ÞAÐ SEM ÞEIR VILDU FÁ VAR EKKI TIL SÖLU
01.04.2013
Fyrisögnin er úr dagblaði um 1970 á dögum deilunnar um Laxárvirkjun. Hún endurspeglar afstöðu fólks til virkjunarinnar enda þekkjum við nú hver framvindan varð, menn tóku sig til og stöðvuðu framkvæmdir með miklum hvelli - dýnamítsprengingu í stíflunni sem þá var í smíðum.
Það er ótrúlegt að menn skyldu hafa látið sér detta annað eins í hug og þessa stíflu með óhjákvæmilegum umhverfisspjöllum af hennar völdum í Laxá og í Mývatni. Á þessa leið mæltist einum viðmælenda Gríms Hákonarsonar í mynd hans Hvelli sem sýnd var í Sjónvarpinu í kvöld, „og ég fæ ekki betur séð en að enn sé þetta viðhorfið í dag" , bætti hann við.
Margt skemmtilegt kom fram í myndinni og hafi Grímur og félagar þökk fyrir. Þannig kallaði einn helsti foringi andófsins, Hermóður Guðmundsson í Árnesi, Ævar Kjartansson á sinn fund því hann hafði heyrt að hann hefði verið skiptinemi í Suður-Ameríku og vildi Hermóður fræðast um það hvernig suður-amerískir skæruliðar bæru sig að. Ævar kunni ýmsilegt frá því að segja, til dæmis hvernig menn höguðu málum við yfirheyrslur.
„Samstaðan var algjör á meðal fólksins," sagði einn viðmælandinn og áhorfendur fengu að sjá mörg dæmi þess svo sem þegar farið var á 200 bílum til að mótmæla til Akureyrar, um 600 manns! Og ættjarðarlög voru sungin á meðan menn voru að koma dínamítinu fyrir - og Ævar vildi syngja Nallann.
En ef það er nú svo að stríðsmennirnir gegn náttúrunni eru jafn óbilgjarnir og tilfinningasnauðir og áður var, þá stendur hin spurningin eftir, hvað með varnarlið náttúrunnar? Og ríkissjóðs?
Þingeyingar - alla vegar flestir sem heyrist frá af Laxárdeiluslóðum - fagna nú áformum á Bakka. Vel sloppið að fá ekki risaálver! - með gufuaflsvirkjunum og óhjákvæmilegum viðbótarvirkjunum í Skjálfandafljóti - og vonandi sleppur þetta allt með umhverfismatið!
Á einu fegursta svæði Íslands - ekki nóg með það, á einu fegursta svæði heimsins! - geta menn ekki á heilum sér tekið nema að fá orkufrekan iðnað - með línulögnum sem setja munu ófrýnilegan svip á héruð. Og þetta gerist nánast daginn eftir að við fáum að heyra að varnaðarorðin vegna Kárahnjúkavirkjunar á sínum tíma, reyndust öll á rökum reist; Lagarfljótið að verða lífvana forarpollur.
Það sem virkjunarmenn vildu fá 1970 var ekki til sölu. En hvernig er það nú, er allt til sölu?
Ekki trúi ég því að svo sé hjá öllum. Ég heyrði í manni í kvöld - ágætum Þingeyingi - sem sagðist standa í þakkarskuld við baráttufólkið frá 1970. Og ég heyrði þungann í orðum hans.