Svikin vara – Verkefni fyrir Neytendasamtökin?
Um helgina hafa verið umræðuþættir í Sjónvarpinu (RÚV) þar sem frambjóðendur allra flokka sem bjóða fram á landsvísu hafa sest á rökstóla. Þeir hafa gert grein fyrir baráttumálum sínum og skipst á skoðunum um hvernig til hafi tekist við landsstjórina á liðnum árum. Tími er naumt skammtaður eðli málsins samkvæmt. Á milli kjördæmaþáttannna hafa verið auglýsingar. Þar hafa stjórnmálaflokkar, einkum Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, keypt tíma fyrir langar auglýsingar uppfullar af sjálfshóli. Þegar horft er á umræðuþættina annars vegar og auglýsingarnar hins vegar í einni samfellu rennur skýrar upp fyrir okkur en ella hverju peningar geta fengið áorkað – eða hvað? Hugsanlega væri minna við þetta að athuga ef auglýsingarnar ættu sér einhverja samsvörun í þeim veruleika sem þær eiga að lýsa. Því fer fjarri.
Í þessum auglýsingum blasir við allt annar veruleiki en við höfum lifað við undanfarin ár. Í auglýsingunum er enginn Öryrkjadómur, engar biðraðir eftir matargjöfum, enginn húsnæðisskortur, ekkert minnst á misrétti kvótakerfisins, ekki talað um auknar álögur á sjúklinga, lokanir á öldrunardeildum, þrengingar í geðheilbrigðisgeiranum, fjáraustur í rándýra Nató-fundi og ekkert minnst á mestu náttúruspjöll Íslandssögunnar við Kárahnjúka. Nei, þvert á móti þá hefur Framsóknarflokkurinn geð í sér til að láta umhverfisráðherrann lýsa því sérstaklega í auglýsingum sínum hve nauðsynlegt það sé að ganga vel um umhverfið, "bæði land og haf." Ekki hefur Framsóknarflokkurinn sýnt þetta viðhorf í verki!!! Auglýsingameistarar Sjálfsæðisflokksins eru ekki betri þótt mín tilfinning sé þó sú að enginn komist með tærnar í ósvífinni auglýsingamennsku þar sem Framsókn hefur hælana. Þeir sem hafa hannað auglýsingar Sjálfstæðisflokksins hafa greinilega haldið sig á meðal þeirra sem betri hafa efnin því að engin tilraun er gerð til að skyggnast inn í heim þeirra sem slæm hafa kjörin, hvað þá þeirra sem búa við sára fátækt. Ekki leikur nokkur vafi á að vaxandi fátækt á Íslandi má að verulegu leyti rekja til stjórnvaldsákvarðana. Mestu ábyrgðina á þessari þróun bera þær ríkisstjórnir sem hér hafa setið undanfarinn rúman áratug undir forsæti Sjálfstæðisflokksins.
Skyldi vera hægt að kaupa sig frá verkum sínum með auglýsingum? Skyldi sjálfshól og keypt aðdáun skila stjórnmálaflokkum auknu fylgi? Þeir sem fást við að selja varning vita að auglýsingar skila árangri. Stjórnmálaflokkar sem verja miklu fé í auglýsingar vonast til þess að þeir geti selt sjálfa sig kjósendum. En væri það ekki verðugt verkefni fyrir Neytendasamtökin að skoða þessar auglýsingar og spyrja hvort verið væri að pranga svikinni vöru inn á neytendur?