Fara í efni

ÞEGAR HUGMYNDA"FRÆÐIN" TEKUR YFIR


Lífsreynslan kennir að háskalegt er þegar skynsemi og dómgreind er tekin yfir af hugmynda"fræði". Trú á hugmyndafræði - hina "réttu leið" er alltaf varasöm. Trúin á hugmyndafræði þýðir að menn vísa reynslunni á bug; að við þurfum ekki á henni að halda. Bara horfa fram á við, einu gildi hverjar eru afleiðingar gjörða manna. Fullvissan um hið rétta skipulag stýrir för.

Þetta var vinnulagið á 20. öldinni öndverðri hjá valdstjórnarkommúnistum og undir aldarlok, kapítalistum af harðsvíraðri gerð.
Allt þetta datt mér í hug þegar ég fletti Fréttblaðinu sl. föstudag. Þar var okkur sagt eina ferðina enn að við ættum allt undir því komið að virkja markaðslögmálin og samkeppnina.

Tilefnið var að saman voru komnir fulltrúar Samkeppnisstofnana Norðurlanda. Mættir til fundar í Reykjavík til að bakka hver annan upp: Samkeppni væri allra meina bót sögðu þeir einum rómi!

Við vitum hins vegar að reynslan kennir annað; að samkeppnin féll á prófinu - eins og valdstjórnarkommúnisminn í sínum tíma. Og nú hrár græðgiskapítalisminn.
Ég hefði haldið að samkeppnisstofnanir Norðurlanda myndu á fundi sínum nú segja að reynsla undangenginna ára kenndi að ofurtrú á samkeppni hefði keyrt okkur í þrot; að kannski hefði átt, í ríkari mæli en gert hefur verið, að huga að samvinnu í stað samkeppni. Ef það hefði verið boðskapurinn frá hinum norrænu gestum þá hefði verið hægt að taka þá og yfirlýsingar þeirra alvarlega. Svona var það þó ekki.
Þess vegna leitaði hugurinn upp á Kremlarmúrinn. Áttatíu árum eftir að hugsjónirnar dóu austur þar. Og við tók jakkafata- og (í minna mæli) dragtarklæddur veruleikinn. Veruleiki sem stýrður er af vel snurfusuðu fólki sem líður vel í öllum kerfum.