Stóri Bróðir vakir
Í morgun vöknuðum við upp við að hryðjuverkasamtökin Al Queda væru með stórárás í undirbúningi. Fulltrúi Bandaríkjastjórnar hvatti til þess í morgunútvarpinu okkar að ferðamenn hefðu augun hjá sér. Með árvekni gætum við komið í veg fyrir hryðjuverk. Sem betur fer er búið að herða allt öryggiseftirlit í heiminum og er í auknum mæli fylgst með öllum "vafasömum" karakterum. Við megum ekki láta það trufla okkur þótt einnig þurfi að fylgjast með öllum hinum. Hvernig ætti annars að vera hægt að finna hina sem ber að varast? Vei þeim sem setur stein í götu Stóra bróður sem vill vaka yfir öryggi okkar!
Í gærmorgun vöknuðum við einnig upp við Al Queda frétt í útvarpinu. Að þessu sinni voru teknir tveir bátar með ólöglegan eiturlyfjafarm á Persaflóa, annar með amfetamín, hinn með heróín. Okkur var sagt að þeir væru á vegum Al Queda. Þessi frétt var líka frá bandarísku leyniþjónustunni, CIA. Það er eins gott að vera reglulega minntur á tilvist hryðjuverkasamtaka. Það gerir mann svo jákvæðan. Alla vega er það líklegt til að draga úr áhyggjum af föngum bandaríska hersins sem haldið er í búrum án dóms og laga í bandarískri herstöð á Kúbu. Þegar allt kemur til alls tengjast þeir allir Al Queda á einn eða annan hátt. Það er okkur alla vega sagt.