Fara í efni

"ÞAÐ SEM HELST HANN VARAST VANN...


...varð þó að koma yfir hann."
Svo mæltist Hallgrími Péturssyni, sálmaskáldinu mikla á 17. öldinni. Og enn á þetta við í dag eins og gerist um öll spakmæli sem rjúfa tímamúra.
Hver skyldi ekki muna eftir stóra stjórnmálaflokknum sem eftir nær tveggja áratuga valdasetu átti ekki orð yfir það fólk sem dirfðist að andæfa og mótmæla því hvernig flokksforkólfarnir fóru með völd sín. Einörðust í gagnrýninni á ráðslag Sjálfstæðisflokksins voru Vinstri græn. Gagnrýni þeirra var ætíð reynt að vísa á bug án umræðu, VG væri einfaldlega "á móti" og því ekki svaraverð. Fáir bera nú brigður á að innistæða var fyrir gagnrýni Vinstri grænna; að betur hefði verið hlustað á varnaðarorðin og farið að tillögum VG um úrbætur. Það var ekki gert og fór sem fór.

Nú er gamli valdaflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, flokkurinn sem stýrt hefur þjóðarskútunni upp á sker með hrikalegum afleiðingum, kominn í stjórnarandstöðu. Ekki ferst honum það hlutverk vel úr hendi. En á næstu árum mun það vonandi lærast. Það þarf nefnilega að vera innihlad í málflutningi stjórnarandstöðu. Slíkt er illgreinanlegt hjá Sjálfstæðisflokknum. Mér sýnist hans hlutskipti ætla að verða innihaldslaus stjórnarandstaða. Með öðrum orðum: Að vera bara á móti. Kannski væri ráð fyrir flokkinn að leggjast yfir Hallgrím. Það felst líka í því ábyrgð að vera í stjórnarandstöðu. Þá ábyrgð verður Sjálfstæðisflokkurinn að læra að axla.