Fara í efni

SUMIR SEGJA OKKUR FRÁ MENNINGUNNI, AÐRIR ERU MENNINGIN

Nú á að fara að ráða nýjan útvarpsstjóra. Það skiptir máli hver þar stendur í stafni.

Ég vil þann sem stendur í fæturna fyrir íslenska menningu. Ég þori varla að biðja um annan Andrés Björnsson því svo sjaldgæfir eru slíkir einstaklingar í seinni tíð.

Ríkisútvarpið þarf að kunna skil á stefnum og straumum í mannlífi og menningu á alþjóðavísu svo og að sjálfsögðu, og ekki síst, íslenskum menningararfi. En það er ekki nóg að kunna að segja frá menningunni. Ríkisútvarpið á sjálft að vera menningin og þannig útvarpsstjóra þurfum við að fá. Slíkur maður var Andrés Björnsson.

Þegar hann flutti áramótaávarp sitt á miðnætti 31. desember, þegar skildi að gamla árið og hið nýja, lögðu drukknir menn frá sér glasið, hinir skotglöðu gerðu pásu í eldflaugahríðinni, Andrés Björnsson var að tala.

Áramótaávörp Andrésar Björnssonar voru á sínum tíma gefin út í bók sem bar heitið Töluð orð.
Á eftirfarandi hátt lauk hann síðasta ávarpi sínu á gamlárskvöld árið 1984:

“… Góðir hlustendur, þá er eftir að þakka ykkur hverju og einu alla vinsemd og það mikla umburðarlyndi sem þessir fábrotnu þættir á gamlárskvöldi hafa notið um mörg undanfaron ár.
Þökk sé öllum þeim nær og fjær sem með ýmsum hætti hafa minnt á þá staðreynd að Ríkisútvarpið á að vera stofnun allrar þjóðarinnar sem allir landsmenn eiga hlutdeild í og láta sig skipta.
Vonandi verður svo um langa framtíð með aukinni og bættri þjónustu og þátttöku almennings.
Engin mannaverk eru fullkomin eins og við vitum, en góður vilji er mikils megnugur.
Þakkir skulu færðar þeim fjölmörgu sem lagt hafa hönd á plóginn til að gera Ríkisútvarpið að þeim vini almennings sem hann vill ekki missa, heldur styðja; látnum og lifandi merkisberum íslenskrar menningar sem í störfum fyrir Ríkisútvarpið hafa veitt fólki landsins af auði anda síns og snilli.
Síðast en ekki síst skal þakkað starfsliði Ríkisútvarpsins sem ber hita og þunga hversdagsins, vill veg þessarar stofnunar mikinn og hefur ríkan metnað fyrir hennar hönd. Blessun guðs fylgi ykkur seint og snemma til allra góðra verka.
Hér skilur leiðir, og er mál að fella þetta tal.”