Fara í efni

STÖÐVUM AUÐLINDARÁNIÐ – ENN ER ÞAÐ VATNIÐ

Í Morgunblaðinu 19. júlí segir:

“Fyr­ir­tækið Aqua Omn­is hef­ur í hyggju að hefja vatns­vinnslu á jörðinni Nesi í Ölfusi … Áformað er að bora 12 hol­ur til vatns­öfl­un­ar­inn­ar, en vatn­inu yrði síðan dælt í vatnstank á sjáv­ar­botni, 2 til 3 kíló­metra frá strönd­inni og þaðan í tank­skip sem yrðu allt að 3.000 tonn að stærð … Þess­um áform­um er lýst í mats­skýrslu verk­fræðifyr­ir­tæk­is­ins Cowi þar sem kem­ur m.a. fram að af­kasta­geta vatns­vinnslu­kerf­is­ins geti verið allt að 2.000 sek­únd­u­lítr­ar…
mats­skýrsla Cowi hef­ur verið birt í skipu­lags­gátt Skipu­lags­stofn­un­ar. Mats­skýrsl­an er nú til um­sagn­ar, en í fram­hald­inu fer málið í lög­bundið ferli, Skipu­lags­stofn­un mun gefa álit sitt á matsáætl­un­inni, síðan er um­hverf­is­mat eft­ir sem og álits­gjöf Skipu­lags­stofn­un­ar á því.”
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/07/19/vatn_i_tankskipum/

Fyrir réttu ári sagði í fréttum frá vatnssölusamningum af þessu svæði og var um þá samninga fjallað all ítarlega á þessari heimasíðu, m.a. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/latum-ekki-stela-vatninu-fra-okkur.

Fram hafði komið að fyrirsjáanlegt væri að “fjárfestar víðs vegar í heiminum” myndu reisa nokkrar verksmiður á þessu svæði. https://www.visir.is/g/20232449189d/islenska-vatnid-selt-erlendum-fjarfestum

Lengi hefur verið vitað að vatn er auðlind framtíðarinnar og reyndar augljóst að sú framtíð bankar nú upp á með tankskipum að koma þessari auðlind í verð.

Fjárfestar hafa fyrir löngu komið auga á þessi verðmæti. Árið 2010 rifjar Viðskiptablaðið það upp að bæjarstjórn Ölfuss hefði selt jörðina Hlíðarenda til Icelandic Water Holding (IWH), sem er í meirihlutaeigu Jóns Ólafssonar og sonar hans, en fyrirtækið hygðist nýta jörðina undir byggingu vatnsverksmiðju.

“Á jörðinni eru vatnslindir sem uppfylla kröfur til vatnsframleiðslu á erlenda markaði. Jörðin var seld á 100 milljónir króna en hún er 1.544 hektara að stærð. Af því sést að fermetrinn kostar 15 aura.” https://vb.is/frettir/fyrirtki-jons-olafssonar-kaupir-jorina-hliarenda/

Síðar kemur fram að samkvæmt ársreikningum fyrirtækis Jóns og félaga, Vatns­lind Icelandic Water Hold­ings, fyr­ir árið 2021“mat er­lenda fé­lagið Zenith In­ternati­onal Ltd. vatns­lind­ina þá á 137 millj­ón­ir Bandaríkjadala, eða sem sam­svar­ar um 18,4 millj­örðum króna á nú­ver­andi gengi.” https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2023/09/06/kaupin_a_vatnsverksmidju_jons_gengin_i_gegn/

Allt hafði þetta gerst á bak við tjöldin eins og Garðar Karlsson gerði ágætlega grein fyrir í skrifum sínum frá 17. júlí 2006: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1093179/?t=849489003&_t=1722178157.26874

Rétturinn til vatnsauðlindarinnar sem annarra auðlinda heyrir til fólkinu sem byggir þetta land. Varla er allur kraftur þessarar þjóðar þrotinn eða hvenær skyldi verða gengið eftir þessum rétti? Er ekki kominn tími til að rumska áður en öllum auðlindum þjóðarinnar hefur verið stolið?

Hingað til hafa afskipti stjórnvalda verið þau ein að aðstoða við ránið. Nú verður almenningur að vakna og standa á rétti sínum. Þrátt fyrir afleita lagasetningu frá árinu 1998 um auðlindir í jörðu geta stjórnvöld stigið inn og það ber þeim að gera. Vatnsframleiðsla i þeim mæli sem hér er fyrirhuguð (talað er um 2000 sekúndulítra!) er leyfisskyld. Þetta snýst ekki um árið 2024, ekki um eitt ár eða áratug, heldur um alla framtíð. Krefjumst þess að vatnsránið verði stöðvað – breytum síðan lögum og stjórnarskrá almenningi til varnar. (sjá hér https://www.ogmundur.is/is/greinar/70-x-60-x-60-x-24-6048000)

------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.