ÞEGAR VÉLIN ER STÖÐVUÐ ER HÆTT AÐ SMYRJA
11.08.2013
Evrópusambandið hefur ákveðið að skrúfa fyrir svokallaða IPA styrki til Íslands. IPA er skammstöfun fyrir Instrument for Pre-accession assistance. Á íslensku myndi þetta útleggjast sem stuðningur í aðdraganda aðildar.
VG lýsti margoft andstöðu við þessa styrki enda eru þeir hugsaðir til að liðka fyrir aðlögun og síðan inngöngu ríkja í Evrópusambandið. VG féllst á sínum tíma á aðildarumsókn en tók síðan að hrjósa hugur við því hve langt ESB gekk í því að krefjast aðlögunar á því tímabili sem samnigsdrög voru í umræðuferli.
Um þetta ritaði ég ófáar greinar. Rauður þráður í þeim var að hraða bæri viðræðum og ef fyrirsjáanlegt væri að þær yrðu dregnar á langinn yrði þjóðin spurð hvort hún vildi ganga í ESB á grundvelli þeirrar vitneskju sem fyrir lægi. Lýðræðisleg niðurstaða yrði þannig fengin. Um þetta skapaðist hins vegar því miður aldrei víðtækur vilji innan stjórnarmeirihlutans.
Lokun fyrir IPA styrkina nú, eftir að viðræður eru stöðvaðar, er rökrétt af hálfu ESB og fráleitt annað fyrir Íslendinga en að taka þeirri ákvörðun reiðilaust og sem eðilegum hlut.
Það breytir því hins vegar ekki að þetta er grafalvarlegt mál fyrir margar stofnanir sem höfðu reiknað með miklum fjármunum til þeirra verkefna sem IPA styrkirnir voru ætlaðir til.
Nákvæmlega þess vegna var varhugavert að fallast á viðtöku IPA styrkja enda hefðu þeir getað orðið miklu hærri ef ríkari vilji hefði verið unnan ríkisstjórnarinnar að róa á þessi gjöfulu mið. En þar með hefðum við orðið þeim mun háðari viðsemjenda okkar.
Viðræðuferli þar sem peninga-gulrót er nýtt með þessum hætti getur aldrei byggst á jafnræði. Í þessu samhengi má þó aldrei gleymast að að þessir peningar koma ekki af himnum ofan; það eru að sjálfsögðu sakttgreiðendur sem borga þessa styrki og það hlutskipti hefði beðið okkar við inngöngu í ESB.
Í umræðu undanfarna daga hefur komið vel í ljós hve eitraðar þessar styrkveitingar voru. Þær voru eins og nafngiftin ber með sér, veittar á forsendum aðildarviðræðnanna, hugsaðar sem smurningsolía í aðlögunar/og aðlidarviðræðum Íslands að sambandinu.
Þegar samningavélin er stöðvuð er við því að búast að hætt sé að smyrja.