Svar prófessors
Í fyrradag fjallaði fréttastofa Sjónvarpsins (RÚV) um grein mína hér á síðunni, Pólitískir prófessorar, frá 17. apríl, og var ég fenginn til að skýra sjónarmið mín í viðtali. Í gær var síðan viðtal við Svan Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Svanur telur gagnrýni mína ekki vera á rökum reista. Ég sé að gagnrýna sendiboðann, fræðimanninn sem sé að lýsa veruleikanum. Ef ég sé ósáttur við þennan veruleika, sem Svanur telur sig kunna svo góð skil á, þá sé það minn vandi. Samkvæmt frétt Sjónvarpsins segist Ólafur Harðarson vilja ræða þessi mál að loknum kosningum – og þá vonandi á málefnalegum forsendum. Ekki mun standa á mér að gera það, hvort sem er fyrir eða eftir kosningar. Reyndar skrifaði ég blaðagrein að loknum síðustu Alþingiskosningum þar sem ég gagnrýndi Ólaf Harðarson, að því er mér fannst málefnalega án þess að vottaði fyrir viðbrögðum af hans hálfu. Nú vil ég taka það skýrt fram að því fer mjög fjarri að mér sé á nokkurn hátt í nöp við þá mætu menn sem kenna stjórnmálafræði við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Gagnrýni mín er því hvorki persónuleg né handahófskennd. Hún er fullkomlega málefnaleg og studd dæmum og rökum. Vísindamenn og fræðimenn eiga að sjálfsögðu að njóta sannmælis eins og aðrir en þeir verða að geta tekið gagnrýni. Ég gagnrýni þá mynd sem fyrrgreindir prófessorar draga upp af íslenskum stjónmálum, meintum tveggja flokka átökum og pólitískum áherslum og línum nú um stundir. Mér finnst hún ekki vera trúverðug, mér finnst hún beinlínis vera röng. Í grein minni frá 17. apríl vísa ég í frétt Fréttablaðisins þar sem prófessorarnir tjá sig allir þrír. Taka má fjölmörg fleiri dæmi ef menn hafa áhuga á að halda þessari umræðu áfram. Auðvitað er það staðreynd sem ekki verður horft framhjá að Svanur Kristjánsson, sem reynir að hefja sig yfir alla gagnrýni á grundvelli þess að honum sé gefin fræðileg sýn á veruleikann sem mér sé hulinn, er þegar allt kemur til alls einn af arkitektum Samfylkingarinnar og einn af helstu forgöngumönnum hennar. Við þetta er ekkert að athuga nema síður sé. Ég er aðeins að benda á að mér finnist yfirlýsingar fræðimannsins Svans Kristjánsonar litast af þessari afstöðu. Ólafur Harðarson á langa sögu útlegginga um stóru jafnaðarmannaflokkana og litlu flokkana sem standi til vinstri við þá – og má skilja að í hans huga hljóti framtíðin ævinlega að verða eins konar endurspeglun á skandinavískri fortíð. Gunnar Helgi Kristinsson, sem þó hefur verið hógværastur í þessum pólitísku útleggingum skilgreinir engu að síður þá kosningabaráttu sem nú er háð sem „tveggja flokka kosningabaráttu“. Ef þetta er vönduð stjórnmálafræði, nokkuð sem hafið sé yfir alla gagnrýni, veruleiki sem menn verði að sætta sig við, þá er ég hræddur um að einhver hafi misskilið sitt hlutverk.