Styðjið okkur til að styðja ykkur
Birtist í Breiðholtsblaðinu
Hver hafa verið helstu átakamálin á Alþingi síðustu fjögur árin? Ég vil fyrst nefna skattamál. Ríkisstjórnin hefur létt sköttum af fyrirtækjum og efnafólki. Stjórnarandstaðan vildi aftur á móti auka ráðstöfunartekjur láglauna- og millitekjufólks. Þá var harkalega tekist á um kjör öryrkja og lífeyrisþega. Í umhverfismálum urðu miklar deilur innan þings og utan um Kárahnjúkavirkjun og stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar. Þá voru utanríkismálin mjög til umræðu, ekki síst ákvörðun ríkisstjórnarinnar að styðja Bandaríkjastjórn í árásum á erlend ríki, nú síðast Írak. Telja má upp marga aðra málaflokka sem tekist hefur verið hart á um í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks svo sem húsnæðismálin, sem eru í miklum ólestri, um kvótakerfið og að sjálfsögðu alla einkavæðinguna.
VG hefur staðið vaktina
Og hverjir voru það sem helst stóðu í fæturna gegn ríkisstjórninni í stærstu átakamálunum? Í fullri hógværð leyfi ég mér að fullyrða að það hafi verið þingflokkur Vinstri grænna. Þótt þingflokkurinn hafi verið kraftmikill í stjórnarandstöðu held ég að hann yrði ekki síður duglegur kæmist hann í stjórn. Sannast sagna er ég mjög stoltur af þeim málefnum sem við teflum fram í þessum kosningum. Í atvinnumálum erum við með tillögur um að efla nýsköpun og styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki. Þannig stuðlum við að fjölbreytni í atvinnulífinu. Vinstrihreyfingin grænt framboð er með ítarlega útfærslu á nýju fiskveiðikerfi. Við erum staðráðin í að leggja kvótakerfið niður í núverandi mynd og færa eignarhald yfir auðlindinni í hendur þjóðarinnar. Þá leggjum við fram markvissar tillögur í velferðarmálum.
Byggjum upp velferðarþjónustuna og bætum kjörin
Á mörgum sviðum þarf að stórbæta velferðarþjónustuna og má þar m.a. nefna dvalarheimli aldraðra og sjúkra- og heilbrigðisstofnanir. Í skólamálum er úrbóta þörf, á sviði vísinda og rannsókna að sama skapi og þannig mætti áfram telja. Þá þarf að draga úr óheyrilegu álagi á starfsfólk í heilbrigðis- og menntageiranum. Forgangsröð ríkisstjórnarinnar hefur verið röng. Hún hefur verið uppteknari við að reisa glæsihallir undir sendiráð en byggja sómasamlega yfir aldrað fólk. Enda þótt ýmsir möguleikar séu á sparnaði í ríkiskerfinu er deginum ljósara að ekki er hægt að lofa hvort tveggja í senn; stórfelldum skattalækkunum og stórauknum útgjöldum til ofangreindra málaflokka. Þetta gera þó allir aðrir flokkar en Vinstrihreyfingin grænt framboð. Slíkum sjónhverfingum viljum við ekki beita. Við heitum því hins vegar að gera uppstokkun á skattkerfinu og auka ráðstöfunartekjur láglauna- og millitekjufólks. Almennar skattalækkanir boðum við hins vegar ekki – það þýðir ekkert annað en niðurskurð á velferðarkerfinu og menntakerfinu og er í hróplegri mótsögn við hagsmuni almennings.
Lofum ekki upp í ermina en efnum okkar loforð
Á tveimur sviðum sérstaklega boðum við aukin útgjöld. Í fyrsta lagi á sviði húsnæðismála. Þar ætlum við að beita okkur fyrir átaki til að auðvelda fólki að kaupa eða leigja húsnæði. Í öðru lagi ætlum við að stórbæta stöðu barnafólks. Við ætlum að gera leikskólann gjaldfrían og styrkja íþrótta- og menningarstarf svo efnahagur fólks ráði því ekki hvort börn og unglingar geti stundað íþróttir, tónlistarnám eða annað sem uppbyggilegt er ungu fólki.
Vonandi fáum við tækifæri til að takast á við þessi verkefni og mörg fleiri í þágu alls almennings á komandi kjörtímabili. Til þess þurfum við ykkar stuðning.