Fara í efni

ÞAÐ ER KOMIÐ SUMAR!


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 24/25.04.21.
Það er ekkert lítið sem við eigum honum Árna Björnssyni þjóðháttafræðingi að þakka. Þeir eru fleiri þjóðháttafræðingarnir sem hafa unnið gott starf og eiga lof skilið, en að öðrum ólöstuðum hefur Árni verið ötulastur að koma rannsóknum sínum á framfæri og þá einnig í búningi sem gerir efnið skiljanlegt og skemmtilegt. Saga daganna, Merkisdagar á mannsævinni og fleiri rit hans hafa afstýrt söguleysi á sögueyju.

Og að sjálfsögðu er sumardeginum fyrsta gerð rækileg skil í Sögu daganna. Sumardagsins fyrsta hafi verið getið í Jónsbók og Grágás, upplýsir Árni, en aldrei hafi það verið svo að menn tengdu daginn sól og sumaryl heldur tímatali þar sem mætast misserin tvö, sem gera eitt ár, vetur og sumar.

En við sem ekki vissum þetta tókum sumardaginn fyrsta á orðinu. Nú væri komið sumar. Ég minnist þess úr barnæsku að fólk klæddi sig upp á og okkur krökkunum voru gefnar sumargjafir. Á mínu heimili var sumargjöfin oftar en ekki bolti. Og þessu fylgdi óskhyggja, sem einhvern veginn var alltumlykjandi, að nú gengi sumarið í garð. Það lá við að þetta væri krafa, alla vega ásetningur um að leggjast á sveif með veðurguðunum; nú skyldi bjóða nöprum næðingnum byrginn, víst væri sumarið komið, það er jú sumardagurinn fyrsti!
Og á þessum fyrsta degi sumarsins voru stelpurnar í stuttum sokkum og skátarnir mættu á stuttbuxum að berjast gegn ísköldum strekkingnum sem tók hressilega í fánastöngina. Oftast var þetta svona.

Ekki man ég í hvaða bíómynd það var sem leikstjórinn vildi sýna íslenskan baráttuanda við óblíðar aðstæður. Þá sýndi hann einmitt þetta. Skátahóp á stuttbuxum á sumardaginn fyrsta. Og allt bíóið vissi nákvæmlega hvað klukkan sló.

Árni Björnsson segir þá staði til við Miðjarðarhafið sem fagni vorkomunni í febrúar. Það gengi náttúrlega aldrei hér hversu langt sem menn annars vildu ganga gegn náttúrulögmálunum. Samt er það nú svo að okkur hættir til þess í heimi alþjóðavæðingar að vilja að allt sem hægt er að gera þar verði hægt að gera hér.

Einhvern tímann var sýndur í íslensku sjónvarpi þáttur um færeyska listamanninn Trónd Patursson.  Í þættinum var hann spurður hvort Færeyingar gætu orðið sjálfstæðir, hvort þeir réðu við það jafn fámennir og þeir væru. Og vel að merkja þetta var fyrir nokkrum áratugum. „Já”, svaraði Tróndur að bragði, „sem Færeyingar”.
Mér þótti þetta stórkostlegt svar. Það var ekki lengra, en við skildum það öll sem á hlýddum að veldu Færeyingar sjálfstæðið þá tækju þeir því með öllu sem fylgdi, því jákvæða og hinu neikvæða, því auðvelda og hinu erfiða. Sjálfstæð færeysk þjóð byggi ekki á Manhattan eða í London heldur í Færeyjum. Hún byggi þar í blíðu og stríðu. Svo átti náttúrlega eftir að koma í ljós að Færeyjar buðu landsmönnum sínum upp á gott líf, ekki lakara en gerðist best annars staðar.

En þetta var góð hugsun hjá Tróndi. Við ættum að laga kröfur okkar og væntingar að því sem aðstæður bjóða upp á. Við fögnum sumrinu á Íslandi vel vitandi að við búum ekki við Miðjarðarhafið. En við eigum björtu vornóttina, birkið sem senn vaknar til lífsins, lóuna með vorsöng sínum þrátt fyrir napran vindinn. En við vitum að senn hlýnar hann líka, enda kominn sumardagurinn fyrsti.

Til hamingju með það.