Fara í efni

STÓRKOSTLEG RÁÐSTEFNA UM VATN


Í dag var haldin ráðstefna um vatn sem 7 almannasamtök stóðu að: BSRB, Kennarasamband Íslands, Landvernd, Menningar og friðarsamtök íslenskra kvenna, Náttúruverndarsamtökin, Samtök starfsfólks fjármálafyrirtækja og Þjóðkirkjan.

Frá því er skemmst að segja að ráðstefnan var aldeilis mögnuð. Hafi einhver, sem þessa ráðstefnu sótti, haft efasemdir um að þetta umræðuefni ætti erindi inn í íslenska samfélagsumræðu, þá hurfu þær sem dögg fyrir sólu eftir því sem leið á ráðstefnuna. Ráðstefnugestir sátu og hlustuðu hugfangnir á hvert erindið á fætur öðru. Fyrir mitt leyti segi ég að þetta var einhver áhugaverðasta ráðstefna sem ég hef sótt í langan tíma. Almennt held ég að þetta hafi verið mál manna að ráðstefnunni lokinni. Erindin verða birt, að því leyti sem þau byggðu á skrifuðum texta, á vefsíðu BSRB, bsrb.is .

Fundarstjóri var Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands í líffræði. Inngangsorð hennar voru á borð við erindi en með orðum sínum setti hún ráðstefnuna í rétt samhengi á afgerandi hátt.

Það var síðan Karl Sigurbjörnsson, biskup sem flutti einskonar aðfararorð að ráðstefnunni. Það gerði hann á áhrifaríkan hátt. Hann fór út í heim, alla leið til Afríku, og brá upp mjög sterkri og lifandi mynd af afrískum konum sem sóttu niður í jörðina "hinn dýra dropa", en þannig komst biskup að orði um vatnið sem hinar fátæku konur sóttu um torleiði í vatnsból sem þó var þannig að grafa þurfti eftir vatninu. Karl Sigurbjörnsson, biskup, leiddi okkur einnig inn í eþíópskan dal þar sem gosdrykkjaverksmiðja hafði fengið einkaleyfi yfir öllu vatni í dalnum. Aðrir sátu á hakanum. Eigandinn hafði forgang um vatn í gosið! En hver á vatnið? spurði biskup í lok ávarps síns, vatnið sem fellur af himni til að frjóvga og vökva jörðina – og lífið. Þessi spurning átti eftir að verða rauður þráður í máli fyrirlesara.

Hilmar J. Malmquist líffræðingur og umhverfisstjóri Kópavogs, flutti geysilega sterkt erindi í máli og myndum. Ég hugsaði sem svo, að þótt ráðstefnunni lyki eftir erindi Hilmars þætti mér ég ekki hafa komið til einskis. Ég held að Hilmar hafi kveikt í okkur öllum. Hann fjallaði um "vatnfræðilegan fjölbreytileika" á Íslandi og sérstöðu Íslands. Þannig væru lindarvatnskerfin, sem hér eru, fágæt á alþjóðavísu. Þá væru jökulvötn fágæt en þau bæru mikið magn af jarðvegi til sjávar, hvorki meira né minna en 500 tonn á hvern íslenskan ferkílómetra að meðaltali á ári. Heyrði ég rétt? Hilmar skýrði okkur frá því að jökulsáin sem verið væri að virkja við Kárahnjúka bæri að jafnaði 10 milljón tonn af aur út í Héraðsflóann á ári hverju. Þarna væri skorið á "efna og orkuflutninga", sem aldrei hefðu verið rannsakaðir til fullnustu hver áhrif hefði á lífríki sjávarins við Íslands strendur því eftir virkjun sætu 90% prósent af aurnum eftir!
Enda þótt lífríkið væri ekki eins fjölskrúðugt í íslenskum vötnum og ám og annars staðar, væru stofnarnir hér harðgerir því þeir hefðu þurft "að aðlagast harðgerum aðstæðum á norðurslóðum". Sama ætti við um fuglastofnana. Ísland væri þeim mörgum mikilvæg uppeldisstöð. Hér tók ég sérstaklega eftir yfirveguðu orðalagi Hilmars J. Malmquists um varpsvæðin, "fuglarnir nýta þessa auðlind á hálendinu". Hann fór síðan nánar út í ökonomiskar vangaveltur og sagði okkur að umfang lax og silungsveiði næmi í krónum talið tveimur og hálfum milljarði króna og væri þá ekki meðtalin "geðhjálpin", hin andlega hjálp og næring sem útivistin og nálægðin við móður jörð færði okkur!

