ÞARF AÐ ÞJÓÐNÝTA NÁTTÚRUPERLUR?
Áfram er rukkað löglaust við Kerið í Grímsnesi og norðanheiða segir „verkefnisstjóri" sem óvart er jafnframt landeigandi að svo gæti farið að loka verði við Leirhnjúk fái landeigendur ekki að rukka: http://ruv.is/frett/gaeti-thurft-ad-loka-an-gjaldtoku
Ferðamálaráðherrann lætur þetta allt viðgangast og gengur reyndar lengra og blessar athæfið og þar með ríkisstjórnin öll.
Auðvitað á að framfylgja lögunum í landinu og taka fyrir óheimila gjaldtöku. Og ef gengið er á almannarétt hljótum við að íhuga þjóðnýtingu náttúruperla. Auðvitað eru þær almannaeign í þeim skilningi að náttúran er okkar allra að njóta. Og ef náttúruperlurnar eru misnotaðar í hagnaðarskyni í krafti einkaeignarréttar á landi sem er undir þeim, yfir þeim eða umhverfis þær, er ekki annað að gera en þjóðnýta svo tryggja megi almannarétt.
Annað mun 21. öldin aldrei sætta sig við. Ég er sannfærður um að upp verður risið gegn misnotkun einkaeignarréttar á kostnað almennings. Þess vegna er gagnlegt að fara að venja sig við tilhugsunina um þjóðnýtingu í almannaþágu á náttúruauðlindum og náttúrudjásnum.