langar ræður.