Fara í efni

STÖNDUM VÖRÐ UM JÖKULÁRNAR Í SKAGAFIRÐI


Ef umræðan um Kárahnjúkavirkjun hefði verið komin á það stig sem hún er nú, þegar virkjunin var á teikniborðinu, hefði aldrei orðið af henni. Slík er andstaðan nú orðin gegn þessum óskapnaði.
Í þjóðfélaginu var vissulega frá upphafi mikil andstaða gegn áformaðri Kárahnjúkavirkjun, andstaða sem borin var uppi af náttúruverndarsinnum og listamönnum; andstaða sem birtist í þrotlausri varðstöðu við Alþingishúsið, á baráttufundum og  í undirskriftasöfnunum og innan Alþingis börðust Vinstri græn hatrammlega gegn þessum áformum. Öll ráð voru reynd, færð voru fram rök umhverfisverndarinnar, efnahagsleg rök og lýðræðisleg því þegar allt um þraut krafðist VG þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og bar tillögu þess efnis undir þingið. Enginn þingmaður utan VG treysti sér til að styðja þá kröfu. Það er dapurlegt til þess að hugsa - en látum það liggja á milli hluta að sinni.
Lærdómurinn sem við verðum að draga af Kárahnjúkadeilunni er sá að þjóðin má aldrei sýna andvaraleysi í þessum efnum. Þegar ákvarðanir hafa verið teknar og framkvæmdir hafnar verður alltaf erfiðara og erfiðara að snúa af braut. Þess vegna eiga menn nú að beina sjónum sínum að því sem er að gerast í Skagafirði. Þar hafa fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs staðið í harðri baráttu undanfarin ár gegn áformum um að virkja Jökulárnar.
Í gær var samþykkt í sveitarstjórn Skagafjarðar að virkjanir í báðum Jökulánum, Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun, skuli fara inn á aðalskipulag sveitarfélagsins. Þetta er stefnuyfirlýsing meirihluta sveitarfélagsins, sem er í höndum Framsóknarflokks og Samfylkingar, um að þessar virkjainr geti orðið að veruleika.
Að sjálfsögðu er sagt að enn hafi engin ákvörðun verið tekin og að eftir sé að athuga þetta og athuga hitt. Það er umræða og vinnubrögð sem við þekkjum frá Kárahnjúkaferlinu. Jafnvel eftir að vinnuvélar með óheyrilegu jarðraski voru komnar á vettvang þar var okkur sagt að þetta væri aðeins í rannsóknarskyni. Og eftir að gengið hafði verið frá samkomulagi við framkvæmdaaðila var okkur einnig sagt að allt væri þetta náttúrlega háð ýmsum fyrirvörum. Innst inni vissu allir að ákvörðun hafði verið tekin.
Þess vegna mega menn nú ekki sofna á verðinum. Það verður að stöðva frekari virkjanir í þágu stóriðju í landinu og við verðum að koma í veg fyrir að stóriðjugráðugt fólk grandi öllum fegurstu náttúruperlum landsins.
Bjarni Jónsson, oddviti Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Skagafirði og félagar hans hafa um árabil staðið sig hetjulega í baráttunni gegn þessum áformum. Þau hafa ein róið á móti straumnum. Nú þurfa þau að finna til samstöðunnar. Ég hvet alla til þess að ljá þeim lið og fjölmiðla hvet ég til þess að fylgjast grannt með gangi mála í Skagafirði. Það er ekki nóg að tala um Fagra Ísland. Við þurfum að standa um það vörð.

Hér er slóð á vefsíðu Vinstri grænna í Skagafirði:  www.skagafjordur.com/vg