ÞAÐ SEM ÞÉR VILJIÐ AÐ AÐRIR GJÖRI YÐUR...
Það er gæfa fyrir Íslendinga að við skulum ekki vera í þann veginn að eignast hlut í einni helstu orkuveitu Filippseyja, sem ríkisstjórnin þar í landi er að selja frá sér í óþökk félagslega þenkjandi fólks á Filippseyjum. Í frétt á mbl.is segir: "
Hér er um að ræða jarðhitadeild rikisrekna orkufyrirtækisins á Filippseyjum og segja gagnrýnir þingmenn þarlendir að það standist ekki lög að selja þennan hluta orkuveitunnar því aðeins stjórnvöld hafi heimild til að rannsaka og þróa innlendar orkulindir (...because under Philippine law only the Government can explore and develop domestic sources of energy..." Reuter).
Í fréttaskýringum erlendra fjölmiðla kemur fram að orkugeirinn á Filippseyjum hafi hingað til verið varinn ásókn erlendra fjármálabraskara vegna óstöðugleika í landinu en nú væri svo komið að olíuverð væri orðið svo hátt að fjölþjóða orku- og fjármálasamsteypur væru viljugri að taka meiri áhættu en áður við fjárfestingu í orkugeiranum. Einnig kemur fram að fjárhagsvandi ríkissjóðs á Filippseyjum valdi því að stjórnvöld sjái sig knúin til að selja "mjólkurkúna" eða "ættarsilfrið" eins og vísað er til þessarar sölu í þjóðmálaumræðunni á Filippseyjum. Erlendu fjárfestarnir láta sér fátt um finnast tilfinningaþrungna andstöðu almennings á Filippseyjum gegn yfirtöku þeirra á orlulindum landsins. Sala Landsvirkjunar eða Orkuveitu Reykjavíkur til einkaaðila væri sambærileg. Ekki gæti ég samþykkt hana. Þess vegna fagnaði ég því í dag þegar fréttir bárust af því að Íslendingar væru komnir út úr þessu dæmi. Það gerði ég samkvæmt hinu fornkveðna, það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þér og þeim gjöra.