ÞAÐ SKIPTIR MÁLI AÐ ALLIR GETI VERIÐ MEÐ
27.03.2009
Birtist í Fréttablaðinu 26.03.09. í tilefni söfnunarátaks Hjartaheilla og Stöðvar 2
Kraftmikið starf áhugamannasamtaka, líknarfélaga og sjúklingasamtaka á Íslandi og stuðningur þeirra við tilteknar greinar lækninga og umönnun sjúkra hefur vakið athygli út fyrir landssteinana. Oddfellowar unnu þrekvirki með því að hjálpa til við að koma upp og reka líknardeild á Landspítala, Hringskonur hafa áratugum saman unnið að heill íslenskra barna, Velferðarsjóður barna vinnur á hverju ári mikið og gott starf, og hvers kyns klúbbar og samtök leggja sitt af mörkum til að gera góða heilbrigðisþjónustu betri.
Hjartaheill hafa sömuleiðis unnið ómetanlegt starf í þágu hjartasjúkra og þar með í þágu heilbrigðisþjónustunnar allrar. Samtökin hafa fært fjölmörgum stofnunum tæki og búnað sem gagnast í þjónustunni við hjartasjúklinga og hafa að þessu leyti lyft Grettistaki.
Hjartaheill og Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur, sem hún stofnaði til minningar um eiginmann sinn Pálma Jónsson í Hagkaupi, eru sennilega þeir tveir aðilar sem hafa lagt hvað mest fram til að styrkja og vinna að velferð hjartasjúklinga. Framlag beggja er ómetanlegt og stendur íslenskt samfélag og hjartasjúklingar í mikilli þakkarskuld við báða, sem hvorki mölur né ryð fá grandað. Á krepputímum er okkur hollt að hugsa um áhugann sem rekur samtök eins og Hjartaheill áfram og um þá einskæru góðvild sem fólst í því, þegar Jónína S. Gísladóttir stofnaði styrktarsjóðinn sem hér er nefndur.
Það er rúmur aldarfjórðungur frá því samtök hjartasjúklinga voru stofnuð, samtökin sem nú bera nafnið Hjartaheill. Auk beins framlags í formi búnaðar og tækja hefur það verið annað markmið samtakanna að beita sér fyrir fræðslu og forvörnum til að vinna gegn hjartasjúkdómum, að veita aðstoð og ráðgjöf og að berjast almennt fyrir umbótum í þágu hjartasjúkra. Stofnfélagarnir voru 230, en síðan hafa þeir rúmlega fimmtánfaldast.
Í tilefni 25 ára afmælis Hjartaheilla hafa samtökin nú ákveðið að blása til sóknar og safna fyrir þriðja hjartaþræðingatækinu fyrir Landspítalann og óska eftir stuðningi þjóðarinnar til að ná megi þessu markmiði á afmælisárinu. Efnt verður til landssöfnunar undir merkjum Hjartaheilla og stefnt að því að safna fjármunum svo koma megi upp tækinu og mun allt það fé sem safnast renna til hjartalækningadeildar Landspítala.
Það eru fáar þjóðir sem sinna hjartasjúkum eins vel og við. Við gerðu fleiri aðgerðir á hjartveikum en tíðkast meðal nágrannaþjóðanna, aðgengi að læknum er hér betra en annars staðar, biðlistar styttri og árangur hjartalækninga með því besta sem þekkist. Á þessum grundvelli eigum við að byggja upp og sækja fram. Söfnun Hjartaheilla fyrir nýju hjartaþræðingatæki er einn liður í uppbyggingunni.
Mér er það mæta vel ljóst að eins og stendur er víða þröngt í búi. Mjög margir glíma við erfiðleika nú, meðal annars vegna athæfis þeirra athafnamanna, sem flugu svo nærri sólu að allur þeirra auður gufaði upp, og eftir urðu aðeins afleiðingarnar fyrir okkur almenning til að kljást við. Þrátt fyrir þetta óréttlæti hvet ég alla Íslendinga til að láta sitt ekki eftir liggja og taka vel í beiðni Hjartaheilla.
Það geta allir látið eitthvað af hendi rakna, auðvitað í samræmi við efni og aðstæður, en í þessu sambandi skiptir upphæðin ekki máli. Nú skiptir máli að vera með.
Ögmundur Jónasson,
heilbrigðisráðherra