"Þar er þörf á stærstu hugarfarsbreytingunni"
Í nýútkominni Veru er fjallað um kynbundinn launamun, Kristjana Stella Blöndal, aðstoðarforstöðumaður Félagsvísindastofnunar og Þorgerður Einarsdóttir, lektor í kynjafræðum við Félagsvísindadeild HÍ skrifa mjög athyglisverða grein um launamun kynjanna; leitað er álits hjá formönnum heildarsamtaka launafólks um hvað sé til ráða til að draga úr kynbundnum launamun og sagt er frá rannsóknaritgerðum um efnið. Í leiðara Veru gagnrýnir Elísabet Þorgeirsdóttir ritstýra blaðsins launaleynd á vinnustöðum því "í skjóli hennar viðgangast ýmsar aukagreiðslur og yfirborganir sem er miklu algengara að samið sé um við karla heldur en konur." Elísabet kallar eftir hugarfarsbreytingu. "Grundvallaratriðið er að meta störf kvenna til jafns við störf karla. Þar er þörf á stærstu hugarfarsbreytingunni og þar er ekki eftir neinu að bíða."
Skýr og skemmtileg framsetning
Grein þeirra Kristjönu Stellu og Þorgerðar er mjög athyglisverð því farið er í saumana á forsendum rannsóknarstarfs á þessu sviði og okkur gerð grein fyrir mismunandi sjónarhornum á viðfangsefnið. Í umræðum um þetta viðfangsefni hefur mér oft þótt skautað yfir þennan hugmyndafræðilega þátt; staðhæfingum hefur verið slegið fram og síðan tekið til við að grafa sig niður í skotgrafir. Titill greinar þeirra Kristjönu Stellu og Þorgerðar gefur strax tóninn, Kynbundinn launamunur og launamunur kynjanna. Í greininni er dregin upp mjög skýr mynd af viðfangsefninu. Þar segir m.a. "Launamunur kynjanna er staðreynd. Konur hafa að jafnaði lægri laun en karlar. En hve miklu munar? Er munurinn 7% eða 70%? Það fer eftir því hvaða mælikvarði er notaður, hver viðmiðunarpunkturinn er og á hvaða hugmyndafræði er byggt. Samkvæmt skattframtali ársins 2002 höfðu konurnar að jafnaði 59% af heildartekjum karla, sem er það sama og segja að meðalheildartekjur karla hafi verið 70% hærri en kvenna. Þetta er munurinn á þeirri krónutölu sem konur og karlar bera úr býtum fyrir launaða atvinnu sína."
Og áfram segir í greininni: "Annar mælikvarði á launamun kynjanna er svokallaður leiðréttur launamunur. Hugmyndin á bak við hann er sú að ekki sé raunhæft eða sanngjarnt að bera saman laun karla og kvenna beint og fyrirvaralaust, heldur þurfi að taka inn í myndina ýmsa þætti sem skýri þennan mun. Til dæmis að karlar vinni lengri vinnudag en konur og séu í ábyrgðarmeiri stöðum. Niðurstöður launakannana undanfarin ár benda til þess að þessi svokallaði "leiðrétti" launamunur kynjanna sé á bilinu 7,5-30%. Hvaða tala er rétt? Hvers vegna er svo mikið misræmi? Ein helsta ástæðan er sú að í þessum könnunum er afar mismunandi hvaða þættir, eða skýribreytur, eru notaðar til að skýra launamuninn. Almennt gildir að því fleiri skýribreytur sem notaðar eru, því lægri mælist launamunurinn"
Þegar leiðréttingin hættir að leiðrétta
Síðar í greininni segir: "Fræðimenn eru almennt sammála um að til að fá út leiðréttan launamun þurfi að bera saman sambærilega hópa karla og kvenna og að taka þurfi tillit til mikilvægra og málefnalegra skýribreyta, en það eru þeir þættir sem eru líklegir til að hafa áhrif á afköst og framleiðni starfsmanna. Þessir þættir eru m.a. menntun, aldur eða starfsaldur, í hvaða störfum fólk er og hvað það vinnur langan vinnudag. Þessi "leiðrétting" og leitin að skýribreytum hefur hins vegar gengið allt of langt...Því er stundum haldið fram að munur á heildartekjum karla og kvenna...sé alls ekki gildur mælikvarði á kynbundinn launamun. Hluta af þeim mun má skýra með því að konur vinna færri stundir í launavinnu en karlar. Það er vegna þess að þær axla stærri byrði en karlar af ólaunaðri vinnu samfélagsins. Sannarlega mikilvægt og göfugt – en vegur harkalega að fjárhagslegu og félagslegu sjálfstæði þeirra. Þann mun sem birtist í heildartekjum karla og kvenna ber því að taka alvarlega, ekki síður en "leiðréttan" launamun."
