Stóreignafólk í fyrirrúmi
Birtist í Mbl
7 spurningar til ríkisstjórnarinnar vegna „fjármagnstekjuskatts“
1. Jaðarskattar á almennar launatekjur eru mjög háir og geta verið frá 42% og upp í 60 - 70% þegar bótaskerðingar eru meðtaldar. Samkvæmt frumvarpi um skatt á fjármagnstekjur verður jaðarskattur á arð, vexti og söluhagnað 10%. Ríkisstjórnin hefur skipað nefnd sem á að kanna leiðir til þess að lækka jaðarskatta. Telur ríkisstjórnin það brýnt forgangsverkefni að lækka jaðarskatt á tekjur, sem fyrst og fremst er að finna hjá stóreignafólki og hátekjumönnum eins og gert er í stað þess að láta eitt yfir alla ganga? Bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur lýstu því í síðustu kosningabaráttu að brýnt væri að lækka jaðarskatta en kjósendum var ekki sagt að stóreignafólk ætti að vera í fyrirrúmi og fá forgjöf.
2. Skattleysismörk hafa sífellt farið lækkandi frá því að staðgreiðsla skatta var tekin upp fyrir tæpum áratug. Er svo komið að lág laun eru skattlögð og skattleysismörk einstaklings eru um 700 þúsund krónur á ári og um 1,4 milljónir hjá hjónum sem bæði vinna utan heimilis. Samkvæmt frumvarpi um skatt á fjármagnstekjur verða skattleysismörk fyrir vexti, arð, húsaleigu og söluhagnað um 2.950 þúsund krónur á ári fyrir einstakling og um 5,9 milljónir króna fyrir hjón sem ekki stunda launaða vinnu en lifa af eignum sínum. Telur ríkisstjórnin brýnna að hækka skattfrelsismörk þessa fólks en þeirra sem vinna hörðum höndum fyrir lágum launum?
3. Samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra munu breyttar reglur um skattlagningu fyrirtækja skv. frumvarpi um skatt á fjármagnstekjur geta leitt til þess að tekjuskattur 40 tekjuhæstu hlutafélaga landsins lækki um rúmlega 800 milljónir króna. Góð afkoma fyrirtækjanna á m.a. rætur að rekja til launasamninga með litlum launahækkunum á undanförnum árum þar sem launþegar hafa orðið að taka á sig skerðingu tekna en jafnframt verið sagt að þeir myndu njóta þess síðar er aðstæður í atvinnulífi bötnuðu. Telur ríkisstjórnin sanngjarnt að þegar árangur þessara fórna launþega kemur í ljós í bættri afkomu atvinnurekstrar og hækkuðum tekjum eigenda fyrirtækja sé sköttum velt af þessum aðilum yfir á almennt launafólk eins og gert er með frumvarpi um skatt á fjármagnstekjur?
4. Samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra mun skattstofn af arði, söluhagnaði, lækka um 740 milljónir króna. Þar af er lækkun skattstofns þeirra 10% hjóna og einstaklinga, sem hæstar tekjur hafa um 465 milljónir króna og munu skattar þeirra lækka um rúmlega 200 milljónir króna og tekjur hins opinbera samsvarandi. Telur fjármálaráðherra sem beitt hefur sér fyrir lækkun barnabóta og framlaga til félagslegrar þjónustu að þessir 10% tekjuhæstu þegnar landsins séu í meiri þörf fyrir aðstoð af hálfu ríkisins en barnafólk, sjúklingar og aldraðir?
5. Talið er að eigið fé Sameinaðra verktaka, sem að mestu hefur verið safnað í skjóli einokunaraðstöðu við framkvæmdir á vegum varnarliðsins, sé um 2,5 milljarðar króna. Verðmæti þess fyrir hluthafana eftir að hafa greitt skatt af söluhagnaði skv. núgildandi lögum er talið vera um 1,5 milljarðar króna. Verðmæti þessara eigna fyrir hluthafana mun hækka um 750 milljónir króna eftir að hafa greitt skatt skv. frumvarpi um skatt á fjármagnstekjur og nýtt að fullu frestun á skattlagningu söluhagnaðar skv. þeim. Telur ríkisstjórnin réttlætanlegt að auka verðmæti hermangsgróða einokunaraðila með þessum hætti.
6. Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu fyrr á árinu um Sjóvá-Almennar var arður sem greiddur var 10 einstaklingum, sem tilgreindir voru í fréttinni, 14,3 milljónir króna. Samkvæmt gildandi lögum er skattur þessara hluthafa af þessum tekjum 5,5 - 6,5 milljónir króna. Samkvæmt frumvarpi um skatt á fjármagnstekjur mun þessi skattur lækka í 1 - 1,5 milljónir króna. Fjármálaráðherra hefur margoft lýst þeirri skoðun sinni að þörf sé á að lækka tekjuskatta. Telur hann og ríkisstjórnin að brýnast sé að byrja á því verki með því að lækka skatta stóreignafólks og hátekjumanna og sérstaklega beini ég þeirri spurningu til Framsóknarflokksins hvort það sé stefna hans að hafa stóreignafólk í fyrirrúmi?