TEKIÐ UNDIR MEÐ LANDVERND
Auðvitað má færa rök fyrir því að Alþingi hafi rétt á að breyta ákvörðunum fyrri þinga. Þetta mál snýst hins vegar ekki um það eitt. Málið er miklu stærra. Það snýst um það hvort stjórnarmeirihlutinn ætli að hafna aðferðafræði sem reynt hefur verið að þróa á undanförnum árum í því augnamiði að ná breiðri sátt um ákvarðanir sem á undaförnum árum hafa skapað illvígar deilur með þjóðinni.
Getur það virkilega verið að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn gefi ekkert fyrir sjónarmið Landverndar eða annarra náttúruverndarsamtaka? Ætlar ríkisstjórnin virkilega að stefna ákvörðunum um landnýtingu og náttúruvernd í gamalkunnan átakafarveg? Ég hélt að menn hefðu fengið nóg af slíku og vildu þróa fagleg og lýðræðisleg vinnubrögð við ákvarðanatöku.
Ég vona að stjórnarmeirihlutinn beri gæfu til að endurskoða vanhugsuð áform sín í samræmi við ábendingar Landverndar.