Höfundar leggja áherslu á að "launamun kynjanna eigi að meta með fleiri en einum mælikvarða sem gefi ólíkar upplýsingar. Munurinn á heildartekjum karla og kvenna er munurinn á upphæðinni sem fólk hefur til að lifa og þar með þeim möguleikum sem fólk hefur til fjárhagslegs sjálfstæðis. Leiðréttur launamunur þar sem málefnalegar skýribreytur eru notaðar sýnir þann mun sem er á launum fólks sem er í sambærilegu starfi með samsvarandi vinnuframlag og er því í raun spurning um lögbrot! Báðir mælikvarðar gefa mikilvægar upplýsingar um stöðu mála og þarf að skoða í samhengi hvor við annan."
Hvatt til atlögu!
Þær Kristjana Stella Blöndal og Þorgerður Einarsdóttir hvetja til að ráðist verði til atlögu gegn kynbundnum launamun og eru nokkrir formenn samtaka launafólks spurðir tveggja spurninga sem þessu tengjast. Spurningarnar eru þessar: 1) Hvað eru samtökin að gera til að vinna gegn kynbundnum launamun? 2) Hvernig er jafnréttisstefna sambandsins og hvernig er hægt að nýta hana til að minnka launamun kynjanna?
Hægt að kæra óútskýrðan launamun
Halldóra Friðjónsdóttir, formaður BHM, segir allar kannanir benda til verulegs launamunar sem eingöngu megi skýra með kynferði. Ótti manna við dreifstýrt launakerfi hafi ekki reynst á rökum reistur. Launamunur hafi ekki aukist við þetta hjá Reykjavíkurborg en ríkið hafi hins vegar ekki staðið sig eins vel. Ef konur telji á sér brotið geti þær fengið upplýsingar um laun karla í sambærilegum störfum og kært ef um launamun er að ræða án haldbærra skýringa.
Mikið verk að vinna
Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, segir að vinna þurfi gegn kynbundnum launamun "með kerfisbundnum hætti á fjölmörgum sviðum samtímis til að viðunandi árangur náist." Hann nefnir hækkun lægstu launa enda "konur hlutfallslega fleiri en karlar meðal þeirra sem hafa lægstu launin." Þá skipti máli að efla símenntun og jafn réttur foreldra til fæðingar og foreldraorlofs "leggi grunninn að einum mikilvægasta áfanga sem náðst hefur í jafnréttisbaráttunni og gegn kynbundnum launamun."
Afnema launaleynd og allt pukur með laun
Friðbert Traustason, formaður Sambands íslenskra bankamanna vísar í könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir sambandið þar sem fram hafi komið að "laun kvenna voru 14,6% af launum karla í sambærilegum störfum.." Friðbert segir að úr launamun kynjanna hafi dregið "nokkuð,en ekki nóg" þegar lægstu laun voru hækkuð um 10% umfram önnur laun. Friðbert nefnir menntun sem mikilvægt tæki til að draga úr launamun. Þá leggur hann mjög ríka áherslu á að launakerfið sé opið og gagnsætt og "launaleynd og allt pukur með laun hverfi sem allra fyrst."
Efla upplýsingaöflun og kjararannsóknir
Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands rekur athuganir sem gerðar hafa verið á því hver munur er á launum kynjanna í kennarastéttinni. Launamunur sé þar fyrir hendi þótt hann sé minni en hjá mörgum öðrum stéttum. Eiríkur segir m.a.: " Það má því segja að kynbundinn launamunur hvað varðar grunnlaun sé vart fyrir hendi innan kennarastéttarinnar en öðru máli gegnir hugsanlega hvað varðar heildarlaun. Það sem er brýnast að gera varðandi þessi mál, að mati undirritaðs , er að efla upplýsingaöflun og kjararannsóknir þannig að hægt verði að greina með óyggjandi hætti hvað af launamun kynjanna er einungis hægt að skýra sem kynbundinn launamun. Þetta er forsenda þess að hægt sé að eyða þessum mun sem er mikilvægt þrátt fyrir að munurinn sé e.t.v. minni en gerist meðal margra annarra stétta."
Gegn einstaklingsbundnum launaákvörðunum og launaleynd
Spurningar Veru og svör þess sem þetta ritar, en hann er formaður BSRB, voru eftirfarandi: "Hvað er bandalagið að gera til að vinna gegn kynbundnum launamun? Allar götur frá 1987 hafa kjarasamningar verið á hendi sérhvers aðildarfélags bandalagsins en ekki heildarsamtakanna. Hins vegar hafa félögin iðulega haft samstarf sín á milli og hefur það samstarf stundum tekið til fáeinna félaga, í öðrum tilvikum fjölmargra. Einnig hefur það gerst að bandalagið í heild sinni hefur samið á einu borði. Það gerðist svo dæmi sé tekið á kjarasamningum 1989 og aftur 1990 og endurnýjun síðari samninganna var sameiginleg á vegum BSRB. Hin almenna regla er engu að síður sú að félögin en ekki BSRB semja um kaup og kjör.
