ÞEGAR EITTHVAÐ VERÐUR AÐ EINHVERJU
Þingi hefur verið slitið og kosningar nálgast. Val á stjórnmálamönnum skiptir miklu máli því störf þeirra eru mikilvæg og getur verið örlagaríkt hvernig þeim tekst upp í verkum sínum. Þeir geta komist í aðstöðu til að taka ákvarðanir sem geta skipt sköpum fyrir líf fólks, einstaklinga og hópa og samfélagið allt og svo náttúrlega landið sem við byggjum, auðlindir þess og náttúru.
Stjórnmálamenn halda þó stundum að þeir ráði meiru en þeir gera í reynd. Þegar til lengri tíma er litið snýst spurningin um það hvað samtíð þeirra lætur þá komast upp með. Tíðarandinn fjötrar eða auðveldar stjórnmálamönnum lífið eftir atvikum. Og í mótun tíðarandans taka miklu fleiri þátt en stjórnmálamennirnir einir. Það gerir fjölmiðlafólk, skáldin, rithöfundarnir, kvikmyndagerðarmenn og aðrir listamenn, námsmannahreyfingar, hvers kyns baráttusamtök, verkalýðshreyfing, umhverfissamtök, áhugasamir einstaklingar, pabbi og mamma, afi og amma.
Já, umhverfisverndarsamtök. Þegar ég kom fyrst inn á þing fyrir rúmum tuttugu árum var óspart hent gaman að umhverfissinnum. „Ef þið ekki viljið virkjanir og stóriðju, hvað þá?" Því var gjarnan hnýtt við, að ef menn ekki vildu stóriðjuna þá væri það væntanlega „bara eitthvað annað". Svo var hlegið mikið. Vandinn væri hins vegar sá að þetta „eitthvað" væri ekki í hendi.
Síðan líður tíminn. Nú er ýmislegt í hendi sem margir komu ekki auga á undir síðustu aldarlok.
Ferðamenn fylla hér hótel, sem áður voru tóm eða ekki til, og þeir kaupa margvíslega þjónustu sem blómstrar sem aldrei fyrr; á veitingastöðum sem áður voru mannlausir er nú fullt út úr dyrum, skipulagðar eru skoðunarferðir, hestaleigur gera það gott svo og hvalaskoðun, sjóstangaveiði og margt annað. Söfn spretta upp og þau sem voru fyrir bæta sig. Ef vel er á haldið og við vöndum okkur þá ætti fjölgun ferðamanna að getað orðið til þess við kynnum Ísland og íslenska menningu og sögulega arfleifð okkar betur en áður hefur verið gert. En að sjálfsögðu þarf að vanda sig og láta ekki græðgina ná tökum á sér. Það hefur verið viðvarandi vandamál með þessari þjóð - kannski með öllum þjóðum.
Svo má ekki gleyma því að landið er viðkvæmt og umgengni um það þarf að vera af varfærni. En hvað sem öðru líður þá er nú komið þetta „eitthvað annað" sem áður var spaugað með.
Og er þá ekki byrjað að nefna margvíslega sprotastarfsemi, blómstrandi kvikmyndaiðnað, framleiðslu í tækjum og vélbúnaði tengda sjávarútvegi og svo náttúrlega hefðbundnar matvælagreinar, landbúnaðinn og sjávártveginn. Á öllum sviðum eru möguleikar til framþróunar og það gleðilega er að víðast hvar eru þeir vel nýttir.
Sjálfur hef ég gegnt ýmsum hlutverkum í lífinu og er aldrei alveg viss um í hvaða hlutverki ég hafi haft mest áhrif í þágu þeirra baráttumála sem brunnið hafa innra með mér.
Í komandi kosningum hverf ég af þingi, meðvitaður þess að allt á sinn tíma og meira að segja æskilegt að öðru hvoru breyti menn til og hasli sér nýjan vettvang til að vera þátttakandi í mannlífinu.
En hvað sem hendir okkur sem einstaklinga, þá verður samfélagið til staðar og heimurinn allur og bíður eftir því að láta breyta sér svo þetta „eitthvað" geti orðið að einhverju góðu og uppbyggilegu.