Fara í efni

STRANDSIGLINGAR ORÐNAR AÐ VERULEIKA Á NÝ

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í Morgunblaðinu 18.02.14.
Árið 1992 var ríkisstyrkjum til strandsiglinga við Ísland hætt og töldu margir að það myndi hafa í för með sér aukna samkeppni á milli stóru skipafélaganna, Samskipa og Eimskipafélagsins. Raunin varð önnur. Smám saman dró úr strandsiglingum og árið 2000 hætti Samskip strandsiglingum og í byrjun ágústmánaðar árið 2004 var skýrt frá því að Eimskipafélagið hygðist einnig hætta strandsiglingum við Ísland.

Ríkisstuðningur tekur á sig margar myndir

Á þessum tíma komu margir fram á ritvöllinn og lýstu því yfir að stuðningur við tilteknar samgöngugreinar ætti að vera liðin tíð. Vildi þá gleymast að þótt innanlandsflutningar á sjó væru úr sögunni lögðust flutningar ekki af, þeir fór nú upp í loftið og ofan á vegina. Landflutningafyrirtækin heimtuðu nú margbreiða og styrkta akvegi sem skattborgarinn átti að kosta og fór þá stundum lítið fyrir því að spurt væri um þjóðarhag. Margir sáu þó þá mótsögn sem í því var fólgin að býsnast yfir ríkisafskiptum og niðurgreiðslum til siglinga hafna en sjá ekki að allir grunnþættir samgöngukerfisins, hvort sem það eru vegir, hafnir eða flugvellir, eru einmitt kostaðir af almannafé. Í eðli sínu væri ekki grundvallarmunur á mannvirkjagerðinni og sjálfum flutningunum.

Þverpólitísk samstaða um strandsiglingar

Á Alþingi myndaðist smám saman þverpólitísk samstaða um að finna leiðir til að koma á strandsiglingum að nýju.
Þegar samgönguáætlun fyrir árin 2003-2006 kom til umræðu á þingi bárust umsagnir fjölmargra hagsmunaaðila, þar á meðal frá Félagi íslenskra skipstjórnarmanna. Í umsögn félagsins var mælt af miklum hyggindum auk þess sem mjög eftirtektarverður þjóðhagslegur samanburður var gerður af hálfu félagsins á sjóflutningum annars vegar og land- og loftflutningum hins vegar. Almennt lýsti félagið sig „fylgjandi þeirri stefnu að samgöngumál séu skipulögð sem samstæð heild í stað þeirrar tilhögunar sem áður var, að líta á hvern hinna þriggja þátta samgangna sem afmarkaðar stærðir, skipulagslega og hagrænt".

Horft til þjóðarhags

Þetta hefur síðan orðið leiðarljós í skipulagi samgöngumála. Í auknum mæli tóku menn að beina sjónum að samfélagslegum tilkostnaði við vöruflutninga á landi. Rannsóknir þóttu leiða í ljós að ein ferð dráttarbíls með tengivagni og alls 30 til 40 tonna æki sliti vegi jafnmikið og þúsundir, jafnvel tugþúsundir, fólksbíla af meðalstærð. Niðurbrot á burðarlagi vega ræðst þó af fleiri þáttum svo sem burðarþoli vega, búnaði flutningabíls, hjólbörðum og fjöðrunarkerfi. Reiknað var út að vöruflutningar á vegum hefði í för með sér kringum 300 til 500 milljóna króna árlegan kostnað í auknu viðhaldi vegakerfisins.

Hagsmunatengdar áherslur

Jafnframt rannsóknum af þessu tagi létu samgönguyfirvöld kanna kosti þess að koma strandflutningum á að nýju. Svo hafði verið gert um alllangt skeið þegar ég kom sem ráðherra  í samgönguráðuneytið haustið 2010. Vinnuhópur sem forveri minn skipaði hafði komist að þeirri niðurstöðu að strandsiglingar gætu verið hagkvæmur kostur miðað við ákveðnar forsendur. Í skýrslu hópsins voru þó settir ákveðnir fyrirvarar og skal þá haft í huga að hagsmunaaðilar flutningageirans áttu gjarnan aðkomu að slíkum vinnuhópum með hagsmunatengdar áherslur sínar.