Þrátt fyrir þetta kemur BSRB að kjaramálunum hvað jafnréttismálin áhrærir. Í fyrsta lagi hvað kjararéttindi snertir. Þau eru í sívaxandi mæli á vegum bandalagsins og má þar nefna fæðingarorlofið en sem kunnugt er tókst að verja þann rétt sem konur í opinberri þjónustu höfðu áunnið sér þegar fæðingarorlofslögin voru samþykkt.
Í öðru lagi þá er það svo að þótt samningsrétturinn sé hjá félögunum er hitt staðreynd að þegar umgjörð kjarasamninga hefur komið til umræðu hafa heildarsamtökin látið að sér kveða. Þegar lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var breytt árið 1996 var ákvæði þess efnis að forstöðumenn stofnana skyldu fá mjög opna heimild til launaákvarðana. Þessu lagðist BSRB mjög eindregið gegn. Ekki var nóg með að við værum andvíg hvers kyns geðþóttavaldi stjórnenda heldur vorum við einnig mjög meðvituð um að einstaklingsbundnir samningar hafa leitt til aukins kjaramisréttis, iðulega á kostnað kvenna. Þetta virðist hins vegar stríða gegn niðurstöðum úr nýlegri könnunum VR en þar á bæ er því haldið fram að með einstaklingsbundnum launaviðtölum hafi dregið úr launamisrétti kynjanna. Erfitt er að véfengja þetta. Hins vegar þykir mér sá boxhanskamórall sem verið er að innleiða ekki geðfelldur. Launajöfnuður á að byggjast á jafnrétti ekki því hve klókt fólk er eða ýtið að pota sér áfram. Þess vegna þarf að reyna að múra jafnréttið inn í kerfið þannig að þetta gangi eðlilega og átakalaust fyrir sig.
Um hið nýja dreifstýrða launakerfi hjá hinu opinbera hafa alla tíð verið skiptar skoðanir innan okkar raða. Sumir sáu í stofnanasamningunum mikil sóknarfæri. Sjálfur hef ég haft efasemdir, tel að þar felist hættur sem fram komi í samdrætti en síður við þenslu á borð við þá sem við höfum búið við undanfarin ár. Þá er vandinn sá, að ekki er saman að jafna “vel stæðum” vinnustöðum á borð við veitustofnanir og svo hinum “blönku” skólum og sjúkrahúsum. Hinar fyrrnefndu eru karlavinnustaðir, hinir síðari kvennavinnustaðir. Afleiðingarnar liggja í augum uppi.
Hins vegar eru dreifstýrð launakerfi orðin ofan á og þá þarf að gera hið besta úr þeim. Og það hefur BSRB reynt að gera. Í fyrsta lagi höfum við reynt að þoka öllum samningum úr einstaklingsbundnu fari yfir í félagslegt . Í öðru lagi höfum við haldið á loft ábendingum um þær hættur sem felast í stofnanasamningum, t.d. því sem fram kom í könnun Jafnnréttisráðs frá miðjum tíunda áratugnum. Þar var bent á að launamismunur kynjanna stafi af ákvörðunum sem teknar eru úti í stofnunum. Þessu megi hins vegar mæta með kynhlutlausu starfsmatskerfi sem væri til þess sniðið að tryggja að umönnunar- og uppeldisþættir vægu jafnt á við ábyrgð sem tengist fjármunum.
Ég held að smám saman séum við að verða meðvitaðri um þessa þætti en áður var. Það er síðan á ábyrgð okkar allra að sjá til þess að sú meðvitund skili sér í framkvæmd. Ég lít á það sem skyldu BSRB að standa jafnréttisvaktina.
Síðan er náttúrlega eitt sem mikilvægt er að nefna og það er launaleyndin. Í hennar skjóli grasserar misréttið eins og gröftur í kýli. Þrátt fyrir allt tal um gagnsæi af hálfu stjórnvalda þá hafa þau látið kjaraleyndina viðgangast. BSRB hefur beitt sér fyrir opnu kerfi en hefur óneitanlega átt á brattann að sækja og það gagnvart öllum viðsemjendum sínum. Það er því miður staðreynd.
