Fara í efni

SVANUR KVADDUR

Svanur Hvítaness Halldórsson var borinn til grafar í vikunni. Hvítaness nafnið þekkti ég ekki en finnst það vel við hæfi, stórbrotið og skínandi. Séra Kristján Björnsson sagði á þá leið í minningarorðum sínum að foreldrarnir hefðu greinilega viljað sveipa son sinn birtu, svanur væri að vísu hvítur en Hvítaness skyldi það líka vera.
Í sálmaskránni voru nokkrar myndir, meðal annars af Svani á fleygiferð á einum gæðinga sinna - en þeir munu hafa verið ófáir. 
Ég birti hér að neðan minningarorð mín um Svan sem birtust í Morgunblaðinu í dag. 

Minning:
Tíminn undir það síðasta varð Svani Halldórssyni erfiður vegna heilsubrests. Væri hann ekki sá sem hann var, hefði hann án efa kvatt fyrr. En hreystin og seiglan var miklu meiri en venjulegt er hjá venjulegum mönnum enda fór Svanur hvergi, löngu eftir að heilsan brást honum.

Svanur Halldórsson var um margt óvenjulegur maður, afburðaskemmtilegur, frásagnargáfan einstök, fróður og síleitandi, áhugasamur um allt í mannlífinu, ekki síst pólitíkinni. Þar lágu okkar leiðir saman.
Að Svani standa sterkir stofnar. Ég þekki minna til móður hans en ég gjarnan vildi, „þeirrar gömlu góðu Svövu Jónsdóttur frá Geitavík í Borgarfirði eystra“, sem Gyrðir Elíasson, skáld, hefur vísað til með hlýju í skrifum sínum, en þeim mun meira þekki ég til föður hans, Halldórs Péturssonar, sem á sinni tíð var landskunnur maður, ýmist titlaður sjómaður, verkamaður, rithöfundur - og heimspekingur, myndi ég vilja bæta við. Í afmæliskveðju lýsir Ármann Halldórsson fræðimaður honum með vísan í æskuslóðir á Héraði. Hann segir Halldór hafa hlotið „í vöggugjöf margs konar erfðir“, en „far hans og fas“ sé eigi að síður áþekkt náttúru landsins: „Heimilisforsjá, skyldurækni og vinátta er jafntraust klettaásunum, sem aldrei bifast en á hinn bóginn hefur runnið í hann einhver geirastaðakvisl með ókyrrleika og fjöri...“
Þarna er sonurinn, Svanur Halldórsson, lifandi kominn! Svanur talaði alla tíð af mikilli virðingu og væntumþykju um fjölskyldu sína og reyndist henni jafnan hinn trausti klettur.
Hann var rauður í pólitíkinni, fastur fyrir en jafnframt umburðarlyndur. Vildi „hugsa með heilanum“ en ekki bara „maganum“ eins og faðir hans hafði skrifað í merkilegri bók um kreppuna og hernámsárin. Ef við hugsum bara með maganum, segir hann þar – og þekkti hann vel kreppuna í raun í maga sínum og sinna – þá verður bylting eina úrræðið. Það þyrfti líka að reyna aðrar leiðir. En úrræði yrði að finna gegn fjármagnsöflunum, kapítalistarnir - margir ágætismenn sem gæfu snjótittlingum stundum grjón í harðindum - myndu aldrei ótilneyddir gefa neitt eftir af hagsmunum sínum; stæðu ævinlega saman - „þekkja lyktina hver af öðrum“. Að sama skapi þurfi verkafólk að standa saman í baráttu fyrir réttlátara þjóðfélagi.
Svanur Halldórsson kom vel undir sig fótunum í lífinu með vinnusemi og ráðdeild. En innsýn hans í erfiða lífsbaráttu hefur án efa orðið honum hvatning til að gerast baráttumaður fyrir félagslegu réttlæti. Þeim manni kynntist ég vel.
Þótt gaman sé að grafa sig inn í fortíðina og sjá nútímann í bland við fyrri tíð þá þurfti í rauninni ekkert að vita um hverjar voru vöggugjafir Svans Halldórssonar til að hrífast af honum.
Betri félaga var ekki hægt að hugsa sér; velviljaður og ráðagóður og raungóður þegar á þurfti að halda. Um það gæti ég haft mörg orð en læt að sinni nægja að segja að vináttu hans og hjálpsemi mun ég ætíð minnast með miklu þakklæti.
Konu hans, Jóhönnu, börnum þeirra og fjölskyldum færum við Valgerður kona mín okkar innilegustu samúðarkveðjur.

-------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.