Tekið af skarið

Vorið 2011 skipaði ég starfshóp undir forystu Guðmundar M. Kristjánssonar, hafnarstjóra á Ísafirði, sem falið var það hlutverk að leggja fram tillögur um hvernig koma mætti á strandsiglingum og undirbúa útboðslýsingu fyrir ríkisstyrktar strandsiglingar. Nú skyldi látið til skarar skríða. Hópurinn, sem auk Guðmundar samanstóð af Pétri Ólafssyni, skrifstofustjóra Akureyrarhafnar, Unnari Jónssyni, rekstrarfræðingi á Akureyri, og sérfræðingum  innanríkisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar, lagði fram drög að rekstraráætlun. Hún miðaðist við vikulegar siglingar hringinn í kringum landið og að líklegir flutningar gætu numið um 70 þúsund tonnum á ári. Bjóða ætti verkefnið út og miða við að nokkurra ára stigminnkandi styrkur myndi ýta undir frekari markaðssetningu fyrirtækjanna og þróun þessa kerfis. Ríkisstjórnin veitti í kjölfarið samþykki við tillögu minni um að ráðast í útboð á þessum forsendum.

Annað hljóð í strokkinn

Nú brá svo við að tvö helstu skipafélög landsmanna, Eimskipafélagið og Samskip, ákváðu að taka upp aukna þjónustu í siglingum við landið á siglingaleiðum sínum til Evrópu. Létu þau nú boð út ganga að skip þeirra myndu koma við á fleiri höfnum en áður og flytja vörur til útflutnings.
Ljóst var að gengi þetta eftir þýddi þetta minnkandi landflutninga milli staða til að ná til útflutningshafnar. Þetta þéttara siglinganet skipafélaganna um landið gæti líka þýtt aukna flutningaþjónustu milli hafna innanlands sem dregið gæti úr þörf á landflutningum. Fram kom hjá öðru skipafélaginu að þessi breyting þýddi að fækkað yrði ferðum flutningabíla en vel að merkja landflutningarnir komust á hendi skipafélaganna þegar þau hættu strandsiglingum og eru enn á þeirra vegum. En nú kom líka fram af hálfu útflytjenda að þetta myndi að öllum líkindum hafa minnkandi flutningskostnað í för með sér.

Breyttu um kúrs

Skipafélögin sjálf tóku með öðrum orðum að sér verkefnið sem ríkið hafði ætlað að styrkja og kváðust nú sjá sér hag í því að auka þjónustu sína að þessu leyti.
Menn geta getið sér til um hvort ákvörðun um væntanlegt útboð hafi átt þátt í þessari nýju þjónustu skipafélganna en með þessu eru þau í reynd að útfæra að miklu leyti þá hugmynd sem útboð strandsiglinganna snerist um.
Ég lýsti því strax yfir að yrði þetta fyrirkomulag til framtíðar væri tilgangi með útboði á strandsiglingum náð og því ákvað ríkisstjórnin að fresta fyrirhuguðu útboði.
Ég sagði jafnframt að fylgst yrði náið með því hvernig þetta gengi eftir en kvað það jafnframt vera ánægjulegt ef strandsiglingar væru þar með komnar á að nýju.

Og hver er niðurstaðan?

Athugun á stöðu mála nú leiðir í ljós mjög ánægjulega niðurstöðu hvað þetta varðar. Eftir tvo mánuði sigldu bæði skipafélögin annars vegar vikulega og hins vegar hálfsmánaðarlega um ströndina með fleiri viðkomustöðum og tengdu netið við siglingar sínar til útlanda. Flutningur á strandsiglingarleiðum er eftirfarandi í tonnum talið frá því siglingarnar hófust 20. mars 2013 og til áramóta:

Ísafjörður           18.670 tonn

Sauðárkrókur     21.317 tonn

Akureyri            38.730 tonn

Reyðarfjörður      4.760 tonn

Samtals             83.477 tonn

 

Það er einungis Samskip sem er með viðkomu á Reyðarfirði í strandsiglingaráætlun og eru tölurnar þaðan bara vegna Samskipa en Eimskip er með á áætlun vikulega brottför frá Reykjavík á Vestmannaeyjar og  Reyðarfjörð þess utan og er í þessum tölum ekki það magn sem Eimskip flytur frá Reyðarfirði en gera má ráð fyrir að það sé ekki undir 20.000 tonnum.
Tekjur hafnanna vegna tilkomu strandsiglinga að nýju hafa aukist um tugi milljóna.
Ef við gerum ráð fyrir að í hverjum gámi séu 25 tonn þá gerðu þetta 3.339 ferðir með gámaflutningabílum á milli framangreindra staða og Reykjavíkur með farm og 3.339 ferðir frá Reykjavík með tóma gáma út á land. Í samræmi við þetta er fróðlegt að hafa í huga að samkvæmt umfjöllun í Morgunblaðinu 6. júní sl. hefðu flutningabílar Eimskips í þá tvo mánuði, sem þá voru liðnir frá breytingunni, ekið 150 þúsund km minna en áður en strandsiglingarnar hófust. Munar um minna!