Fara í efni

STÓRFUNDUR Í MOSFELLSBÆ


Í dag var boðað til kynningar- og umræðufundar í Mosfellsbæ um fyrirhugaðar framkvæmdir í Helgafellslandi. Bæjaryfirvöld sem stóðu fyrir fundinum og kynntu áform sín en um þau hefur staðið styr. Sýnist sitt hverjum en hörðust gagnrýni hefur komið frá svokölluðum Varmársamtökum sem kenna baráttu sína við Varmána, sem rennur um þetta svæði. Fundurinn var heitur enda mörgum þetta mikið tilfinningamál.
Bæjaryfirvöld eiga hrós skilið fyrir að bjóða fulltrúum Varmársamtakanna að hafa formlega kynningu á sinni afstöðu nánast til jafns við bæjarstjórnina. Hún hefur reyndar staðfastlega haldið því fram að kynning og samráð hafi átt sér stað um skipulag svæðisins enda hafi það tekið breytingum í tímans rás einmitt vegna gagnrýni sem fram hefur komið. Engan veginn nóg hafa  Varmársamtökin sagt og á fundi sem þau boðuðu til sl. laugardag var haft á orði að deilan snerist um samskipti og jafnvel mannasiði. Sami maður og lét þau orð falla á laugardag sagði í fundinum í dag: Batnandi mönnum er best að lifa!
Þetta þótti mér gott að heyra enda finnst mér það vera grundvallaratriði að hlusta á fólk og taka tillit til sjónarmiða þess.

Auðvitað snýst deilan um annað og meira en samskipti. Hún snýst um skipulag á svæðinu. Athyglin hefur einkum beinst að tengibraut inn í hið nýja hverfi, hvar hún skuli liggja; hvaða valkostur væri heppilegastur. Fram kom á fundi Varmársamtakanna á laugardag að deilan stæði ekki um sjálfa byggðina í Helgafellslandi heldur fyrst og fremst aðkomu að hverfinu. Jafnframt hefur þó verið vakin athygli á því að byggðakjarninn í Helgafellslandi hefur í áranna rás verið að stækka að umfangi en það er ekki fyrr en nú að sjónir manna beinast að þessu. Þetta er sá skilningur sem ég hef á málinu eftir þá fundi sem ég hef sótt. Fram til þessa hafi menn verið í þverpólitísku samræmdu göngulagi.
Karl Tómasson, fulltrúi VG í bæjarstjórn var löngum fullur efasemda um byggð og veg enda liggur hús hans allra manna næst vegarstæðinu. Af þeim sökum lýsti hann sig nánast vanhæfan í málinu þegar hann kom að því í nýjum bæjarstjórnarmeirihluta. Eftir að hafa skoðað alla kosti kveðst Karl hins vegar hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri þegar allt kæmi til alls illskásti kosturinn. Segist hann telja að vegarstæðið sem varð fyrir valinu inn í hverfið komi til með að valda minnstum umhverfisspjöllum. Þorri félaga í Varmársamtökunum virðist á öndverðum meiði við þetta sjónarmið og margir leggjast gegn því af miklum þunga.

Þá er á það að líta að fólk í öðrum hverfum horfir sumt hvert á málin frá öðrum sjónarhornum.
Fundur af því tagi sem haldinn var í dag, er okkur sem erum sannleiksleitandi í málinu en ekki með allar staðreyndir á hreinu, afar kærkominn. Deilan snýst um heppilegasta og jafnframt umhverfisvænsta valkostinn á tengingu við hina nýju byggð. Það er stórmál að rétt sé valið, ekki síst með tilliti til umhverfisins.
Fólk á að tala saman, hlusta á gagnstæð sjónarmið og taka síðan ákvarðanir. Slík vinnubrögð eru í anda lýðræðis. Annað á ekki að líðast.