Þegar féhirðir hirðir fé
Birtist í Fréttablaðinu 27.12.2003
Pétur H Blöndal alþingismaður hefur oft haft á orði að sparisjóðir landsins hafi að geyma fé án hirðis. Með þessu vill Pétur leggja áherslu á að ef ábyrgðarmaður fjármálastofnana hefur ekki beinna persónulegra hagsmuna að gæta eða er ekki beint ábyrgur gagnvart slíkum hagsmunatengdum aðilum þá kunni illa að fara fyrir hinum geymdu fjármunum.
Þeir sem njóta þjónustu sparisjóðanna í landinu hafa fæstir deilt þessum áhyggjum með Pétri H. Blöndal og það eru ófáir einstaklingar. Fjórði hver landsmaður er í viðskiptum við sparisjóðina og hafa þeir þannig verið eftirsóknarverður valkostur við bankana. Sparisjóðirnir á Íslandi hafa náið samstarf sín á milli, reka Sparisjóðabanka Íslands sem annast viðskipti þeirra við útlönd og í tölvu- og tæknimálum er einnig um náið samstarf að ræða. Þess vegna skiptir alla sparisjóðina í landinu máli hver verða örlög hvers sjóðs um sig.
Sparisjóðirnir byggja á félagslegu átaki
Hlutverk sparisjóðanna hefur verið mjög þýðingarmikið í íslensku atvinnulífi og mörgum byggðarlögum mikil lyftistöng enda voru þeir settir á laggirnar með félagslegu átaki. Ekki er ég einn um þessa söguskoðun og get ég þar vitnað til greinargerðar sem birtist með stjórnarfrumvarpi um banka og sparisjóði í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þar sagði m.a.: „Sparisjóðir á Íslandi, líkt og annars staðar í Evrópu, eru fyrst og fremst staðbundin fjármálafyrirtæki með sterk tengsl við starfssvæði sitt og nána samvinnu sín á milli. Sparisjóðirnir hafa verið reknir með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum en ekki til hámarksarðs fyrir stofnfjáreigendur. Markmiðið með rekstrinum var að stuðla að almannahag.“
Þetta fé sem Pétur H. Blöndal hefur sagt vera "án hirðis" var semsé fyrst og fremst notað til að stuðla að almannahag. Þetta töldu nokkrir skoðanabræður þingmannsins ekki ná nokkurri átt og fyrir rúmu ári var hafist handa um að koma eignarhlut nokkurra "eignaglaðra", svo stuðst sé við hugtakanotkun forsætisráðherra, stofnfjárfesta í almennilegt verð. Búnaðarbankinn var heldur betur til í tuskið og í samvinnu þessara aðila átti tvennt að gerast, stofnfjárfestarnir áttu að fá tækifæri til að hagnast vel á sínum hlut og Búnaðarbankinn átti að standa uppi sem eigandi Spron.
Var ríkisstjórninni aldrei alvara?
Í þjóðfélaginu vildi fólk almennt ekki una þessu. Bent var á að þetta væri á gráu svæði í lagalegu tilliti. Vildu margir meina að því aðeins væri löglegt að selja stofnfjárhluti að þeir væru framreiknaðir samkvæmt vísitölu en ekki á uppsprengdu verði. Fjármálaeftirlitið úrskurðaði á annan veg. Á sama tíma lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún myndi beita sér fyrir því að löggjafinn skærist í málið. Viðskiptaráðherra sagði nauðsynlegt að reisa skorður við „fjandsamlegri“ yfirtöku sparisjóðanna á þann hátt sem Búnaðarbankinn í samvinnu við PHB og félaga gengust þá fyrir. Í framhaldinu var lögfest að því aðeins mætti selja virkan stofnfjárhlut, að annað hvort væri það gert sem liður „í nauðsynlegri fjárhagslegri endurskipulagningu viðkomandi sparisjóðs“ eða að það væri „ liður í eflingu milli sparisjóða í landinu.“
Hvorugu þessara skilyrða er fullnægt í fyrirhuguðum kaupum Búnaðarbankans á SPRON enda stendur til að breyta sparisjóðnum í hlutafélag og komast þannig framhjá lögunum. Nú bregður svo undarlega við að viðskiptaráðherra lýsir yfir mikilli hrifningu yfir þeirri kænsku sem við erum að verða vitni að! Skítt með markmið laganna sem hún talaði svo fjálglega fyrir í fyrrasumar. Var ríkisstjórninni ef til vill aldrei alvara að standa vörð um sjálfstæði sparisjóðanna? Ekki verður þó betur séð en að nánast það sama sé að gerast nú og við stóðum frammi fyrir síðsumars árið 2002. Búnaðarbankinn er að gleypa SPRON og Pétur og stofnfjárfestarnir eru í þann veginn að maka krókinn á sölu sinna hluta sem verða keyptir á tæplega sexföldu gengi! Féð er semsagt komið í umsjá hirða, að vísu ekki þeirra sem ættu að eiga tilkall til fjárins – viðskiptavina sparisjóðsins, heldur hinna ágengustu í hópi stofnfjárfesta, þeirra sem áhugasamastir eru um eigin hag. Og það sem verra er, þessir fjárhirðar virðast staðráðnir í að hirða allt fé sem þeir komast yfir.