ÞAR FÚNUÐU EKKI FJÁRMUNIR FÁTÆKRA
03.02.2008
Í gær var borinn til grafar frá Reykholti í Borgarfirði, Andrés Jónsson, bóndi í Deildartungu í Reykholtsdal. Séra Geir Waage jarðsetti og fórst honum athöfnin vel úr hendi. Andrés þekkti ég ekki nema af afspurn en frásagnir af honum og minningargreinar sem birtust um hann eru allar á einn veg, um stórgreindan og ágætan mann. Ég tengist Andrési á þann hátt að kona mín og hann voru systkinabörn. Sigubjörg Björnsdóttir, móðir hans og Andrés Björnsson heitinn, tengdafaðir minn voru systkini, samfeðra.
Sigurbjörg Björnsdóttir var stórmerk kona , greind og góðviljuð. Til föðurfólks Andrésar í Deildartungu þekkti ég minna. Hafði heyrt margt gott um það fólk sagt en við heimkomuna úr Borgarfirðinum að jarðarförinni lokinni, lagðist ég í upprifjun og tók í því skyni fram rit Kristleifs Þorsteinssonar, Úr byggðum Borgarfjarðar, sem hefur að geyma einhverja mögnuðustu lýsingu á héraði og mannfólki sem um getur.
Kristleifur Þorsteinsson er berorður mjög í mannlýsingum sínum. Um Deildartungufólkið, föðurfólk Andrésar Jónssonar, er hann afdráttarlaus og fjallar um fjölskylduna af mikilli virðingu. Eitt varð mér til umhugsunar og þess valdandi að ég setti þessar línur niður. Það var sú áhersla sem Kristleifur leggur á það hvernig Deildartungufólkið efnaðist. Hann rekur hvernig Vigdís Jónsdóttir og Hannes Magnússon, sem bjuggu í Deildatungu undir lok 19. aldarinnar, amma og afi Andrésar, sem nú var til grafar borinn, reyndust vel þeim sem áttu í erfiðleikum. Deildartungufólkið segir hann, hafi komist í álnir með vinnusemi, „með heiðarlegu starfi" en þess hafi jafnan verið gætt að forðast „kaupsýsl og brask." Deildartungumenn hafi notið „ maklegs lofs fyrir það hve vandir þeir voru að virðingu sinni í því að hið fengna fé væri vel til komið. Í sjóðum þeirra fúnuðu ekki fjármunir fátækra."
Vel sagt. Umhugsunarvert fyrir okkar samtíð.