ÞAU ÁTTU SÉR DRAUM
Ákjósanleg skilyðri af hálfu stjórnvalda
Á viðskiptaþingi árið 2005 sagði Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra:
„Ég á mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Að hér á þessari litlu og hjartfólgnu eyju starfi kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki sem hafa kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda, vegna þess mannauðs sem í landinu býr og vegna mikils og góðs stöðugleika, hvort sem er í efnahagslegu eða stjórnmálalegu tilliti."
Eftirlitsregluverkið lágmarkað
Á Alþingi í mars þremur árum síðar sagði Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, arftaki aðalverkstjórans, Davíðs Oddssonar: "Frá því að tillögur umræddrar nefndar, sem forveri minn Halldór Ásgrímsson skipaði til að skoða alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi, komu fram, sem var í nóvember 2006, hafa ýmis skref verið ... Fyrst má nefna ný lög um starfstengda lífeyrissjóði... Aðalatriði þessarar hugmyndar er að nýta þá jákvæðu ímynd sem íslenska lífeyrissjóðakerfið hefur á alþjóðavettvangi vegna sjóðssöfnunar og samspils samtryggingar og séreignar í sjóðunum. Í öðru lagi má nefna að skattfrelsi hagnaðar af sölu hlutabréfa ...Í þriðja lagi vil ég nefna nýlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun tekjuskatts á fyrirtæki ...Í fjórða lagi hefur einnig markvisst verið unnið að því að draga úr skrifræði og kostnaði í reglusetningum hins opinbera, m.a. undir formerkjum þriggja ára aðgerðaáætlunar sem kallast Einfaldara Ísland... Að öðru leyti er ég sammála því sem segir í tillögu nefndarinnar, að mikilvægt sé að horfa til þess sem langtímamarkmiðs að ganga helst aldrei skemur í umbótum á rekstrarskilyrðum fyrirtækja en viðmiðunarþjóðir okkar gera...Til skoðunar hafa verið í fjármálaráðuneytinu drög að frumvarpi frá viðskiptaráðuneytinu um svokallaða fjárvörslusjóði..."
Sjálfstæðisflokkurinn, kvótakerfið og útrásin
Þessi saga á sér lengri rót. Að minnsta kosti frá því heimilað var að braska með veðsettan kvóta í byrjun tíunda áratgugar síðustu aldar í þann mund er hófst tveggja áratuga valdatími Sjálfstæðisflokks og meðreiðarfólks. Þá byrjaði útrásarævintýrið sem ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins studdu við fram á haustið 2008 þar til allt hrundi.
Þetta þekkja og muna margir. Eða hvað? Ég kem nú æ oftar fram í útvarps- og sjónvarpsþáttum með sjálfstæðismönnum sem ekkert virðast muna. Jú, það hafi skort aðhald og eftirlit. Mikið rétt! En meira var það ekki!
Búið í haginn fyrir braskið
Þetta er rangt, það var nefnilega svoldið mikið meira! Það var ásetningur Sjálfstæðisflokksins að gera Ísland að fjármálamiðstöð heimsins með minna reglugerðarverki og hagstæðari skattaskilyrðum fyrir braskfyrirtæki en fyrirfundust á á byggðu bóli. Framsókn stóð sig afbragðsvel í þessari viðleitni og Samfylkingin líka þegar að henni kom.
Þetta á eflaust allt eftir að koma fram í rannsóknarskýrslunni margumtöluðu. En var þetta glæpsamlegt? Að uppistöðu til, tel ég ekki svo hafa verið. Mest var gert í góðri trú og jafnvel vanrækslan í eftirliti hef ég grun um að hafi oftar en ekki byggt á óskhyggju, voninni um að allt færi á besta veg, jafnvel eftir að grunsemdir vöknuðu um að pottur væri illa brotinn. Hið glæpsamlega sem að stjórnvöldum snýr varðar að mínu mati fyrst og fremst einkavæðingu bankanna þegar einstaklingar og fyrirtæki mökuðu krókinn á fullkomlega siðlausan hátt. Allt of margir gerendur í þeim leik virðast mér enn vera á ferli í efnahagskerfi þjóðarinnar.
Fyrirheitna landið: Paradís braskaranna
En hvað sem brotum og brotalömum viðkemur þá má hitt aldrei gleymast að hrunið varð ekki til af sjálfu sér. Spilavítið Ísland var búið til með markvissum og yfirveguðum hætti. Þau áttu sér draum sem þau vildu gera að veruleika! Ísland sem paradís fyrir fjármálabrask.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ættu að hafa þetta í huga þegar þeir mæta sperrtir í umræðuþætti að óskapast yfir böli heimsins. Annars stoðar lítt að festast í fortíðinni nema að því leyti að af henni eigum við að draga lærdóma til að flytja með okkur inn í framtíðina.