Páll H. Hannesson flutti erindi um aðkomu samtaka launafólks að þessu málefni. Fór hann vítt yfir í afar fróðlegu erindi, fjallaði um alþjóðasamninga, GATS samningana á vegum WTO, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og einnig það sem er að gerast í nærumhverfinu. Fræddi hann fundarmenn um áherslur BSRB og á hvern veg samtökin hefðu beitt sér til að hafa áhrif á lög um vatnsveitur og einnig til að vekja stjórnvöld og samfélag til vitundar um miklvægi GATS samninganna. Páll fór orðum um afleiðingar einkavæðingar á vatni víðs vegar um heiminn og skýrði hvernig alþjóða auðhringarnir væru að draga sig frá fátækum löndum – enda erfitt að græða á öreigum – og væru að beina sjónum sínum að ríkari hluta heimsins.

Anna M. Þ. Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar, hélt erindi undir fyrirsögninni Vatn í þróunarhjálp. Þarna komu fram mjög áhugaverðar upplýsingar og ég sannfærðist um að þarna væri verið að vinna mjög þarft verk. Stundum er hægt að segja margt í fáum orðum. Anna sagði þannig í upphafi erindis síns að í Afríku hefðu 76% Afríkubúa ekki vatnslagnir inn í híbýli sín og 87% væru án skólplagna inn í íbúðarhúsnæði sitt. Þetta segir mikla sögu.

 

 

 

Ingibjörg E. Björnsdóttir, umhverfisfræðingur, flutti mjög gott og vekjandi erindi. Vatn er auðlind á hverfanda hveli, sagði Ingibjörg. Vatnsskortur er vaxandi vandamál í löndum á borð við Egyptaland, Indland og jafnvel Bandaríkin. Þegar á heildina væri litið væri það fátækustu jarðarbúarnir sem jafnframt byggju við vatnsskort. Búast mætti við að fyrirtæki vildu komast yfir okkar Gvendarbrunna og færa þurfandi þjóðum vatn. Ingibjörg nefndi þar Holland og Egyptaland. Það þarf að hugsa á sanngjarnan og réttlátan máta, sagði Ingibjörg réttilega, við þurfum að skipta jafnt, sagði hún. Þessu er ég sammála en þá verðum við líka að gæta að því að skiptingin fari ekki fram á forsendum fyrirtækja, forsendum fjármagnsins, heldur samkvæmt viðhorfum samfélagsins, á grundvelli félagslegra sjónarmiða. Ingibjörg sagði að fram til þessa hefði fyrst og fremst verið hugsað um vatn sem dauða auðlind sem væri til þess fallin að stífla og virkja. Við þyrftum að hugsa á allt öðrum forsendum, heildstætt,  með það í huga að nýta vatnskerfin til framtíðar. Við yrðum að hætta að hugsa í beinni línu og hugsa heildstætt og í hring, horfa á vistkerfið í heild sinni, ekki út frá skammtíma nytjasjónarmiðum.

Síðan kom Pétur Gunnarsson, rithöfundur inn á sjónarsviðið eins og stormsveipur – ekki eins og þeir fellibyljir sem eru niðurrífandi og niðurbrjótandi og nú herja á suðurríki Bandaríkjanna, heldur var þetta jákvæður og uppbyggilegur stormsveipur!

Pétur kom víða við -  í bókmenntum, eigin upplifunum og sagnfræðinni - í hugvekju sem hélt okkur öllum hugföngnum. Hann minnti okkur á að vatn og meðferð þess hefði frá fornu fari verið mælikvarði á velmegun samfélaganna. Tók hann um þetta dæmi. Það er umhugsunarvert, sem kom fram í máli Péturs, að á sínum tíma brutu Vandalar Rómaveldi á bak aftur með því að rjúfa vatnsleiðslurnar til Rómar. Þar með var skorið á lífæðina! Pétur minnti okkur á að í Gerplu Halldórs Laxness hefði Butraldi farið um og migið í vatnsbrunna. Hver er munurinn á hans svívirðilega athæfi spurði Pétur, og okkar sem sturtum úrgangi inn í náttúru og lífríki?

