ÞAKKIR TIL ÞORLEIFS
Ég minnist þess þegar Kárahnjúkahrollvekjan var í burðarliðnum en áhöld um það hver kæmi til með að reisa álverksmðiju til kaupa á orkunni. Á tímabili var um það rætt að lífeyrissjóðirnir kæmu þar að fjármögnun. Var efnt til skyndifundar um málið til að leggja á ráðin. Ráðabruggsmeistararnir voru svo óheppnir að ég gegndi formennsku í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins um þessar mundir og því ekki hægt að ganga framhjá mér.
Ég andmælti hvers kyns leynimakki og sagði að sjóðsfélagar ættu rétt á að fá allar upplýsingar upp á borðið enda hefði ráðagerðin félagslega þýðingu. Sagði ég því opinberlega frá því hvað til stóð. Þetta mæltist vægast sagt illa fyrir hjá bruggmeisturunum og minnist ég þess að haft væri á orði að virða þyrfti leynd þegar viðskipti væru annars vegar.
Þeirrar tilhneigingar hefur gætt í vaxandi mæli að skilgreina félagsleg álitamál sem viðskipti og takmarka þannig lýðræðislega aðkomu að málum sem eru í sjálfu sér af stjórnmálalegum/lýðræðislegum toga - og eiga að vera það.
Ég nefni þetta sérstakelga eftir lestur á greinargóðum pistli Þorleifs Gunnlaugssonar þar sem hann upplýsir okkur um tilburði stjórnarmeirihlutans í Reykjavík til að sveipa leyndarhjúpi mál sem á að vera í opinni umræðu. Og hvert skyldi málefnið vera? Það tengist sölu á skuldabréfi Magma Energy með veði í HS Orku! Gamall kunningi sem á sínum tíma var reynt að hafa sem fæst orð um, jafnvel þagga niður og koma út úr kastljósi fjölmiðlaumræðu.
Ég hvet fólk til að lesa pistil Þorleifs Gunnlaugssonar: http://blog.pressan.is/thorleifur/2013/07/10/magma-leyndarmalid/