ÞARF EKKI AÐ ENDURREISA PÓLITÍKINA Í STÚDENTAPÓLITÍKINNI?
29.09.2016
Á vinnsluborði Alþingis er frumvarp sem, ef samykkt, hefði í för með sér stórkostelga skerðingu á kjörum hinna efnaminni að námi loknu og þýðir í reynd að verið að takmarka að fólk geti farið í nám sem ekki er öruggt að skili miklum tekjum. Gert er ráð fyrir að nema brott tekjutengingu afborgana námslána. Þetta er grundvallarbreyting og horfir til ranglætis og ójafnaðar.
Og viti menn, nánast sameinuð námsmannahreyfingin íslenska sendir eftirfarandi frá sér í gær:
„Formenn Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ), Félags Stúdenta við Háskólann á Akureyri (FSHA), Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík (SFHR) og Nemendasambands Tækniskólans (NST) skora hér með, fyrir hönd félaganna, á þingmenn stjórnarflokkanna jafnt sem stjórnarandstöðunnar að klára frumvarp um námslán og námsstyrki á þessu þingi. Stúdentar munu ekki una því að bíða til næsta kjörtímabils eftir endurbótum á námsaðstoðarkerfinu. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að þetta frumvarp er risastórt skref í átt að því námsaðstoðarkerfi sem við viljum sjá á Íslandi í framtíðinni, en það hefur í för með sér þau atriði sem stúdentar hafa lengi barist fyrir, til að mynda fyrirframgreiðslur, beina námsstyrki og 100% framfærslu...."
Inn í þetta vantar sitthvað, sbr, https://www.ogmundur.is/is/greinar/grasrotarpolitik-ad-kvikna
Öðru vísi mér áður brá. Við erum með ríkisstjórnina eins og hún er. Í ofanálag fáum við nú námsmannahreyfingu sem eru rústir einar miðað við það sem áður var.
Sú var tíðin að námsmannahreyfingin var félagslega þenkjandi. Þar var að finna varnarstoðir hinna þurfandi. Þær stoðir eru greinilega hrundar. Et tu Brute? spurði Sesar. Og enn er spurt.
Er ekki þörf á endurreisn í námsmannahreyfingunni? Þarf ekki að endurreisa pólitíkina í stúdentapólitíkinni? Og þá er ég að sjálfsögðu að tala um pólitík sem byggir á félagslegri sanngirni.