ÞARF AÐ EFLA KOSTNAÐARVITUND FÁTÆKRA BARNA?
Nokkrar umræður hafa spunnist í kjölfar þess að Svandís Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem jafnframt skipar efsta sætið á lista VG í Reykjavík, vakti máls á því í Morgunblaðsgrein að efnahagur foreldra kynni að valda því að stór hópur barna fengi ekki heitar máltíðir í skólum í Reykjavík. Morgunblaðið sló málinu upp á forsíðu í kjölfarið og í leiðara í dag undir fyrirsögninni Matur og stéttaskipting. Þar segir m.a.(með mínum feitletrunum): "
Í Morgunblaðinu í gær komu fram athyglisverðar upplýsingar um fjölda þeirra nemenda, sem nýtir sér möguleika á að borða heitan mat í skóla. Talið er að um þriðjungur nemenda að meðaltali í grunnskólum Reykjavíkur borði ekki þann mat, sem boðið er upp á í skólanum. Þetta er svolítið mismunandi eftir skólum. Yfirleitt er verðið á heitum mat í skóla um 5.000 krónur á mánuði. Auðvitað geta ýmsar ástæður verið fyrir því, að nemendur notfæri sér ekki þennan möguleika. Sumum líkar einfaldlega ekki sá matur, sem á boðstólum er, af einhverjum ástæðum en um þetta segir Þorsteinn Hjaltason, skólastjóri í Fellaskóla, í samtali við Morgunblaðið í gær: "Við höfum ekki gert neina könnun á því, en því miður óttast ég að efnahagur hafi þar eitthvað að segja. Ég mundi persónulega vilja að þetta væri í boði fyrir alla í skólanum þeim að kostnaðarlausu og væri hluti af heildarframlagi til skólanna." Fyrir nokkrum dögum birtist grein hér í blaðinu eftir Svandísi Svavarsdóttur, framkvæmdastjóra Vinstri grænna, þar sem hún segir m.a.: "Er ekki sennilegast að sumir foreldrar treysti sér einfaldlega ekki til þess að kaupa mataráskrift vegna kostnaðar? Og hvernig ætlum við að bregðast við því? Finnst okkur ásættanlegt að skipta börnunum okkar í stéttir eftir efnahag, strax í grunnskólanum? Þau, sem hafa efni á því að borða í mötuneytinu og hin sem hafa það ekki?" Það er áreiðanlega rétt hjá Þorsteini Hjaltasyni og Svandísi Svavarsdóttur, að meginástæðan fyrir því, að svo stór hluti nemenda nýtir sér ekki þann möguleika að borða heitan mat í skóla er kostnaðurinn. Og það er einfaldlega óþolandi, að allir nemendur eigi þess ekki kost óháð efnahag. Þess vegna eiga sveitarfélögin, sem nú bera ábyrgð á rekstri grunnskólanna, að koma rekstri þeirra fyrir með þeim hætti að allir nemendur skólanna eigi kost á heitum mat í skólanum þeim að kostnaðarlausu. Aðalatriðið er að það er óþolandi fyrirkomulag að sumir nemendur skóla fari í mötuneyti þeirra og borði heitan mat í skólanum en aðrir eigi þess ekki kost vegna efnahags. Við Íslendingar viljum ekki búa í slíku samfélagi. Það verður aldrei hægt að skapa algeran jöfnuð en það er hægt að koma í veg fyrir að ójöfnuðurinn verði of mikill. Reykjavíkurborg á þegar í stað að koma í veg fyrir að áfram standi þriðjungur nemenda að meðaltali fyrir utan dyr mötuneyta skólanna."
Undir þetta viðhorf tek ég heilshugar. Það gerir Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og einn helsti talsmaður Samfylkingarinnar í borginni, hins vegar ekki. Í viðtali í Morgunblaðinu í morgun er eftir honum haft að hann telji það ekki vera rétt að efnahagur valdi því að börn nýti sér ekki skólamáltíðir. Þetta hafi hann fengið staðfest í samræðum í "skólaumhverfinu". Látum þetta vera þótt það stangist á við yfirlýsingar annarra skólamanna, svo sem skólastjórans í Fellaskóla sem segist óttast að bágur efnahagur valdi því börn frá efnalitlum heimilum búi ekki við sömu kjör og börn efnaðri foreldra að þessu leyti. Vissulega eru þetta vangaveltur og mismunandi mat. Hitt er pólitísk afstaða sem mér þykir heldur skuggaleg og kemur fram í eftirfarandi ummælum sem höfð eru eftir Stefáni Jóni um að það sé "ekki rétt að hafa skólamáltíðir ókeypis, því börnin yrðu að fá tilfinningu fyrir því að um verðmæti væri að ræða."
Muna menn umræðuna um mikilvægi þess að efla kostnaðarvitund sjúklinga fyrir hálfum öðrum áratug, á fyrstu árum samstjórnar Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks? Sú umræða var mörgu sjúku fólki erfið, að það væri sérstakt keppikefli að reikna það út kvölds og morgna hver baggi það væri á samfélaginu með það í huga að draga úr heimtufrekju og kröfugerð! Almennt vakti þessi boðskapur úr heilbrigðisráðuneytinu á þessum tíma hörð viðbrögð í samfélaginu. Ég fæ ekki betur séð en sama hugmyndafræði sé hér uppi á teningnum, að nú þurfi að innræta kostnaðarvitund – að þessu sinni fátækum börnum. Nú getur kostnaðarvitund verið góðra gjalda verð og á heima í réttu samhengi. Vandinn er hins vegar eins og fyrri daginn, þegar kemur að nauðþurftunum, að efnafólkið skiptir slík vitund litlu máli. Hina efnaminni skortir hins vegar ekki vitundina, þá skortir efnin til að veita sér og sínum sjálfsögð gæði.