2. Hvernig er jafnréttisstefna bandalagsins og hvernig er hægt að nýta hana til að minnka launamun kynjanna? Í jafnréttisstefnu BSRB segir meðal annars um launamisrétti kynjanna:,,Til að draga úr þessum launamun vill BSRB stuðla að starfsmati sem sérstaklega taki tillit til hefðbundinna kvennastarfa og meti þau á við hefðbundin karlastörf.” Eins og ég áður sagði þá er þetta aðferð sem jafnréttissinnar telja mikilvægt að verði beitt við launaákvarðanir. Þá segir í jafnréttisstefnunni: ,,Einnig vill BSRB stuðla að samstöðu í baráttunni fyrir hækkun lægstu launa”. Þetta er að mínu mati lykilatriði. Sýnt hefur verið að hækkun lægstu launa gagnast konum sérstaklega einfaldlega vegna þess að þær eru fjölmennari í þeim hópi sem er á lægstu laununum. Um launaleyndina segir að BSRB vilji að ,,launabókhald stofnana og fyrirtækja verði opnað þannig að allur kostnaður við laun starfsmanna sé opinber. Þetta er mjög nauðsynlegt í nýju launakerfi þar sem hver stofnun gerir samning við sína starfsmenn og tilhneiging yfirmanna er að gera launin að trúnaðarmáli. Þess vegna leggur BSRB höfuðáherslu á að um öll laun sé samið á félagslegum grunni.”
Þótt ekki sé öllum augljóst að barátta gegn einstaklingsbundnum launaákvörðunum og launaleynd sé jafnréttisbaraátta þá telur BSRB svo vera. Ég lít svo á að þetta sé eitt það mikilvægasta sem bandalagið hefur beitt sér fyrir og muni vonandi gera í framtíðinni til að koma á launnajafnrétti."
Dreifstýring eykur kynbundinn launamun
Sem áður segir er fjallað í þessu hefti Veru um rannsóknir sem tengjast viðfangsefninu. Í ritgerð Gunnhildar Kristjánsdóttur, Launakerfi og kynbundinn launamunur koma fram mjög athyglisverðar upplýsingar. Gunnhildur segir að flest bendi til þess að launamunur kynjanna hafi aukist með nýja launakerfinu sem tekið var upp 1997 en það byggði á dreifstýringu. Þegar kerfinu var komið á voru gefin fyrirheit um að gerð yrði tölfræðileg úttekt á áhrifum nýja launakerfisins á launamun karla og kvenna. Ríkið hafi ekki staðið við þessi fyrirheit en það hafi Reykjavíkurborg hins vegar gert. Í könnun Reykjavíkurborgar koma fram vísbendingar "um að yfirborganir og aukagreiðslur séu algengar í nýja launakerfinu. Mikill kynbundinn munur er á þessum aukagreiðslum og hefur sá munur aukist á milli áranna 1995 og 2001 eða á þeim tíma sem nýja launakerfið hefur verið við lýði."
Meðvitaðir ráðamenn skipta sköpum
Sigurbjörg Ásgeirsdóttir segir frá rannsókn sinni sem ber heitið Kynbundinn launamunur á Íslandi. Hún segir að verulegur árangur hafi náðst bæði hjá Reykjavíkurborg og VR við að draga úr launamun kynjanna. Sigurbjörg segir að aðgerðir gegn kybundnum launamun þurfi að vera "í algerum forgrunni hjá æðstu ráðamönnum, hækka þarf sérstaklega laun kvenna umfram laun karla, koma á kynhlutlausu starfsmati, hvetja konur til að semja um hærri laun og verðleggja sig á sama mælikvarða og karlar. Jafnframt þessu verði unnið í að fjölga konum í ábyrgðarstöðum og þar með breyta kynskiptingunni á vinnumarkaðnum. Þannig er beitt sértækum aðgerðum til að jafna hlut kynjanna í störfum." Sigurbjörg nefnir kannanir sem sýni að dregið hafi úr kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg: "Þessi munur er kominn í 7% í launakönnun í október 2001 og sú könnun sýnir að ekki er munur á dagvinnulaunum kynjanna en launamunurinn kemur fram í aukagreiðslum sem karlar fá í miklu ríkari mæli en konur og ákvarðaðar eru í stofnunum frekar en í heildarkjarasamningum." Sigurbjörg hvetur til þess að atvinnurekendur fari "að dæmi Reykjavíkurborgar" og hækki sérstaklega laun kvenna. VR hafi hins vegar farið þá leið að reyna að hafa áhrif á almenningsálitið. Með þessum hætti sé verið "að virkja hið borgaralega samfélag. Það velur sér stjórnvöld og dæmin sanna að valdhafar geta stuðlað að breytingum ef vilji er fyrir hendi. Meðvitaðir ráðamenn skipta sköpum. Það er lykilatriði."
Þakkarvert framtak Veru
Úttekt Veru á stöðu þessara mála er þörf hvatning til okkar allra um að leggjast á árarnar til að ráða bót á launamisréttinu.