STJÓRNSÝSLAN BÆTI SIG
Birtist í Morgunblaðinu 28.01.14.
Fyrir nokkrum dögum fór fram á Alþingi umræða um skýrslu Umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012 og er vert að íhuga þær áherslur sem þar komu fram enda eiga þær erindi til almennings og þá ekki síður til opinberrar stjórnsýslu.
Í skýrslunni sem var til umræðu kemur fram að málafjöldi hjá embættinu tók stórt stökk upp á við í kjölfar efnahagshrunsins og hefur fjöldi umkvörtunarefna sem embættinu hafa borist ekki hrokkið til baka í fyrra horf.
Stóra stökkið
Aukningin í málafjölda sem embættinu bárust varð mest á milli áranna 2010 og 2011 en þá fjölgaði umkvörtunarmálum um 40%, fóru úr 377 í 528 mál. Síðan hefur málafjöldinn verið um 500 mál á ári. Til umhugsunar er að hvert einstakt mál kallar á yfirlegu, einnig þau mál sem vísað er frá.
Þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir hefur embætti Umboðsmanns Alþingis tekist bærilega upp og hefur fjöldi afgreiddra mála aldrei verið meiri en á síðasta ári. Hins vegar er sýnt að í ljósi samdráttar í fjárveitingum á yfirstandandi ári, er embættið nauðbeygt að draga úr þjónustu sinni að einhverju leyti, ekki síst ef ná á því markmiði að afgreiðslutími verði aldrei meiri en sex mánuðir.
Hvað er til ráða?
Hér þarf að huga að breyttu vinnulagi. Umboðsmaður hefur lýst því að með hliðsjón af fjárhagsrammanum megi gera ráð fyrir að fleiri málum verði vísað frá en til þessa. Þetta eigi einkum við þegar sýnt þykir að frekari athugun leiði ekki til breytinga hjá stjórnvöldum á afgreiðslu tiltekins máls, sem kvartað er yfir, í þágu þess sem kvartaði. Í stað þess að taka slík mál til frekari athugunar og óska eftir skýringum stjórnvaldsins hefur umboðsmaður í vaxandi mæli farið þá leið að vísa kvörtun málsins frá en senda stjórnvaldinu ábendingu um að vanda hefði þurft betur til verka ef sú var raunin. Þetta tengist þeirri breytingu af hálfu umboðsmanns að reyna eftir föngum at stytta málsmeðferð og álitsgerðir sem hann sendir frá sér.
Áherslubreyting
Þótt umboðsmaður muni áfram leggja áherslu á að gæta að því að almenningur fái notið þeirra réttinda og málsmeðferðar sem Alþingi hefur ákveðið með lögum, má ætla að þessi breyting leiði til þess að umboðsmaður geti ekki tekið með sama hætti og áður á ýmsum atriðum sem hann telur að betur mættu fara í störfum stjórnvalda. Það er því mikilvægt að stjórnvöld hugi sjálf að umbótum í sínum ranni. Það er þeirra að sjá til þess að borgararnir fái notið lögboðinna réttinda hvað sem líður eftirliti af hálfu Alþingis og stofnana þess með störfum stjórnsýslunnar. Það er ljóst af skýrslum umboðsmanns að ýmislegt má betur fara í störfum stjórnsýslunnar og það á t.d. við um almenna afgreiðslu mála og þá sérstaklega um meðferð mála vegna stjórnsýslukæra. Þar þurfa stjórnvöld að viðhafa markvissari og skjótari vinnubrögð en nú. Á vettvangi Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hefur þannig sérstaklega verið rætt um þörfina á því að stjórnvöld gæti betur að því að leiðbeina borgurunum um kæruheimildir ef þeir eru ekki sáttir við afgreiðslu á málum þeirra. Hér þarf að hafa í huga að þau mál sem berast til Umboðsmanns Alþingis eru að verulegu leyti einmitt til komin vegna þess að þarna eru víða miklar brotalamir að finna. Því fleiri sem þessar brotalamir eru og því minna traust sem fólk ber til stjórnsýslustofnana, þeim mun fleiri mál koma til kasta Umboðsmanns Alþingis.
