Fara í efni

STÖRF Í HEILBRIGÐISÞJÓNUSTUNNI

Frettablaðið
Frettablaðið

Birtist í Fréttablaðinu 01.03.10.
Fall er fararheill segir máltækið og á vonandi við um Ólaf Þ.Stephensen sem skrikar fótur í fyrsta leiðara sínum sem ritstjóri Fréttablaðsins. Hann staðhæfir þar ranglega að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco,  hyggist setja „hundrað milljónir króna" í nýjan  einkaspítala. Fram hefur komið að framlagið er tíföld þessi upphæð.
Forsvarsmenn verkefnisins segja að þarna muni skapast 300 ný störf sem komi til með að gefa af sér  300 milljónir króna á ári í skatttekjur.  Við þessu tekur ritstjórinn gagnrýnislaust og gengur leiðarinn síðan út á að sýna að Vinstrihreyfingin grænt framboð sé andvíg atvinnuuppbyggingu - og það sem verra er, í heilbrigðisþjónustu! Í samræmi við þetta ber leiðarinn yfirskriftina „Kreddur gegn atvinnu".
Það er alvarleg ásökun að bera fólki á brýn að það sé andvígt atvinnuuppbyggingu og að fordómar komi í veg fyrir að sköpuð séu ný atvinnutækifæri fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Staðreyndir málsins eru þessar: Mesta kreppa í íslensku efnahagslífi á síðari tímum hefur valdið tekjuhruni hjá ríki og sveitarfélögum. Af þeim sökum hefur þurft að draga stórlega úr útgjöldum og hækka skatta. Þó ekki meira en svo að halli á fjárlögum á næsta ári verður á annað hundrað milljarða. Heilbrigðskerfið fer því miður ekki varhluta af þessum hremmingum. Niðurskurðurinn þar veldur samdrætti í umfangi þjónustunnar og þar með fækkun starfa  á sumum sviðum - vonandi tímabundið. Að mínum dómi er hveri krónu sem ver störf í heilbrigðisþjónustunni vel varið - og atvinnuúrræði í sjálfu sér.
Spurningin snýst þá um þetta: Hvernig er fjármunum best varið innan heilbrigðisþjónustunnar til þess að tryggja sem besta þjónustu og sem flest störf?
Þetta telur ritstjóri Fréttablaðsins að nýr einkaspítali muni gera ágætlega, sjúklingar verði fluttir inn til landsins og við getum nýtt íslenska starfskrafta sem ella yrðu vannýttir. Starfseminni fylgi gjaldeyristekjur.
Er þetta virkilega svona einfalt? Nægir að fá aðstoð ríkisins við uppbyggingu sjúkrahússins og að síðan verði starfsemin sjálfbær, ríkisjóður komi hvergi nærri þar eftir, hafi þvert á móti tekjur af starfseminni? Og hvað með hina erlendu greiðendur, til dæmis sjúkratryggingar á Norðurlöndum, er sátt um þetta fyrirkomulag?
Ástæðan fyrir því að ég fer fram mjög ákveðið með varnaðarorð á þessu stigi er sú, að ég tel að þetta standist ekki skoðun, ríkið komi til með að þurfa fjármagna starfsemina að verulegu leyti.
Ég hef ítrekað, fyrr og nú, vakið athygli á því að ýmsum spurningum þurfi að svara áður en haldið er lengra út í þetta einkavæðingarferli. Þær snúa bæði að aðgengi að heilbrigðiskerfi okkar og einnig að pyngju skattborgarans: Munu íslenskir sjúklingar geta sótt lækningu á nýja sjúkrahúsinu? Koma íslenskar sjúkratryggingar til með að borga? Hvaða lög og reglur gilda um EES-sjúklingana? Hvað um réttindi þeirra sjúklinga?
Þegar íslenskir útrásarfjárfestar komust yfir búlgarska símann fyrir fáeinum árum skrifaði ég greinar í þetta blað þar sem ég minnti á að hið sama ætti að gilda gagnvart erlendum samfélögum og okkur sjálfum. Við ættum með öðrum orðum að koma fram við aðra einsog við vildum að komið væri fram gagnvart okkur sjálfum. Þetta á einnig við nú. Við Íslendingar erum ekki ein um að þurfa að skera niður útgjöld í velferðarþjónustu og leita allra leiða til að nýta hverja krónu sem best.

Tilraunir til hagræðingar og sparnaðar eru stöðugt á vinnsluborðinu út um allan heim, m.a. í grannlöndum okkar. Hér á landi nálgumst við óðfluga sársaukamörk í niðurskurði innan heilbrigðiskerfisins og þurfum því að hyggja mjög yfirvegað að framhaldinu, samstillingu þjónustustiga og skörun almannaþjónustu og einkareksturs. Nýta þarf hverja krónu til hins ítrasta og helst tvisvar ef hægt væri. Mesta sóunin er í ósamstilltu heilbrigðiskerfi. Þetta þekkjum við einnig úr umræðum um heilbrigðismál í grannlöndum okkar.
Rétt er að spyrja hvort það verði okkur til framdráttar - nú þegar sárlega vantar siðferðisvottorðin -  að bjóða hér upp á eins konar "aflandsheilbrigðisþjónustu" sem ekki er svigrúm til að vinna í heimalandi sjúklinga en senda heimalandi þeirri hvort eð er reikninginn! Er ekki nóg komið af slíkum strandhöggum? Útflutningur og innflutningur á heilbrigðisþjónstu eða sjúklingum getur verið spennandi valkostur en það þarf að gerast í nánu samstarfi við þær þjóðir sem í hlut eiga og þá jafnan með það að leiðarljósi að grafa ekki undan velferðarþjónustu þeirra.