Fara í efni

ÞAKKIR TIL GUÐLAUGS ÞÓRS

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 27.03.15.
Um fleira vorum við Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins ósammála en sammála í nýafstaðinni umræðu um skýrslu utanríkisráðherra á Alþingi. Líka og þá ekki síst fyrirkomulag gerðardóma í milliríkjasamningum. En þótt við værum ósammála vil ég engu að síður þakka Guðlaugi Þór fyrir málefnalegt framlag hans til umræðu um gerðardóma ( Investor-State Dispute Settlement, ISDS) í alþjóðlegum viðskiptasamningum.  
Ég lít svo á að hér sé á ferðinni varasamt valdaafsal lýðræðisins í hendur fjölþjóðlegs auðvalds fyrir tilstilli hinna nýju fjölþjóðlegu viðskiptasamninga samtímans. Því miður fer lítil opinber umræða fram um þetta efni  og þykir mér þakkarvert þegar það er tekið upp af þeim sem hafa lagt sig eftir að kynna sér málavöxtu.

Frá afnámi verndartolla til markaðsvæðingar

Eins og ég skil þá þróun sem orðið hefur í gerð fjölþjóðlegra viðskiptasamninga þá taka þeir grunvallarbreytingum um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Fram undir það höfðu fjölþjóðlegir viðskiptasamningar einkennst af niðurfellingu eða lækkun tollamúra í vöruviðskipum en með tilkomu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, árið 1995, og svokölluðum GATS samningsramma (General Agreement on Trade in Sevices) sem þá varð til, gerist tvennt: Skuldbindingar sem ríkjum er gert að undirgangast taka í auknum mæli að  beinast að þjónustu, einnig velferðarþjónustu og síðan  fyrirheitum um jafnræði fyirtækja á markaði (sem þýðir að mismuna megi ekki innlendum og erlendum fyrirtækjum).
Þriðji þátturinn er síðan sá að þessar skuldbindingar er óafturkræfar,og er það sammerkt með flestum meiriháttar viðskiptasamningum í burðarliðnum um þessar mundir, GATS, TiSA, TTIT og fleiri.

Fyrirtæki beina kærum til gerðardóms

En hvað þá ef deilur koma upp á milli fjölþjóðlegs fyrirtækis og þjóðríkis? Slíkar deilur skal leysa fyrir gerðardómi. Hinn fátækari hluti heimsins hefur verið tregur að hleypa heims-auðvaldinu inn á gafl til sín og hefur þróunarríkjunum verið óljúft að afsala eigin dómsvaldi í hrendur gerðardóms með aðild viðkomandi fjölþjóðarisa. Þetta er fullkomlega skiljanleg afstaða þeirra sem standa höllum fæti gagnvart ágengu gróðafjármagni og á það jafnt við um fátæk ríki sem almening í hvarvetna í heiminum.
Athyglisvert er hvað segir um gerðsardómafyrirkomulagið í skýrslu utanríkisráðherra en tilefnið eru nýgerðir viðskiptasamningar milli ESB og Kanada sem utanríkisráðuneytið segir hinn „metnaaðrfyllsta" sinnar tegundar þótt viðbrögðin hafi verið blendin: „Þannig hefur komið fram hörð gagnrýni á... ákvæði samningsins er veita fyrirtækjum frá samningsaðila möguleika til að höfða mál fyrir gerðardómi gegn ríki gagnaðila, telji þau aðgerðir stjórnvalda viðkomandi ríkis hafa brotið á rétti sínum til fjárfestinga. Umrætt ákvæði er að finna í flestum tvíhliða fjárfestingasamningum milli ríkja, en þeir eru flestir á milli iðnríkja annars vegar og þróunarríkja hins vegar. Að margra mati er hins vegar óþarfi að hafa slík ákvæði í samningi ESB og Kanada, þar sem aðilar eigi að geta treyst dómstólum í viðkomandi ríkjum til að leysa deilur sem upp kunna að koma."

Dæmin tala sínu máli

Með öðrum orðum, þá er svo að skilja að svo langt á veg séum við komin í okkar heimshluta að undirgangast markaðsvæðingu samfélagsins að okkar dómstólum sé betur treystandi en dómstólum hinna þurfandi ríkja.
Til að skilja þetta í þaula væri gagnlegt að fara í gegnum samskiptasögu auðhringa og hins fátæka heims. Má nefna tiltölulega nýlegt dæmi af samskiptum Bechtel samsteypunnar sem fór í mál við Bólivíu eftir að íbúar einnar stærstu borgar landsins, Cochabamba, gerðu uppreisn gegn okri og yfirgangi aauðhringsins sem hafði fengið einkarétt á vatni í óuppsegjanlegum viðskiptasamningi.   Eflaust hefði þeim hjá Bchtel þótt huggulegt ef hægt hefði verið að leysa málið fyrir skilningsríkum gerðardómi í kyrrþey. En viljum við þannig heim? Ekki ég.