Fara í efni

STRÍÐSLEIKUR FYRIR 45 MILLJÓNIR AF ÞÍNUM SKATTGREIÐSLUM !


Í Tíu-fréttum Sjónvarps í kvöld fengum við að heyra að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, er tilbúinn að eyða einum milljarði króna af skattfé landsmanna til að halda úti Ratsjárstofnun svo hún geti fylgst með því  að flugvélar "sem ekki senda frá sér merki" og gera grein fyrir sér mælist á skermum þessarar stofnunar. "Hvaða vélar skyldu það vera?-" spurði forsætisráðherra íbygginn fyrir framan sjónvarpsvélarnar. Það er nú það, eins gott að fylgjast með þeim! Ég spyr, gæti verið að þær kæmu frá Líbýu eða Kasakstan, Formósu - eða kannski Sovétríkjunum? Getur verið að ríkisstjórn Íslands hafi ekki borist fréttir af nýrri heimsmynd, að hún sé föst í viðjum liðins tíma? 
Er ef til vill verið að gera grín að þjóðinni? Hlýtur það ekki að vera grín þegar okkur er sagt að verið sé að æfa árás á landið þar sem Norðmenn eru árásaraðilinn en Kaninn eigi að verja okkur? Innrásarherinn í Írak og Afganistan, fangabúðastjórarnir í Guantanamó eiga að gæta okkar!
Ég man eftir svona leikjum þegar ég var tíu ára. Við kölluðum stríðsleiki af þessu tagi bófahasar. Okkar leikur kostaði hins vegar ekkert. Bófahasar þeirra Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar kostar íslenska skattborgarann 45 milljónir. Bara þessi eini leikur. Stríðsleikir NATÓ verða að minnsta kosti fjórum sinnum á ári. Kæmu þessir milljónatugir og hundruð milljóna – þegar saman safnast - kæmu þessir peningar sér ekki vel á Endurhæfingarstöð Landspítalans við Grensás eða á öldrunardeildinni á Landakoti – til að borga starfsfólkinu þar hærri laun, kaupa tæki og lyf?
Er þetta virkilega ykkar forgangsröðun Geir og Ingibjörg?
Haldið þið að við - almennir skattgreiðendur - séum tilbúin að láta ykkur sólunda peningum okkar á þennan hátt?