Fara í efni

Svar félagsins Ísland Palestína: Nei, nú er komið nóg


19. maí gerði ísraelski herinn eldflaugaárás á friðsama mótmælagöngu í Rafah.
Hér má sjá mann á Al-Najjar sjúkrahúsinu, syrgja ættingja sem féllu í árasinni .


Nú hefur svar borist við fyrirspurn minni hér á síðunni nýlega, til félagsins Ísland Palestína, um hvort Íslendingar eigi að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael vegna þeirra alvarlegu mannrétindabrota, sem nú eru framin á ábyrgð ísraelskra yfirvalda. Svar félagsins hvet ég alla lesendur síðunnar til að kynna sér gaumgæfilega. Okkur ber siðferðileg skylda til að íhuga alvarlega hvernig við getum lagt okkar af mörkum í þágu mannréttinda. Svar félagsins er umhugsunarvert og vekjandi:

Nei, nú er komið nóg

Einn ötulasti baráttumaður réttlætis og friðar til handa palestínsku þjóðinni, Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og alþingismaður, hefur sent Félaginu Ísland-Palestína fyrispurn, sem okkur er ljúft og skylt að svara:

„Í ljósi þeirra hryllilegu frétta sem enn á ný berast frá herteknum svæðum Palestínu, og viðbragða umheimsins, sem þrátt fyrir nær einróma fordæmingu á framferði Ísraelsstjórnar virðist vanmátta í að stöðva stríðsglæpina: Hvað er nú til ráða annað en að mótmæla hástöfum? Hvað geta Íslendingar gert? Er rétt að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael? Hver er afstaða ísraelsra mannréttindahópa til þess?

Hvað segja Palestínumenn um þá kröfu, hvað vilja þeir að gert sé í þessum efnum?“

Svarið er að efla sjálfboðastarf og neyðaraðstoð til herteknu svæðanna, svo sem með milligöngu Félagsins Ísland-Palestína eins og  gert hefur verið. Nú hafa yfir 30 manns farið sem sjálfboðarliðar á vegum félagsins til Palestínu síðan vorið 2002 og næstum 5 milljónir ísl. króna hafa safnast í neyðarsöfnun félagsins. Féð hefur að mestu runnið til Læknishjálparnefndanna (UPMRC) sem dr. Mustafa Barghouthi veitir forustu. Hver sem vill leggja sitt af mörkum getur með fjárstuðningi eflt þetta starf. Félagasamtök, bæjarfélög og ríki geta á margvíslegan hátt veitt stuðning til neyðarhjálpar og uppbyggingarstarfs. Beiðni Félagsins Ísland-Palestína til Fjárlaganefndar Alþingis um framlag til að kosta rekstur einnar hreyfanlegrar heilsugæslustöðvar („Mobile Clinic“) á vegum UPMRC skilaði engu, enda þótt heilbrigðisráðherra hefði áður staðið fyrir hálfrar milljón kr. framlagi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þessu geta alþingismenn breytt með samstöðu.

En þetta stöðvar ekki illvirki Ísraelsstjórnar gegn varnarlausum íbúum herteknu svæðanna. Ef þar á að verða breyting á þurfa íslensk stjórnvöld – bæði í eigin nafni og í samvinnu við önnur ríki – að beita afli sínu til að knýja Ísraelsstjórn til að stöðva árásir, draga heri sína til baka frá öllum herteknu svæðunum og setjast að samningaborði. Það verður ekki gert með frekari yfirlýsingum, hversu skýrt sem þær fordæma framferði Ísraela. Það verður heldur ekki gert með því að höfða til betri vitundar, samvisku eða góðmennsku ísraelsku herforingjanna. Það verður að grípa til aðgerða sem Ísraelar finna fyrir. Þá er ekki verið að leggja til hernaðaraðgerðir af hálfu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, enda eru slíkum aðförum mikil takmörk sett. Það sem ber tafarlaust að gera er að láta Ísraela finna fyrir í pyngjunni. Segja ber upp viðskiptasamningum Íslands og EFTA við Ísrael og jafnframt skora á Evrópusambandið að gera slíkt hið sama. Sá viðskiptasamningur er háður því skilyrði að aðilar virði mannréttindi, en við því ákvæði hefur aldrei verið hreyft, þrátt fyrir að Ísraelar hafi ítrekað verið staðnir að grófum mannréttindabrotum og stríðsglæpum á herteknu svæðunum. Því má bæta við, að í viðtali sem Ríkisútvarpið átti við dr. Barghouthi laugardaginn 22. maí, kallaði hann einmitt á viðskiptaþvinganir af hálfu þjóða sem styðja vilja palestínsku þjóðina í hremmingum hennar og réttmætri baráttu fyrir þjóðarréttindum sínum. Lítill vafi er á að Mustafa Barghouthi mælir þar fyrir munn þjóðar sinnar.

