ÞAÐ SEM EKKI MÁTTI RÆÐA Í HAMBORG EN ÞYRFTI AÐ RÆÐA Í REYKJAVÍK
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 15/16.04.2023
Og ekki bara í Reykjavík heldur um víða veröld.
Það var í salarkynnum háskólans í Hamborg sem til stóð um síðustu helgi að ræða um stjórnmál og efnahagsmál undir yfirskriftinni “Við viljum endurheimta heiminn okkar”. En svo gerist það að boð berast frá stjórnendum háskólans um að ákveðið hafi verið að banna að ráðstefnan fari fram innan veggja skólans, þýska leyniþjónustan hafi sagt að umræðan væri þess eðlis að hún ýtti undir róttækni og öfgar í stjórnmálum.
Að undirbúningi ráðstefnunnar stóðu ýmsir aðilar, þar á meðal samtök námsmanna við Hamborgarháskóla, stuðningsmenn sjálfstjórnarhéraða Kúrda í Rojava í Norður-Sýrlandi og Zapatistahreyfingarinnar í Mexíkó, menntamenn úr röðum sósíalista víða að og fólk úr ýmsum áttum, hinn almenni maður - þú og ég. Já, mikið rétt, mér hafði verið boðið en hafði ekki tök á að þekkjast það boð.
Þarna var fyrst og fremst höfðað til þeirra sem telja kapítalismann vera á góðri leið með að eyðileggja samfélögin og rústa umhverfinu. Og nú skyldi rætt hvernig mætti losa um heljartak markaðshyggjunnar og helst komast undan henni.
Ekki nema von að þýsku leyniþjónustunni væri brugðið. Það sem er hins vegar til umhugsunar er að yfirstjórn háskólans skuli hafa hlýtt boði hennar enda minnast margir þýskra háskóla á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og þeirrar opnu, gagnrýnu og líflegu umræðu sem þar fór fram.
Svo fór þó að ráðstefnan var haldin, en utan veggja háskólans og henni streymt.
Og vissulega hafði leyniþjónustan rétt fyrir sér. Í umræðunni var spurt um orsakir og afleiðingar og síðan rætt hvað mætti gera svo róttækt að það hefði áhrif til breytinga.
Á meðal þeirra sem töluðu var skoski rithöfundurinn James Kelman. Hann sagði að menn yrðu að taka heimsauðvaldið alvarlega. Því til áréttingar las hann orðrétt upp úr stefnu World Economic Forum, sem fundar reglulega í Davos í Sviss, þar sem segir: Alþjóðavæddum heimi verður best stýrt af “sjálfvalinni” samstöðusveit fjölþjóðafyrirtækja, ríkisstjórna og almannasamtaka. Þetta tví-las rithöfundurinn og sagði að menn yrðu að skilja að þetta væri raunverulegur ásetningur og að hann væri að ganga eftir. Þarna væri að sjálfsögðu ekkert lýðræði á ferðinni, heldur fullkomið alræði auðvaldsins með hjálp auðsveipra þjóna.
John Holloway, prófessor við Pueblaháskólann í Mexíkó, sem margoft hefur varað við hvers kyns alræði, sagði að nú á tímum auðhyggjunnar væru menn feimnir við að nýta marxíska aðferðafræði við að rýna í þensluverk markaðsþjóðfélagsins. Sem betur fer hefðu flestir vanið sig af því að gera slíka aðferðafræði að kreddutrú – enda stórvarasamt eins og dæmin sönnuðu. Staðreyndin væri hins vegar sú að þessi aðferðafræði væri um margt gagnleg til að fá raunsanna innsýn í gangverk kapítalismans.
John Holloway lagði áherslu á það hvernig markaðsvæðing samfélagsins ykist nú um heiminn allan nánast dag frá degi. Sú var tíðin, sagði hann, að börn og ungt fólk færi í skóla, nýtti sér heilbrigðiskerfið, ýmsa aðra þætti velferðarþjónustunnar og samgöngukerfið án þess að samskiptin færu fram með peningum. Nú væri öllu stefnt inn á markaðstorgið, öll samskipti á grundvelli viðskipta. Fyrst færi allt í útvistun og síðan tæki við samruni fyrirtækja og einokun, en nú á forsendum fjármagnsins, ekki samfélagsins.
Og mér varð hugsað til Jökulsárlóns og Þingvalla þar sem nú er rukkað, heilsugæslunnar sem var algerlega gjaldfrjáls fyrir fáeinum áratugum, útvistun á öldrunarþjónustu, kvótasetningu hverrar fisktegundarinnar á fætur annarri að ógleymdri umhverfisvánni sem menn vilja nú leysa á forsendum viðskipta og gróðahyggju.
Athygli vakti að í rökstuðningi Seðlabanka Íslands fyrir ráðningu loftslagsfræðings nú nýlega var sagt eitthvað á þá leið að umhverfismál og fjármál fyrirtækja gerðust sífellt samofnari og þyrfti að rýna í hvort allt væri þar með felldu.
Tillaga mín er sú að Seðlabankinn íhugi með hvaða hætti hægt sé að uppræta falsanir ríkisins í sölu á kolefniskvótum. Þessi sölumennska gengur út á það að Ísland hagnist á því að selja mengandi iðnaði í Evrópu vottorð fyrir hreinni orku. Fyrir bragðið telst mengunin vera hrein og umhverfisvæn en Íslendingar sóðar. Þetta er hins vegar skjalafals sem er refsivert samkvæmt íslenskum lögum.
Ég veit ekki hvað þýsku leyniþjónustunni þykir um svona tal og í huga einhverra eru þetta viðhorf gærdagsins – engan veginn boðleg í stjórnmálum nútímans, óstjórntæk eins og stundum er sagt.
Morgundagurinn held ég þó að verði þessum sjónarmiðum hagstæðari. Það má bara ekki verða of langt í þann morgundag eins og skoski rithöfundurinn sagði á ráðstefnunni sem háskólinn í Hamborg bannfærði.