Davíð Egilsson, forstjóri Umhverfisstofnunar, flutti mjög fróðlegt erindi. Hann setti þessi mál í sögulegt samhengi og tengdi vatnið og nýtingu þess breyttum búskaparháttum. Brá hann upp á skjá myndum af fólksfjöldaþróun síðustu þrjú hundruð árin og hvernig hugsun manna um nýtingu vatns hefði tekið breytingum. Þá setti Davíð lagasetningu og reglugerðarsmíð í sögulegt samhengi og skýrði áform Evrópusambandsins á þessu sviði. Davíð sagði að erfiðara reyndist að fá fjármagn til grunn- og yfirlitsrannsókna en til verkefna sem tengdust nýtingu. Mér segir svo hugur um að svo sé á flestum sviðum nú um stundir. Sagði Davíð að æskilegt væri að Íslendingar kæmu á markvissari hátt að stefnumótun á sviði umhverfismála á vettvangi Evrópusambandsins en við gerðum og vísaði í því sambandi til Noregs, sem einnig stendur utan Evrópusambandsins en er einsog við á hinu Evrópska efnahagssvæði og hefur mjög sterka aðkomu að evrópskri stefnumótunarvinnu. Þá fylgdu Norðmenn einnig stefnu sem þeir sjálfir hefðu mótað á þessu sviði og væru auk þess staðráðnir í að verða í engu eftirbátar Evrópusambandsins á þessu sviði.

Að loknu erindi Davíðs hófust umræður fulltrúa stjórnmálaflokkanna í pallborði. Magnús Þór Hafsteinsson kvað Frjálslyndaflokkinn geta tekið undir yfirlýsingu fundarins að því leyti að umráðaréttur yfir vatninu ætti að vera samfélagslegur en það þyrfti ekki að gilda um nýtingarréttinn. Kolbrún Halldórsdóttir kvað Vinstrihreyfinguna grænt framboð styðja yfirlýsingu um að vatn ætti að vera á forræði samfélagsins í einu og öllu. Hún fór yfir stefnu VG og öll þau mál sem flokkurinn hefði lagt fram og tengdust umfjöllunarefni þessa fundar. Hjálmar Árnason talaði fyrir Framsóknarflokkinn. Hann kvaðst myndu ræða yfirlýsingu fundarins á fundi þingflokks. Hann upplýsti að hið umdeilda frumvarp um vatnalög frá síðasta vori myndi ekki koma fram óbreytt að nýju. Guðlaugur Þór Þórðarson, lýsti stefnu Sjálfstæðisflokks. Hann lagði áherslu á mikilvægi umhverfisþáttar þegar vatn og orka væru annars vegar. Mörður Árnason kvaðst sannfærður um að þingflokkur Samfylkingar myndi leggja blessun yfir yfirlýsingu samtakanna 7 sem stæðu að þessum fundi. Sagði hann að frumvarpið um vatnalögin frá í vor væri afleitt og þyrfti þar að verða breyting á. Tók hann undir spurningu úr sal um mikilvægi þess að nýtingarsjónarmið ættu að hvíla á forsendum verndarsjónarmiða. Spurningin úr sal var byggð á áherslum Kolbrúnar Halldórsdóttur sem hafði lagt ríka áherslu á þessa forgangsröð.