Tillögur Umboðsmanns Alþingis
Umboðsmaður hefur síðustu ár iðulega lagt á það áherslu að þær reglur sem stjórnsýslan á að starfa eftir við úrlausn á málum borgaranna geri kröfu um að stjórnvöld skipuleggi fyrirfram meðferð þeirra mála sem þau eiga að fjalla um og felli málsmeðferðina að reglum stjórnsýslulaga og annarra reglna sem þeim ber að fylgja. Þetta gerir kröfu til þess að stjórnvöld skipuleggi verkferla sína og þar með að þeir séu bæði gegnsærri og markvissari. Slík vinnubrögð ættu líka að vera góður grundvöllur til þess að stjórnsýslan veiti meiri upplýsingar um leiðir innan hennar og meðferð mála. Allt ætti þetta að stuðla að betri þjónustu og úrlausn á málum borgaranna og þar með að fækka þeim málum sem fólk fer með til umboðsmanns.
Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur líka verið bent á mikilvægi þess að auka og bæta fræðslu fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar um þær sérstöku reglur sem gilda um meðferð mála þar. Það verkefni er fyrst og fremst á ábyrgð þeirra sem fara fyrir stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en framlag umboðsmanns til þessa verkefnis er samantekt á fræðsluefni sem nú er unnið að.
Vill fjölga frumkvæðismálum
Aukinn fjöldi kvartana allra síðustu ár á sama tíma og samdráttur hefur verið í fjárveitingum til embættis umboðsmanns hefur leitt til þess að hann hefur lítið sem ekkert getað sinnt svonefndum frumkvæðismálum. Þótt megin verkefni umboðsmanns felist í því að taka við kvörtunum frá borgurunum vegna einstakra mála þá gera lög um embættið ráð fyrir því að umboðsmaður geti að eigin frumkvæði tekið bæði ákveðin mál og starfshætti stjórnvalda til athugunar. Umboðsmaður hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að embætti hans verði búin sú aðstaða að hægt verði að taka fyrir fleiri mál á þessum grundvelli.
Tekið undir með umboðsmanni
Í umræðum á Alþingi var eindregið tekið undir þessi sjónarmið og var það í samræmi við álitsgerð Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins um skýrslu umboðsmanns. Þingmönnum var ljós sú nauðsyn að forgangsraða málum og gera breytingar á verklagi til þess að þetta litla embætti geti áfram sinnt sínu hlutverki í þágu réttaröryggis. En það var líka bent á mikilvægi þess að stjórnsýslan sjálf vinni að úrbótum þannig að fólk þurfi síður að leita til umboðsmanns. Sem dæmi um þetta nefni ég að í áliti þingnefndarinnar segir að það „væri til mikilla bóta ef ráðuneytin gætu hvert og eitt og þær stofnanir sem undir það heyra sett skýrar leiðbeiningar ...um kæruleiðir í málum sem heyra undir þau sem og upplýsingar um tímamörk sem gilda í hverju tilfelli þannig að auðvelt væri fyrir borgarana að nálgast upplýsingar ... "
Þingmönnum var líka hugleikið að umboðsmanni gæfist færi á því að taka fleiri mál upp að eigin frumkvæði þótt mönnum væri ljóst að fjárveitingar og fjöldi starfsmanna embættisins setji því skorður í ár nema fækkun verði á nýjum kvörtunum. Um frumkvæðismálin segir m.a. í áliti Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að með þeim, hvort sem um er að ræða „einstök mál eða kerfislæg vandamál ..." sé unnt „ að snerta á málum sem brenna á samfélaginu á hverjum tíma auk þess sem slíkt hefur ákveðið forvarnargildi." Frumkvæðisathuganir umboðsmanns eru líka liður í því að Alþingi fái upplýsingar um hvort fólk njóti þeirra réttinda og þjónustu sem lög kveða á um.
Nýtur velvildar og virðingar
Þótt aldrei geti svo farið að allir sem leita til Umboðsmanns Alþingis verði ánægðir með niðurstöður og þótt ekki sé alltaf klappað innan stjórnsýslunnar þegar aðfinnslur umboðsmanns berast þangað, þá leyfi ég mér engu að síður að fullyrða að almennt nýtur embættið mikillar velvildar og virðingar. Á þeim tuttugu og fimm árum sem embætti Umboðsmanns Alþingis hefur verið við lýði hefur embættið með verkum sínum skapað sér þann sess að aðfinnslur sem frá því koma eru teknar alvarlega og leiða oftar en ekki til þess að hugað er að úrbótum. Þekki ég fjölmörg dæmi um óvéfengjanlegan árangur af starfi embættisins enda almennt litið á það sem sem einn af hornsteinum réttarríkisins.
Mikilvægt er að stjórnsýslan hlusti nú grannt eftir þeim ábendingum sem frá embætti Umboðsmanns Alþingis koma. Það skiptir máli hvað varðar réttindi borgara þessa lands, markvissa og gagnsæja stjórnsýslu auk þess sem það hefur þýðingu fyrir sameiginlega sjóði okkar landsmanna.