TAKK FYRIR KILJUNA
17.09.2008
Dagskrárgerð þarf ekki að vera kostnaðarsöm til að vera áhugaverð. Hvers vegna finnst mér Kilja Egils Helgasonar vera gott sjónvarpsefni? Sennilega er margt sem veldur: Viðfangsefnið skemmtilegt; bókmenntir og áhugavert fólk, stundum kynlegir kvistir, efnistökin í senn örugg og afslöppuð og útkoman því góð.
Að þessu sinni var staðnæmst við Málfríði Einarsdóttur, rithöfund. Fyrsta bók Málfríðar kom út árið 1977 en þá var hún komin hátt á áttræðisaldur. Það var Samastaður í tilverunni, en tilefni umfjöllunar Kiljunnar í kvöld um Málfríði Einarsdóttur var að þessi bók var að koma út í nýrri kiljuseríu Forlagsins. Málfríður bjó yfir óvenju frumlegri hugsun: „Ætíð hef ég átt samastað, að minnsta kosti hefur aldrei farið svo, að ég hafi þurft að vera hvergi ..."
Í þættinum fengum við að sjá og heyra viðtalsbút Steinunnar Sigurðardóttur, rithöfundar, við þessa öldnu vinkonu sína. Steinunni hef ég kynnst. Hún er ekki bara góður rithöfundur heldur líka með allra skemmtilegustu manneskjum. Ég er ekki frá því að skyldleiki hafi verið með húmor þeirra tveggja.
![](/static/files/greinar/myndir/2008/09/kilja-malfridar-b3eccd51.gif)
Þetta var skemmtileg stund.
Kannski er það besta við þátt eins og Kiljuna að við fáum tilefni til að staldra við. Það er dregið úr hraðanum. Við erum tekin niður á jörðina. Á dagskrá er ekki endilega það sem var að gerast fyrir tíu sekúndum heldur tíu árum eða tíu hundruð árum; ekki fólkið sem var í sjö fréttunum heldur hún Málfríður frá Munaðarnesi. Hún dó árið 1983.
Takk fyrir Kiljuna.