Fara í efni

STJÓRNMÁLASLIT OG BARENEBOIM

Barenboim
Barenboim

Ég er óráðinn í því hvað mér finnst vera rétt að gera varðandi stjórnmálaslit við ofbeldisfullt ríki. Hallast þó gegn því. Mér finnst hins vegar gott að slíkur möguleiki komi upp í umræðu gagnvart Ísrael vegna ofbeldisglæpa ísraelska  ríkisins á Gaza. Það þýðir að fólki er svo misboðið að það vill leita allra leiða. Eða flestra. Auðvitað vitum við innst inni að hægt er að sýna andúð okkar á enn markvissari hátt: Með því að slíta stjórnmálasambandi við Bandaríkin því það eru þau sem skapa Ísrael alþjóðlegt skjól og hafa gert í meira en hálfa öld. Slíkt kæmi líka meira við okkur. Alvaran í málinu myndi þá brenna heitar á okkur. Öllum yrði ljóst hve okkur væri misboðið og að við vildum eitthvað á okkur leggja.
Eins og til að árétta söguleg tengsl greiddi Öldungadeild Bandaríkjaþings einróma atkvæði með stuðningsyfirlýsingu við Ísrael í þann mund sem árásin hófst á Gaza og var þar jafnframt hvatt til þess að Abbas forseti Palestínu léti af öllu stjórnarsamstarfi við Hamas: http://thehill.com/blogs/floor-action/senate/212617-senate-passes-resolution-in-support-of-israel#ixzz38JSl61ek

Til að vita hvað við viljum þurfum við helst að vita hvað hinn kúgaði vill að við gerum - ef hann yfirleitt hefur á því skoðun. Það var ljóst í Suður-Afríku. Andspyrnuhreyfingin, ANC, bað um viðskiptabann þótt það kæmi svörtum Suður-Afríkumönnum illa. Við hlýddum því kalli. Hér er staðan óljósari.
Það er kallað eftir því að fólk hliðhollt málstað Palestínumanna flykkist til  Palestínu til að verða vitni að því sem er að gerast. Það hefur Bandaríkjamaðurinn Noam Chomsky, hinn virti vísindamaður og þjóðfélagsrýnir,  reynt en í seinni tíð hefur honum verið snúið frá. Hann er sjálfur gyðingur og vann á samyrkjubúi í Ísrael á sjötta áratugnum, en leyfir sér nú að segja óþægilega hluti.
Flestir Bandaríkjamenn fá þó heimild til að koma til landsins, bæði Ísraels og Palestínu  og Íslendingar fá það almennt. Það fékk ég að reyna árið 2005 í ógleymanlegri heimsókn sem ég skráði á tölvu mína (og birti m.a. hér á heimasíðunni en þess má geta að tölvan var tekin af mér við brottför og fékk ég hana ekki after í hendur fyrr en nokkrum mánuðum síðar).
Þannig að jafnvel  fullt stjórnmálasamband er hlaðið óvissu. Með stjórnmálaslitum yrðu allar línur hins vegar skýrar: Öllum Íslendingum sem vildu fara til Palestínu yrði snúið við. Kannski skiptir það minna máli en hitt að sem riki sýnum við í verki andúð á ofbeldi. Hvað skal gera er álitamáll. Ég hallast þó að því að rangt sé að skera á tengslin. Unga fólkið sem á undanförnum árum hefur farið til Palestínu til starfa þar hefur borið okkur fróðleik og haldið lifandi í hugum okkar því sem er að gerast. Þetta hefur verið ómetanlegt. Þá minni ég á að ríki getur haft sig rækilega í frammi hvort sem er á vettvangi SÞ eða þegar gesti ber að garði einsog gert var af Íslands hálfu gagnvart Ísrael og Palestínu í tíð síðustu ríkisstjórnar.  

Málið er ekki einfalt eins og listamaðurinn Daniel Barenboim segir í frábærri grein í breska blaðinu Guradian. Margir munu minnast þess að Daniel Barenboim setti á sínum tíma á laggirnar hljómsveit sem skipuð var bæði ungmennum frá Palestínu og Ísrael. hann vildi að þau töluðu saman milliliðalaust. Grein hans í Guardian er ákall til allra að leggja niður vopn og meðtaka þá staðreynd að framtíðin verður áfram ofbelds- og hatursfull svo lengi sem menn  láta ofbeldi og vopnavald móta hana. Menn ræðist við á öðrum forsendum. Sjá: http://www.theguardian.com/commentisfree/2014/jul/24/israelis-palestinians-losers-conflict-suffering-rights

Að lokum en af sama meiði: Í vor var samþykkt illu heilli á þingi Evrópuráðsins að vísa Rússum út af þeirri samkundu alla vega til áramóta vegna afskipta þeirra af Úkraínu. Ég greiddi atkvæði gegn þessu og hef gert grein fyrir þeirri afstöðu minni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/kaldastridstonar-i-evropuradnu

Nú berast fréttir af því að kommúnistaflokkur Úkraínu verði bannaður. Dagana sem þing Evrópuráðsins ræddi brottvísun Rússa urðum við vitni að ofbeldi sem talsmenn þessa stjórnmálaflokks þá voru beittir, meira að segja var helsti talsmaður hans barinn í ræðustól í úkraínksa þinginu! Á að vísa Úkraínu út úr evrópskum samkundum vegna þessa? Flokkar vinstri manna í Evrópuráðinu hafa mótmælt banni við starfsemi úkraínksa kommúnistaflokksins. Í óformlegri  umræðu þeirra á meðal nú síðustu daga hefur komið fram tillaga um að Ísraelum verði meinað að sækja þing Evrópuráðsins sem áheyrnarfulltrúar eins og þeir hafa gert hingað til. Yrði það til góðs? Ég leyfi mér að efast um það. Betra að ræða við þá. Í anda Barenboims.

Sjá nýlegt: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvernig-er-haegt-ad-sla-a-hatrid