Orð eru til alls fyrst og félagið fagnar þeim yfirlýsingum sem fordæma árásir Ísraelshers á óbreytta borgara, eyðileggingu heimila þeirra og aldingarða, lífsbjargar fólksins. En það er ekki nóg. Ljóst er að Ísraelsstjórn skellir skollaeyrum við hvers kyns mótmælum, hvort sem í hlut eiga mannréttindasamtök eða ríkisstjórnir; Amnesty International, Rauði krossinn eða utanríkisráðherra Íslands. Meira að segja ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hafa ekkert að segja þegar Ísrael er annars vegar, enda þótt öllum aðildarríkjum sé skylt að hlíta þeim. Ísraelsstjórn lætur sem hún sé hafin yfir alþjóðalög, enda eru þau þverbrotin á hverjum degi á hernámsvæði Ísraela í Palestínu.

Félagið Ísland-Palestína á sér m.a. það markmið að stuðla að jákvæðum viðhorfum til bæði ísraelsku og palestínsku þjóðanna. Félagið leggur áherslu á að efla tengsl og stuðning við ísraelsk friðar- og mannréttindasamtök. Ófyrirleitnir málsvarar stríðsglæpastefnu herforingjanna sem stjórna Ísrael leggja gagnrýni á hana að jöfnu við gyðingahatur. Með þessu á að kveða alla gagnrýni í kútinn, en orsök og afleiðingu er snúið á hvolf. Manndráp og eyðilegging Ísraelshers, aðskilnaðarstefna og þjóðernishreinsanir Sharons eru það sem kallar fram gyðingahatur. Ríki þar sem fólki er mismunað gróflega á grundvelli trúarbragða, og gyðingum hvaðanæva að úr heiminum tryggt ríkisfang og forréttindi í Ísrael á meðan innfæddum Palestínumönnum og palestínsku flóttafólki er meinað að snúa heim aftur, sú apartheid-stefna sem heimurinn horfir upp á í Ísrael og í hertekinni Palestínu – þetta er það sem stuðlar að gyðingahatri. Félagið Ísland-Palestína vill leggja sitt af mörkum gegn gyðingahatri rétt eins og þeirri aðskilnaðar- og kynþáttastefnu sem Ísraelsstjórn framfylgir. Það gerum við með því að styðja mannréttindahópa og friðaröfl í Ísrael sem vilja snúa stjórnvöldum sínum í átt til virðingar fyrir mannréttindum og réttlæti öllum til handa, og stuðla að varanlegum friði við nágranna Ísraels.

Á meðan öfl yfirgangs og ófriðar eru við völd í Ísrael, herforingjar sem fara sínu fram í skjóli hernaðarlegra yfirburða gagnvart öllum nágrönnum, í eina ríkinu á þessum slóðum sem ræður yfir kjarnavopnum auk háþróaðasta vopnabúnaðar sem Bandaríkin hafa upp á að bjóða, þá horfir ekki friðvænlega. Á meðan stjórnarherrar í Ísrael sýna enga viðleitni til að fara að alþjóðalögum, og virða ályktanir Öryggisráðsins að vettugi, þá þjónar það engum tilgangi að eiga í stjórnmálatengslum við landið. Það hefði á hinn bóginn heilmikinn tilgang að slíta slíku stjórnmálasambandi, því að þannig væri mjög alvarlegum skilaboðum komið áleiðis til Ísraelsstjórnar. Allt frá fyrstu tíð hefur ríkt sérstakt samband á milli Íslands og Ísraels vegna hlutverks þess fyrrnefnda í samþykkt Sameinuðu þjóðanna um skiptingu Palestínu 29. nóvember 1947, sem lagði grunninn að stofnun Ísraels hinn 15. maí 1948. Þótt Ísland teljist ekki til voldugra ríkja heimsins þá geta siðferðileg áhrif okkar  verið mikil í þessu sambandi. Eftir því yrði tekið í Ísrael og um allan heim ef eitt af elstu vinaríkjum Ísraels segði: Nei, nú er komið nóg.

Sveinn Rúnar Hauksson,
formaður Félagsins Ísland-Palestína