Fara í efni

TEKIÐ OFAN FYRIR VALDIMAR LEIFSSYNI


Það var við hæfi að á dagskrá Sjónvarpsins á jóladag var heimildarmynd um listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson. Veg og vanda að þessari mynd hafði Valdiimar Leifsson, leikstjóri og kvikmyndagerðarmaður en hann gerði jafnframt handritið ásamt Þorsteini heitnum Marelssyni sem Valdimar tileinkaði myndina. Þorsteinn lést sl. vor.
Einhvern tímann hefði maður snúið sér til Ríkisútvarpsins sjálfs til að þakka  fyrir dagskrá af þessu tagi. Að sjálfsögðu er full  ástæða til að þakka RÚV ohf fyrir að sýna þáttinn á þessum tíma, sjálfan jóladaginn. Takk fyrir það.  En nú voru það hins vegar Afmælissjóður Jónasar Hallgrímssonar, Icelandair og Baugur group, Ágúst Einarsson, einstaklingar og fyrirtæki sem höfðu látið fé af hendi rakna til að hlaupa undir bagga með Valdimar og félögum til að kosta dagskrárgerðina, ekki RÚV fyrr en kom að því að greiða fyrir sýningarréttinn. Þetta gerist eftir langa og stranga píslargöngu framleiðenda. Kostendum voru að sjálfsögðu færðar þakkir í lok þáttar. Enda eiga þeir þakkir skildar. Vissulega. Fram kom í frásögn Morgunblaðsins nýlega að þegar öllum myndatökum fyrir heimildarmyndina var lokið hafi dagskrárgerðarféð verið uppurið og væri ekki vegna  aðkomu Jóhannesar í Bónus, hefði stefnt í óefni.
Gott hjá Jóhannesi. En á þetta að vera svona? Nei.
Þegar talað er um íslenska dagskrárgerð þá er það nákvæmlega eðalefni á borð við þessa mynd Valdimars Leifssonar sem RÚV ohf á að vera að framleiða. Ekki bara öðru hverju  heldur í hverri viku, alla mánuði ársins! Þetta ber RÚV-inu skylda til að gera svo lengi sem okkur er gert að greiða afnotagjöldin. En ohf-ið sýndi þáttinn. Endurteknar þakkir. Að mínu mati á útsendingarefni RÚV ohf vissulega að vera blanda af eigin framleiðslu og aðkeyptu efni. Það sem ég gagnrýni er hve erfitt uppdráttar metnaðarfull framleiðsla virðist eiga. Þetta þurfa stjórnendur RÚV ohf og fjárveitingarvaldið að íhuga.
Það eru margar ástæður fyrir því að vert er að þakka fyrir þennan þátt. 1) Viðfangsefnið er heillandi og á erindi til þjóðarinnar, til okkar allra. 2) Efnistök voru lífleg, efnið fjölbreytt  og samspil á milli nútíðar og fortíðar. 3) Þátturinn var fagmannlega unninn. 4) Myndataka var frábær, bæði  á vettvangi í Danmörku en Ísland hafði þó sigurinn því náttúrulífsmyndirnar frá okkar ástkæra landi voru með því fegursta sem ég hef séð. 5) Myndin var fjörug og skemmtileg.
En eitt að lokum. Þetta er ekki síðasta myndin sem gerð er um Jónas Hallgrímsson. Þetta var ekki myndin sem setti hann inn í hið yfirvegaða sögulega samhengi. Þetta var ekki myndin sem valdi kvæðin og verkin sem best sýna snilld hans. Öllu ægði saman. Veikleikum Jónasar jafnt sem snilligáfu. Myndin hjálpaði okkur hins vegar að uppgötva nýjar víddir. Flestar geðfelldar. Ekki allar. 
En takk Valdimar. Ég tek ofan fyrir þér og þínu samstarfsliði.