Fara í efni

ÞAÐ GÆTI NÚ SAMT GERST BOGI NILS

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 05/06.10.2024.
Oftar en ekki hef ég reynst vera ósammála Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair um landsins gagn og nauðsynjar. Mér býður í grun, án þess þó að vita það með vissu, að jafnvel enn oftar hafi Bogi Nils Bogason verið mér ósammála um landsins gagn og nauðsynjar.

Nú bregður hins vegar svo við að ég er sammála hverju orði Icelandair forstjórans. Í viðtölum við fjölmiðla hefur hann sagt það hvorki raunhæft né skynsamlegt að forgangsraða innviðauppbyggingu með því að setja hundruð milljarða í nýjan flugvöll í Hvassahrauni eins og sívinnandi rannsóknarnefnd til margra ára segir fýsilegan kost í nýútgefinni skýrslu. Í viðtali við Morgunblaðið kemst Bogi Nils svo að orði: „Við vitum að það þarf að styrkja vegakerfið verulega, heilbrigðiskerfið, löggæsluna og margt fleira og ég held að við ættum að horfa á þá þætti áður en við förum að fjárfesta í nýjum flugvelli þar sem við erum með fjóra fyrir og þarf ekki að kosta svo miklu til að styrkja þá enn frekar.“

Eins og kunnugt er hefur rannsóknarnefndin um Hvassahraun unnið sleitulaust um árabil á vegum skattgreiðenda og leggur til enn frekari rannsóknir. Aðrir hafa bent á að rannsaka þurfi líka hvort hyggilegra væri að setja alla milljarðana sem færu í nýjan flugvöll í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar frekar í að bæta samgöngur við Keflavíkurflugvöll. Sennilega er þá átt við lestarkerfi þannig að þjóta megi með örskotshraða til og frá flugvellinum.

Ekki eru allir jafn hrifnir og segir Bergþór Ólason alþingisþingmaður að nú sé nóg komið og sérfræðingarnir verði að finna sér einhver önnur verkefni til að rukka fyrir. Þá segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur að hugmyndin um flugvöll í Hvassahrauni sé fráleit. Jafnvel þótt ekki kæmi upp gos beint undir flugbrautinni væri sú hætta raunveruleg að hraun úr eldgígum í nágrenninu eða sprungum sem opnuðust í gosi streymdu yfir þessar brautir eða eyðilegðu samgönguæðar enda ástæða fyrir því að Hvassahraunið beri sitt nafn.

Nú er í sjálfu sér ekkert nýtt í framangreindu nema það þá að sjálfsögðu að gos gerast tíðari á Reykjanesinu með tilheyrandi óvissu á tilteknum svæðum, en þó síst þar sem núverandi flugstöð er.

Spurningin er þá þessi sem væri verðugt verkefni fyrir skipulagsfræðinga, félagsfræðinga og kannski líka sálfræðinga að rannsaka: Hvernig í ósköpunum stendur á þessari þráhyggju í „flugvallarmálinu“?

Vitað er að fjármunir ríkissjóðs eru takmarkaðir og almennur vilji í landinu að forgangsraða í þága sjúkra og aldraðra, í þágu menntunar og menningar, rannsókna, forvarna, æskulýðsstarfs, löggæslu og margvíslegs annars. Nýr flugvöllur er þar ekki ofarlega á blaði. Og varðandi samgöngur við Leifsstöð leyfi ég mér að segja sem alltíður gestur þangað að aldrei hefur það raskað minni ró að þurfa að aka þann greiðfæra vegarspotta til alþjóðaflugvallarins frá Reykjavík þar sem ég á heima. Það eru helst þau sem búa utan þéttbýliskjarnans á suðvestur-horninu sem hefðu ástæðu til að kvarta. Álitleg framtíðaráætlun væri þá sennilega sú að fjölga tengiflugum við alþjóðaflugvöllinn frá flugvöllum á landsbyggðinni.

Eftir að gostíðnin fór vaxandi á Reykjanesinu hefði mátt ætla að það lægi í augum uppi að það veitti öryggi í höfuðborg umluktri eldfjallasvæðum að hafa innanlandsflugvöll innan sinna marka. Stjórnendum borgarinnar eða þeim sem sáldrað hafa út fjármunum til rannsókna í Hvassahrauni er þetta þó alls ekki augljóst mál.

En hvað veldur? Ekki er verið að bregðast við almennum vilja íbúanna því í seinni tíð hefur meirihluti landsmanna og borgarbúa einnig, óháð stjórnmálaskoðunum, verið fylgjandi flugvelli í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Fyrir löngu – áður en þétting byggðar kom til sögunnar – höfðu vissulega margir séð fyrir sér framlengingu frá Hljómskálagarðinum á fallegum skrúðgörðum með tjörnum og síkjum og hóflegri byggð þar sem nú eru flugbrautir.

Ég minnist þess að sjá sýningu fyrir nokkrum árum á verðlaunateikningum um framtíð svæðisins og hve hljóðir og daprir sýningargestir voru þegar þeir virtu fyrir sér líkönin af blokkunum sem reisa átti. Varla væri byggðin frýnilegri nú eftir að enn hefur verið hert á þéttingu byggðar.

Þar erum við náttúrlega komin að kjarna málsins. Þetta snýst ekki bara um þráhyggju heldur um hvað eigi að ráða í skipulagi borgarinnar, leitin að fegurð í mannvænlegri byggð eða hvernig megi fá sem mest fyrir landið. Þarna ráða byggingarverktakarnir. Þeir vilja sem mestan byggingarmassa á hverjum bletti því að þannig verði hagnaður þeirra mestur.

Þess vegna segi ég það Bogi Nils Bogason, að þrátt fyrir þín skynsamlegu orð kunni svo að fara að gerður verði flugvöllur í Hvassahrauni. Þegar peningarnir fá málið þá getur allt gerst. Það þekkjum við báðir og höfum stundum haft á því skoðun.

----------------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.