TELUR LANDSVIRKJUN LÝÐRÆÐIÐ VERA TIL TRAFALA?
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, mætti á morgunvakt RÚV í morgun. Ekki varð honum orða vant fremur en fyrri daginn en margt þótti mér orka tvímælis í málflutningi hans. Sérstaklega hjó ég eftir afstöðu hans til þjóðarviljans. Það er nefnilega svo að þjóðarvakning í í þágu náttúruverndar virðist vera í burðarliðnum. Vaxandi andstaða gegn virkjanaframkvæmdum og raski í Þjórsárverum er til marks um þetta.
Friðrik Sophusson gerði því skóna í útvarpsviðtalinu í morgun að þetta skýrði viðsnúning Samfylkingarinnar varðandi Norðlingaölduveitu. Í útvarpsviðtalinu sagði hann að ástæða þess að meirihlutinn í Reykjavík snérist nú gegn þessari framkvæmd sé ótvíræður vilji borgarbúa í þessum efnum. Orðrétt sagði forstjóri Landsvirkjunar: "...þessi niðurstaða borgarinnar og þá sérstaklega meirihlutans sýnir að það eru kosningar í nánd og að það eru að koma prófkjör..." Ef þetta er rétt, þá bið ég um tíðari kosningar. Eða er það ekki keppikefli að hlíta vilja þjóðarinnar? Getur verið að menn séu andvígir lýðræðinu? Auðvitað ber stjórnvöldum að hlusta á rödd þjóðarinnar.
Reyndar er sérkennilegt að fylgjast með tungutaki þeirra Landsvirkjunarmanna þessa dagana. Nú er allri umræðu um virkjanir og orkumál snúið upp í þröngt fyrirtækjatal. Það eru sagðir "óeðlilegir hagsmunaárekstarar" að sami aðili, þ.e. Reykjavíkurborg, eigi í Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur. Þegar borgaryfirvöld hvetja til þess að leitað verði umhverfisvænna virkjunarkosta, þá er þetta gert tortryggilegt á þeirri forsendu að Reykjavíkurfyrirtækið Orkuveitan hafi greiðari aðgang að slíkum kostum en Landsvirkjun.
En gæti nú verið, að þegar allt kemur til alls, séu stærri og meiri hagsmunir í húfi en þessi umræða gefur tilefni til að ætla? Það yrði stórt skref afturábak ef Landsvirkjun tækist að færa umræðu um nýtingu náttúruauðæfa niður á beran arðsemisgrundvöll sem takmarkaðist við bókhald fyrirtækisins. Framtíð íslenskrar náttúru er mikilu stærra mál en svo, að skammtíma arðsemishagsmunir Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur eigi einir að ráða för.