Þegar ráðstefnutíminn var í þann veginn að renna út, mætti til leiks Nigel Dower, fyrrum prófessor við Aberdeen háskóla en nú gestaprófessor við Háskólann á Akureyri. Hann hafði ekki komist fyrr sökum veðurofsa í háloftum fram á hádegið en þegar loksins lægði höfðu orðið til miklar biðraðir eftir flugi landshorna í milli. Nigel Dower var í hópi þeirra sem urðu að bíða - lengi.
Þótt komið væri fram yfir auglýstan fundartíma þegar Nigel sté í pontu þá verður að segjast sem er að erindi hans var svo áhugavert að salurinn tendraðist upp. Erindið var ágæt áminning um hve miklvægt það getur verið að fá heimspekinga til að hjálpa okkur að beina umræðunni í markvissan farveg, jafnframt því sem hugsuðir, á borð við Nigel Dower, stuðla að því að við höldum sjóndeildarhringnum víðum. Heimspekingurinn rakti lagasetningar um vatn á heimsvísu og síðan aðkomu Sameinuðu þjóðanna að slíkri lagagjörð og nú á síðustu árum hvatningu um að líta á vatn sem mannréttindi. Hinn siðferðilegi réttur til vatns er ekki algildur sagði Nigel Dower og tók sem dæmi vökvun á grasinu á golfvelli á þurrkasvæði á kostnað þurfandi íbúa! En ef við höldum okkur við réttinn til vatns, þá heldur það teoretískt – samkvæmt kenningunni – sagði Dower, að fara megi ýmsar leiðir til að veita vatninu til neytandans. Því er þó ekki að leyna að einkavæðing vatns í Bretlandi, svo dæmi sé tekið, sagði prófessorinn, reyndist hörmuleg.

Þetta vakti viðbrögð í salnum. Ef leiðirnar að takmarkinu, sem allir geta sameinast um, svo sem að allir skuli hafa aðgang að vatni, reynast slæmar, er það ekki áminning til okkar að horfa náið á leiðirnar ekki síður en takmarkið. Þannig var Nigel Dower spurður úr hópi áheyrenda og var greinilega verið að vísa í einkavæðinguna og slæma reynslu af henni. Nigel Dower fór um þessa spurningu nokkrum orðum. Undir lokin staðnæmdist hann við kennisetningu sem eignuð er indverska baráttumanninum og mannréttindafrömuðinum Gandhi sem einhverju sinni sagði að leiðin að takmarkinu væri takmarkið í mótun., the means are the ends in the making. Þetta held ég að sé rétt. Þú býrð ekki til frelsi með kúgun, jöfnuð með ójöfnuði. Það þarf að vera skyldleiki með aðferð og takmarki. Það er alla vega mín niðurstaða og hefur lengi verið. Ekki verra að vita að Gandhi skuli hafa verið á sama máli.  

Yfirlýsing: Vatn fyrir alla

Undirrituð samtök vilja með sameiginlegri yfirlýsingu þessari vekja athygli ríkisstjórnar, sveitarstjórna, stofnana, fyrirtækja og almennings á mikilvægi og sérstöðu vatns fyrir land, þjóð og lífríki. Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum. Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Hugsa verður til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi.

Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis. Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrulega í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn.

Undirrituð samtök telja að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi, eins og kveðið er á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist. Sérhver maður á því rétt á aðgengi að hreinu drykkjarvatni og vatni til hreinlætis og heimilishalds.

Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru.

Nýting vatns skal vera sjálfbær og aðgengi að því tryggt með lögum fyrir núlifandi kynslóð og kynslóðir framtíðarinnar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þegnum sínum þennan rétt án mismununar.

Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja verndun vatns sem náttúruverðmæta sem og að tryggja hollustu og dreifingu vatns til allra þjóðfélagsþegna með fjárfestingu í mannvirkjum og mengunarvörnum. Vatnsveitur verði því reknar á félagslegum grunni, taki mið af almannahagsmunum og tryggi rétt einstaklinga til nægilegs hreins vatns til drykkjar og hreinlætis á viðráðanlegu verði. Það er jafnframt hlutverk stjórnvalda að tryggja að við nýtingu vatns verði öðrum náttúruverðmætum ekki spillt.

Stjórnvöldum ber að tryggja almenningi aðgengi að öllum upplýsingum er varða verndun og nýtingu vatns og stuðla að aukinni virkni almennings og meðvitund um mikilvægi vatns, náttúru og réttrar umgengni við landið.

Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telja undirrituð samtök nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög og reglugerðir um nýtingu vatns taki því mið af ákvæðum sem viðurkenna rétt einstaklinga til vatns sem og lögum er varða verndun vatns og náttúru.

Til að tryggja skilvirka verndun og nýtingu vatns ber stjórnvöldum að skipuleggja stjórnsýslu þannig að eðlilegt jafnvægi sé á milli þessara þátta og réttar einstaklinga til aðgengis að vatni.

BSRB, Kennarasamband Íslands, Landvernd, MFÍK, Náttúruverndarsamtök Íslands, SÍB, Þjóðkirkjan